dómnefnd, Donuts, Doughnut, Kleinuhringir, Séð & Heyrt, SHkleinuhringir

AÐ STÖRFUM: Dómarar vönduðu sig við valið á besta kleinuhringnum. Hér er ritstjóri Gestgjafans, Sigríður Björk.

Þjóðin er orðin kleinuhringjaóð og því ekkert annað í stöðunni en að finna besta kleinuhringinn. Séð og Heyrt fékk bestu kleinuhringjasmakkara landsins til að gefa dóm sinn á sex mismunandi kleinuhringjum. Dómarar fengu ekki að vita hvaðan kleinuhringirnir komu og því ekkert sem gat haft áhrif á val þeirra, öllum reglum fylgt og mikil leynd ríkti yfir einkunn hvers og eins. Baráttan um besta kleinuhringinn var spennandi og réðst ekki fyrr en á lokasprettinum.

Valinkunnir dómarar tóku þátt í keppninni og gáfu mat sitt á kleinuhringjunum. Meðal dómara mátti finna ritstjóra Gestgjafans, Sigríði Björk, og því ljóst að það voru engir aukvisar sem fengnir voru í dómarasætið.

Dómarar skiluðu inn áliti sínu og nafnleynd ríkti yfir hverju atkvæði. Smekkur manna er mismunandi eins og gengur og gerist og það kristallast kannski best í því að flestir gáfu kleinuhringnum frá Okkar bakarí falleinkunn nema einn en allir voru þó sammála um að hann væri of þurr. Bakarameistarinn kom öllu sterkari til leiks og flestir dómarar sáttir við þann kleinuhring. Bragðgóður mjög en sumum fannst hann of sætur.

dómnefnd, Donuts, Doughnut, Kleinuhringir, Séð & Heyrt, SHkleinuhringir

LEYNILEGT: Dómarar fengu ekki að vita hvaðan hver kleinuhringur kom.

Dómarar skiptust algjörlega í tvær fylkingar þegar kom að því að dæma kleinuhringinn frá Mosfellsbakaríi og Jóa Fel. „Góður,“ „Svakalega djúsí og góður,“ „Æðislega mjúkur“ voru nokkur af ummælunum sem dómararnir rituðu niður en „Ósköp venjulegur, ekkert spes,“ „Of mikið kakóbragð,“ „Þurr og of sætur fyrir minn smekk,“ fékk einnig að fylgja með. Báðir kleinuhringir skoruðu yfir meðaltal.

Dunkin Donut´s tók annað sætið. Dómarar voru hæstánægðir með kleinuhringinn og kremið sem hafði verið sprautað í hvern hring gerði útslagið hjá flestum. Með súkkulaði á toppnum og dúnmjúkur fengu flestir dómarar vatn í munninn við tilhugsunina um að næla sér í annan bita.

Sigurvegari keppninnar kom frá Bernhöftsbakaríi. Kleinuhringur þeirra rétt marði Dunkin Donut´s og varla feilpunkt að finna á honum. Dómarar voru sammála um að hann væri einstaklega mjúkur og bráðni nánast upp í manni. Frábært bragð, hæfilega sætur og einstaklega vel framreiddur tryggir kleinuhringnum frá Bernhöftsbakaríi sigurinn og er hann vel að honum kominn.

TOPP SEX
1. Bernhöftsbakarí – 7,8

2. Dunkin Donut´s – 7,6

3. Bakarameistarinn – 6,2

4. Jói Fel – 5,9

5. Mosfellsbakarí – 5,8

6. Okkar bakarí – 3

Related Posts