Jason Bourne er fimmta myndin í kvikmyndaseríunni en þær hafa allar nema ein snúist um persónuna Jason Bourne (Matt Damon) og baráttu hans við yfirvöld í Bandaríkjunum og leit hans að sínum innri manni eftir að hafa verið heilaþveginn.

Saga Jason Bourne er einföld. Jason Bourne kemst að hlut um fortíð sína sem hann vissi ekki áður og yfirvöld í Bandaríkjunum vilja njósna um fólk án þeirra vitundar. Jason Bourne fer heimshorna á milli í leit að vísbendingum og vondu fólki.  Af einhverri ástæðu sáu höfundar myndarinnar ástæðu til að búa til fyrirtæki sem minnir mikið á Facebook sem njósnar um fólk fyrir hönd Bandaríkjanna í ádeilu sem kemur fimm árum of seint. Ljósi punkturinn þar er þó leikarinn Riz Ahmed, sem leikur gervi-Mark Zuckerberg, sem er án efa besti leikarinn í myndinni. Myndin er gríðarlega vel tekin upp og varla er hægt að sjá hvar tölvutæknibrellur voru notaðar og hvar hlutirnir voru einfaldlega bara gerðir í alvöru. Bílaeltingaleikir, bardagaatriði og tæknileg atriði eru öll til fyrirmyndar.

Vandamálið er að það er búið að gera þessa mynd áður, nánar til tekið þrisvar sinnum áður þegar Matt Damon lék Jason Bourne. Það er ekkert nýtt að frétta í heimi Jason Bourne. Þegar mynd fjögur kom út og Jeremy Renner tók við af Matt Damon var mikið tal um að Bourne-myndirnar yrðu svar Bandaríkjamanna við James Bond og Bourne-myndirnar þyrftu ekki á Matt Damon að halda. Munurinn á Bond-myndunum og Bourne-myndunum er hins vegar að Bond er í nýjum verkefnum, að mestu leyti, í hverri mynd meðan Jason Bourne er í raun að gera nákvæmlega sömu hluti og hann gerði í fyrstu myndunum, bæði sögulega séð og hvernig myndirnar sjálfar líta út. Það væri frekar lítið mál að taka atriði úr fyrstu myndinni og setja í þessa án þess að fólk tæki eftir því.

Jason Bourne er góð og vel gerð mynd en hún býður ekki upp á neitt sem eldri myndirnar gerðu ekki betur.

Einkunn: 6 af 10 mögulegum

JASON BOURNE: Ennþá á sama stað í lífinu.

 

Related Posts