Geðheilbrigði er mikið í umræðunni þessa dagana, eða kannski öllu heldur skortur á slíku. Umræðan hverfist ekki síst um forsætisráðherra vorn sem hefur fengið á sig merkimiða á borð við „geggjaður “, „galin “, „bilaður “ og eitthvað annað í þeim dúr. Þetta finnst ráðherranum að vonum sérkennilegt og bera vott um sjúkt ástand í samfélaginu. Mér finnst þetta líka sérkennileg orðræða en kannski á aðeins öðrum forsendum.

Fólk sem er geggjað, galið og bilað er nefnilega miklu skemmtilegra heldur en ferköntuðu pappakassarnir sem fljóta átakalaust í gegnum lífið án þess að valda nokkru sinni usla. Alter-egói eins uppáhaldsrithöfundarins míns, Charles Bukowski, eru lögð þessi orð í munn í kvikmyndinni Barfly: „Some people never go crazy. What truly horrible lives they must lead.“ Mikil og djúp speki sem mark er takandi á.

Hvernig væri tilveran ef allir væru steyptir í sama mót og enginn þyrði að vera öðruvísi og skera sig úr. Láta það eftir sér að ganga stundum af göflunum og gera eitthvað geggjað. Öll viðtekin norm og óskrifaðar reglur samfélagsins eru helsi og koma í veg fyrir að fólk geti lifað frjálst.

Kannski er ekkert svo galið af forsætisráðherra að vera bara svolítið geggjaður. Kannski eru hrægammarnir í alvöru hræddir við hann vegna þess að þegar fólk er pínu klikk þá er það ófyrirsjáanlegt og til alls líklegt.

Getur verið að Sigmundur Davíð sé hugsanlega merkilegasti stjórnmálamaðurinn sem fram hefur komið síðustu hundrað árin? Ástandið er sturlað og ef til vill er best að bregðast við því á algerlega nýjan hátt. Gera bara eitthvað kolkreisí.

Lífð er í það minnsta ekki leiðinlegt á meðan og verður kannski jafnvel skemmtilegra þegar farnar eru ótroðnar slóðir sem enginn óbilaður myndi leggja á.

Þórarinn Þórarinsson

Related Posts