Suicide Squad er ofurhetjumynd eftir leikstjórann og handritshöfundinn David Ayer. Með helstu hlutverk fara Will Smith, Margot Robbie, Jared Leto og Joel Kinnaman. Myndin er hluti af kvikmyndaheimi DC og er óbeint framhald kvikmyndanna Man Of Steel og Batman v. Superman: Dawn Of Justice.

Þegar kemur að sögu myndarinnar þá sker hún sig úr að því leyti að allar aðalhetjur myndarinnar eru illmenni sem hafa drepið hundruði manna. Þær eru allar þvingaðar af yfirvöldum til að sinna ýmsum ólöglegum verkefnum fyrir yfirvöld. Ef það tekst fá þau að sleppa fyrr úr fangelsi, ef ekki eru þau drepin. Þær persónur sem fólk sem fylgist ekki gríðarlega vel með teikmyndasögum þekkja fyrirfram eru fáar en þó spilar Jókerinn (Jared Leto) mjög stórt hlutverk.

Flest allir leikarnir standa sig vel og þá sérstaklega Will Smith, Margot Robbie og Jared Leto. Will Smith fær það erfiða hlutverk að þurfa leika í nokkrum atriðum á móti ungri stelpu sem leikur dóttur hans en sú stúlka kann einfaldlega ekki að leika en Will Smith nær að bjarga þeim fyrir horn. Kvikmyndataka myndarinnar er virkilega góð og passar rosalega vel við persónurnar. Mikið af þekktri tónlist er notað í myndinni til að undirstrika viss atriði eins og Eminem og Panic! At the Disco og tekst það vel í flestum tilfellum. Það besta við myndina er án efa listræn stjórnun hennar. Allir búningar, öll förðun og útlit alls er hreint út sagt stórkostleg.

Sagan er algjör meðalmennska. Það þarf að stoppa stóra vonda kallinn og hópurinn er fullur af flippurum, það er ekkert verið að flækja málið neitt. Stærsta vandamál Suicide Squad er að kynna meðlimi hópsins á góðan máta fyrir áhorfendum. Vissulega eru allar persónurnar sem kynntar eru til leiks áhugaverðar en það fer alltof mikill tími í að kynna þær og samanstanda fyrstu 30 mínúturnar nánast eingöngu af slíkum kynningum. Þetta hefur þau áhrif að upphafið lítur út eins og löng kvikmyndastikla.

Suicide Squad er fjörug ofurhetjumynd, skemmtileg og gullfalleg en á köflum furðulega klippt.

Einkunn: 7 af 10 mögulegum

SUICIDE SQUAD: Hetjur og illmenni.

 

 

Related Posts