Emma Roberts (sjónvarpsþættir Scream Queens og American Horror Story) leikur miðskólanemann Vee Delmonico, sem er vön því að vera góði, duglegi og samviskusami nemandinn og dóttirin, en hún býr hjá einstæðri móður sinni Nancy, sem leikin er af Juliette Lewis (What´s Eating Gilbert Grape og Natural Born Killers), sem tilnefnd hefur verið bæði til Óskarsverðlauna og Golden Globe verðlauna fyrir fyrri hlutverk sín.

Vinkona Vee, Sidney, leikin af Emily Meade (Money Monster), er algjör andstæða hennar, þorir öllu, hressa týpan allsstaðar og allir strákarnir skotnir í henni. Sidney skorar á Vee að taka þátt í nýjum áskorunarleik á netinu sem kallast Nerve, Vee samþykkir og skráir sig í eina að því er virðist meinlausa áskorun. Og kynnist við hana Ian, leikinn af Dave Franco (22 Jump Street og Unfinished Business), en fljótlega kemur í ljós að hann er líka að taka þátt í leiknum. Eftir því sem líður á kvöldið og nóttina vindur leikurinn upp á sig og áskoranirnar verða erfiðari og hættulegri, eftir því sem þeim fjölgar. Og á endanum er þetta spurning um hvort þau muni lifa af eða ekki.

Henry Joost og Ariel Schulman (Catfish) leikstýra og handritið skrifar Jessica Sharzer eftir samnefndri bók Jeanne Ryan.

Myndin er hin fullkomna unglingamynd: sæt og feimin stelpa í Þyrnirósarleik, sæti draumaprinsinn á mótorhjóli, falleg föt, spenna, hraði, ást, internetið og samfélagsmiðlarnir allt hnýtt saman með góðri teknótónlist.
Leikarar hennar geta allir leikið og þó að reyni ekki mikið á leiklistarhæfileikana í þessari mynd, þá þarf þess ekki. Sögunni er ekki ætlað að vera flókin eða djúp. Að vísu er smá boðskap dreift yfir undir lokin og vonandi að þeir unglingar sem á myndina horfa taki hann til sín og taki sjálfstæðar ákvarðanir á samfélagsmiðlunum, í stað þess að fylgja hlutlausum meirihlutanum, áhorfendum.

Myndin er að fá fína dóma á IMDB 7,2 og er Séð og Heyrt nokkuð sammála og gefur henni 3,5 stjörnu af 5 mögulegum.

Þetta höfðu nokkrir bíógestir í gær að segja um myndina:

„Betri en ég bjóst við.“

„Góð mynd, myndi mæla með henni.“

„Filman þessi fínasta afþreying. Gæti mögulega verið sannsöguleg í framtíðinni, ýmislegt sem unglingar leggja á sig til að vinna tölvuleik. Aðeins of dramatísk in the end. Myndi klárt mál mæla með þessari ræmu fyrir alla unglinga og ungt fólk.“

„Mjög góð mynd, kom á óvart.“

„Mér fannst hún bara mjög fín, smá spenna og pínu krúttileg líka, enda strákurinn (aðalleikarinn) svo sætur.“

 

Lestu Séð og Heyrt alla daga.

 

images

 

Related Posts