Independence Day: Resurgence er framhaldsmynd Independence Day sem kom út árið 1996 og fjallaði um innrás geimvera. Will Smith og Jeff Goldblum fóru með aðalhlutverkin í þeirri mynd, sem þykir ein sú eftirminnanlegasta mynd tíunda áratugar seinustu aldar.

Í Independence Day: Resurgence sjáum við heim 20 árum eftir fyrstu myndina og hefur mannkynið nýtt sér mikla af þeirri tækni sem brotlentu geimskipin úr fyrri myndinni innihéldu. Fljúgandi bílar, ekkert mál að ferðast út í geim og fleira í þeim dúr. Á þessum 20 árum hefur mannkynið sameinast á algjöru friðartímabili eftir innrás geimvera. Fleiri geimverur, af sömu tegund, koma og ætla að hefna sín duglega á íbúum jarðar eftir að hafa fengið neyðarkall frá vinum sínum fyrir 20 árum. Jeff Goldblum leikur í myndinni og er nokkuð góður í því sem hann fær að gera. Tvær persónur skera sig algjörlega úr í gæðum og það eru afrískur stríðsherra og vísindamaður sem dó í fyrstu myndinni en í Independence Day: Resurgence vaknar hann einfaldlega úr dái. Myndin lítur ágætlega út og eru flestar tæknilegar hliðar hennar sem snúa að grunnkvikmyndagerð ásættanlegar. Þá er í raun allt jákvætt við Independence Day: Resurgence talið upp.

Til sögu eru kynntar fjórar ungar persónur sem fara að mestu leyti með stærstu hlutverkin og ekki nóg með það þá eru þau börn eða vinir barna aðalpersóna úr fyrstu myndinni. Það væri kannski í góðu lagi ef þau væru ekki svo óstjórnlega leiðinleg, öll með tölu. Þær eru allar leiknar af leikurum sem hafa staðið sig vel í öðrum bíómyndum og sjónvarpsþáttum en leikararnir ná engum tengslum, hvorki við aðra leikara né áhorfendur. Sagan er líka mjög fyrirsjáanleg, fyrir utan seinustu 10 mínúturnar, og auðvelt að sjá frá fyrstu sekúndu hvaða persónur munu lifa myndina af og hvaða persónur munu deyja. Öllu spennuatriði í myndinni eru þreytandi og maður fær aldrei tilfinningu fyrir að einhver persóna sé í hættu, fyrir utan þá sem munu augljóslega deyja. Allt þetta leiðir til þess að þessi tveggja tíma mynd leið eins og þriggja tíma mynd.

Nú skulum við snúa okkur að hvernig myndin endar. Það verður ekki farið út í nein smáatriði en myndin er næstum þess virði að sjá til að sjá þennan endi. Það er ákveðið loforð sem framleiðendur myndarinnar gefa undir loka myndarinnar varðandi næstu mynd, verði slík gerð, sem mun annaðhvort leiða til þess að Independence Day 3 verði besta eða versta mynd allra tíma.

Einkunn: 3 af 10 mögulegum

INDEPENDENCE DAY: RESURGENCE: Jeff Goldblum er ekki skemmt

Related Posts