Star Trek: Beyond er þriðja myndin í nýjustu Star Trek kvikmyndaseríunni en á undan henni komu myndirnar Star Trek árið 2009 og Star Trek: Into Darkness árið 2013.

Í myndinni fylgjumst við með áhöfn geimskipsins Enterprise svara neyðarkalli handan ókannaðrar stjörnuþoku. Myndin er leikstýrð af Justin Lin, sem er þekkastur fyrir að leikstýra þremur Fast & Furious myndum, og Chris Pine, Zachary Quinto, Zoe Saldana, John Cho, Karl Urban, Simon Pegg og Anton Yelchin leika sömu hlutverk og þau gerðu í fyrri myndunum.

Myndin skilar flest öllu nokkuð vel frá sér. Allur leikur er til fyrirmyndar, sagan er temmilega áhugaverð og tæknibrellurnar glæsilegar. Simon Pegg ber af í leiknum og er í mun stærra hlutverki í þessari mynd en fyrri og það spilar eflaust inn í að hann var annar handritshöfundur myndarinnar. Leikkonan Sofia Boutella á sterka innkomu sem geimveran og stríðsmennið Jaylah. Eitt sem Star Trek: Beyond gerir betur en fyrri myndirnar er að koma fólki á óvart, sögulega séð, og vinnur algjörlega fyrir því.

Helsta vandamál Star Trek: Beyond er sama vandamál og fyrri myndirnar glímdu við; það skortir alla áhættu. Ekkert í myndatöku, leikstjórn, sögu, leik eða öðrum hlutum reynir að gera nýtt eða finna nýja leið til að gera eitthvað gamalt á annan máta. Það virðist vera að allar ákvarðanir hafi verið teknar með það í huga að gera hlutina eins skynsamlega og völ var á. Kvikmyndagerð 101. Þegar myndinni lauk og nafn Justin Lin kom upp á skjáninn þá hafði mér ekki dottið í hug að Star Trek: Beyond væri ekki með sama leikstjóra og fyrri tvær myndirnar, svo lítill er munurinn á myndunum.

Í myndinni er eitt atriði sem verður sérstaklega að ræða um. Í mörgum myndum er notast við tónlist eftir heimsþekkta flytjendur þó að það passi ekki endilega vel við. Í Star Trek: Beyond spilar tónlist stærra hlutverk en í næstum öllum kvikmyndum og verður án vafa það fyrsta sem allir ræða um þegar myndinni líkur, og fólk annað hvort hatar atriðið eða elskar það.

Star Trek: Beyond er í heildina séð vel gerð ævintýramynd sem er auðmelt og einstaklega hefðbundin.

Einkunn: 7 af 10 mögulegum

SPOCK: Furðulegur svipur á kallinum.

Related Posts