Félagarnir Jon Lucas og Scott Moore skrifuðu og leikstýrðu myndinni Hangover, þar sem að pabbar gerðu uppreisn, duttu í það og fleira með kostulegum afleiðingum. Í myndinni Bad moms fá mömmurnar sína uppreisn og er líklegt miðað við viðbrögðin við myndinni að við fáum að sjá Bad moms 2.

Mila Kunis (Black Swan, Friends with benefits) leikur Amy Mitchell tveggja barna móður og eiginkonu sem við fyrstu sýn hefur allt: flottan eiginmann, frábæra krakka, hund, einbýlishús í úthverfi, bíla og er yfirmaður í vinnunni sinni. Hún er þó orðin úttauguð, stressuð, alltaf of sein í allt, ekki í takt í zumbatímanum sem hún reynir að troða í dagskrána einu sinni í viku og eiginmaðurinn er búinn að halda framhjá henni í nokkra mánuði með konu sem hann „hittir“ reglulega í gegnum klámsíðuna hennar á netinu.

Einn daginn fær hún gjörsamlega nóg á foreldrafundi í skólanum. Tvær mömmur ákveða að slást í lið með henni, Carla (Katryn Hahn: How to lose a guy in 10 days, The Secret life of Walter Mitty) sem er einstæð móðir með unglingsdreng og Kiki (Kristen Bell: þættirnir Veronica Mars, Forgetting Sarah Marshall) sem er fjögurra barna móðir sem á eiginmann sem finnst það hennar starf að vera heima að hugsa um börnin.

Fullkomna þríeykið í foreldrafélaginu, leiknar af Christina Applegate (þættirnir Samantha Who?, Anchorman), Jada Pinkett Smith (Collateral, Scream 2) og Annie Mumolo (This is 40, Bridesmaids), eru ekki sáttar við þessa ákvörðun og þá fyrst hefst fjörið.

Að sjálfsögðu verður svo að henda með minnst einu augnakonfekti fyrir okkur þreyttu húsmæðurnar að dást að og fær Jay Hernandez (þættirnir The Expanse, Suicide Squad) það hlutverk, en hann leikur ekillinn Jessie Harkness, sem bókstaflega allar mömmurnar slefa yfir.

 

Myndin er akkúrat það sem stiklan sýnir, góð grínmynd. Ég hélt eins og stundum gerist að allir brandarar væru í stiklunni og maður myndi því ekki einusinni brosa út í annað yfir myndinni, en svo er alls ekki. Ég hló næstum allan tímann og bókstaflega veinaði í sumum atriðunum.
Sem einstæð móðir til margra ára, sem gafst upp á að eiga alltaf hrein börn og hrein gólf (bæði í einu er bara ekki hægt stundum) tengdi ég vel við mörg atriðin. Sum atriðin ganga hinsvegar ekki upp, en það bara skiptir engu máli.

Myndin er ekki að fara að vinna nein verðlaun á einhverjum hátíðum, en það bara skiptir heldur engu máli, ég vann heldur engin verðlaun á hátíð fyrir foreldrahlutverkið.

Skelltu þér í bíó eina kvöldstund með vinkonunum, dætrunum, mömmunum, systrunum, já eða karlinum þínum, hann mun pottþétt skemmta sér konunglega líka.

Þetta höfðu nokkrir bíógestir í gær að segja um myndina:

„Sjúklega fyndin og skemmtileg.“

„Myndin var ótrúlega fyndin, margt sem maður þekkir úr eigin motherhood. Tengdi fullt, mæli klárt með þessari snilldar ræmu fyrir alla konur og karla, karla með hár og karla með skalla. Öllum mömmum langar að vera FULLKOMNAR en það er síðan bara ekki hægt, það fylgir ekki doðrantur þessu hlutverki þetta er meira svona learning by doing and testing.“

„Hún var geggjuð fyrir hlé, það er langt síðan ég hef hlegið svona mikið, en svo fjaraði aðeins úr henni eftir hlé en á heildina litið mjög góð mynd.“

„Snilldar mynd, hló mig máttlausa fyrir hlé og eftir hlé, frekar í rólegri kantinum en mæli hiklaust með BAD MOMS.“

Séð og Heyrt skellir upp úr alla daga.

Related Posts