Jón Mýrdal (40) eigandi Húrra og Bravó:

 

Athafnamaðurinn Jón Mýrdal hætti að drekka en sneri þó ekki alveg baki við bjórnum því hann opnaði bjórkrá og lét ekki þar við sitja – hann opnaði tvær.

Ég verð alltaf hamingjusamari og ákveðnari í að drekka ekki með hverjum deginum sem líður. Enda koma verðlaunin, sem eru að vera ekki þunnur, á hverjum degi.“

myrdal 2

SÍKÁTUR: Jón Mýrdal er hoppandi kátur yfir því að vera hættur að drekka.

Manískur með meiru „Ég sá það strax þegar ég byrjaði að þetta er alvörufyrirtæki, þessir tveir barir sem ég er með. Ég þarf að vera mættur í vinnunna klukkan níu á morgnana og farinn heim klukkan eitt á kvöldin, það sér hver heilvita maður að það er ekki hægt fullur,“ segir eigandi skemmtistaðanna Húrra og Bravó, Jón Mýrdal, en hann ákvað að hætta að drekka eftir að hann byrjaði með skemmtistaðina.

Ég sá það fljótt að það gengi ekki að drekka með þessu starfi. Enda var allt æðislegt eftir að ég hætti að drekka, þá hafði ég miklu meiri orku í þetta. Ég er ekki að segja að ég hafi verið alltaf fullur, heldur var ég mjög oft andlega þunnur. Þegar maður er andlega þunnur þá nennir maður ekki að svara símanum og eiga við vandamálin sem koma upp,“ segir Jón og brosir.

Manískur og mætir snemma

Jón segir sjálfan sig vera afar orkumikinn mann sem kann best við sig þegar það er mikið að gera. „Eflaust myndu einhverjir kalla mig manískan. Eftir að ég hætti að drekka þá bættist orkan sem fór í brennivínið ofan á orkuna sem ég hafði fyrir.“

Jón venur komur sínar á barinn um níu á morgnanna sem hann segir ekki vera algengt af bareiganda. „Þetta finnst mörgum skrýtið sérstaklega þeim sem ég þarf að eiga við hérna í barbransanum, eins og dreifingaraðilum. Þeir hitta yfirleitt engan fyrir hádegi.“

Þetta er fyriræki eins og hvað annað. Að opna Húrra var að fylla upp í gap sem ég sá í íslensku skemmtanalífi, það var enginn tónleikastaður eftir. Þetta lá vel við því ég hef mikinn áhuga á tónlist og þekki marga tónlistarmenn. Viðtökurnar hafa líka verið framar vonum, það eru 15-20 tónleikar á mánuði og allt gengur vel.“

Allir sáttir

Jón segir tónlistarmennina vera hamingjusama með fyrirkomulagið sem er í gangi á Húrra. „Við tökum litla prósentu af miðasölunni og sköffum allt sem viðkemur tónleikahaldi eins og trommusett, gítarmagnara og bassamagnara. Það eru að koma hingað tónlistarmenn sem hafa aldrei áður fengið borgað fyrir það að spila. Staðurinn trekkir vel að og þeir þurfa ekki að standa í öllu veseninu sem fylgir tónleikahaldi. Ef ég hefði sjálfur verið í hljómsveit þá hefði ég viljað hafa þetta svona,“ viðurkennir Jón.

Fyrir utan tónleikastaðinn Húrra á Jón barinn Bravó á Laugavegi sem hefur heldur betur slegið í gegn hjá landanum. „Bravó er vel staðsettur bar, látlaus og þar eru engir stælar. Ég var heppinn með staðsetningu en það er enginn sérstakur galdur á bak við velgengnina nema kannski að ég er mikið á staðnum og duglegur að hlúa að þessu. Fólkið þarf að vita að klósettin séu hrein, allt áfengi þarf að vera til og mikill stöðugleiki.“

Draumurinn að opna veitingastað

Jón er sjálfur kokkur og því vel við hæfi að spyrja hvort það sé ekki á döfinni að opna nýjan stað sem bjóði þá upp á mat með bjórnum. „Hugsanlega opna ég einhvern tímann þriðja staðinn og þá verður það veitingastaður. Upprunalega ætlaði ég að opna veitingastað á Bravó en síðan tafðist það og við byrjuðum á því að opna barinn. Barinn byrjaði síðan það vel að ég gerði mér grein fyrir því að þetta væri kannski bara fínt. Það er minn draumur að opna veitingastað, hann rætist vonandi á næsta ári. Hann á samt ekki að heita Jibbí,“ segir Jón og hlær.

mýrdal 2

ÁÐUR: Svona leit Jón Mýrdal út áður en hann hætti að drekka.

Jón segir að það sé mikið af fastakúnnum sem sæki barina en aldrei neitt vesen. „Það er fólk sem kemur fimm sinnum eða oftar á barinn. Það er mjög dýrmætt fyrir mig að eiga þessa fastakúnna og það er aldrei vesen. Við erum ekki með ógæfumenn. Ég held að Íslendingar séu byrjaðir að drekka oftar og minna. Ég sé ekki mikil læti þegar ég er til staðar enda fer ég ekki mikið í bæinn klukkan fjögur á næturnar þegar búið að kveikja á dýragarðinum.“

Verðlaunin koma á hverjum degi

Lífið er miklu betra eftir að ég hætti að drekka en ég mæli samt ekki með því að fólk hætti því,“ segir Jón og skellir upp úr og vísar þannig til þess að þá myndi hann líklegast fara á hausinn. „Fyrir mig er edrúlífið fullkomið, ég sinni fjölskyldunni og vinnunni miklu betur. Ég er samt ekki á AA-fundum eða eitthvað þannig. Ég bara hætti einn daginn ég man ekki einu sinni hvenær ég hætti nákvæmlega. Ég verð alltaf hamingjusamari og ákveðnari í að drekka ekki með hverjum deginum sem líður. Enda koma verðlaunin, sem eru að vera ekki þunnur, á hverjum degi.“

Related Posts