Orðunum „lítill heimur“ bregður svo sannarlega fyrir oft á litlu skeri sem þessu og alltaf þykir mér pínuótrúlegt hvernig við rekumst öll oft á, bæði hvert annað og almennt þá sem þekkja einhvern sem við þekkjum.

Öll erum við umkringd geðshrærandi litlum tilviljunum sem fylgja svæðinu litla. Sem dæmi þá vann ég eitt sinn sem höfðingjalegur kerrustarfsmaður ásamt ljúfum dreng sem endaði seinna á því að deila skrifstofu með mér hjá Séð og Heyrt (og gerir enn þegar þetta er skrifað). Einnig man ég eftir því í grunnskóla þegar ég uppgötvaði Skítamóral fyrir tilviljun, þá áður en eldri systir mín eignaðist seinna barn með einum meðlimnum.

En sumarlegt kvöld eitt fyrir fáeinum árum síðan var ég staddur heima, kompanílaus og með „föstudagsnennu“ í lágmarki. Ég var nokkrum mínútum og einu hænuskrefi frá því að hlaða í eina pítsupöntun á föðurlandinu þegar í hressu símtali ég er beðinn vinsamlegast um að drulla mér í smávægilegt partí þarna í nágrenninu. Eitthvað fannst mér líklegt að þarna væri verið að selja mér steindauðan stemmara og eingöngu verið að draga mig til að bæta við mætingafjöldann. En eins og Jordan Belfort á öllu heimsins mögulegu sulli þá tókst þessum félaga mínum að fá mig um borð með öflugri sannfæringarræðu (mín mótrök voru heldur ekki sannfærandi, og náðu varla lengra en: „æ, ég hef aldrei prufað þunnbotna.“.

Í fyrstu var planið mitt að taka þægilegt rölt en af vilja mínum til þess að hugsa sem mest um félagsskap og minnst um pítsuna ákvað ég að taka bílinn minn og skilja hann eftir yfir nótt. Ég kom í líflaust hús en kynntist þarna ókunnugri en fagurri snót strax við mætingu. Vondu fréttirnar voru að hún hafði lofað sig annað, korteri eftir mína komu en var það nóg til að bonda snöggt yfir drykkjarsnakki, veðrinu og tali um karlmennsku Liams Neeson. Hefði ég tekið röltið hefði þessi litli „séns“ aldrei átt sér stað.

Sagt er að góðir hlutir taki tíma en frábærir hlutir gerast oft á örskömmum tíma. Skuggar glundroðakenningarinnar hvísluðu þarna líka eitthvað til mín því í þessu tilfelli væri gjörbreytt hjá mér staðan hefði ég valið föðurlandið þetta kvöldið. Þarna fóru ýmis hjól að snúast og hefði ekki orðið fyrir símtalið eða spontantleikann í mér til að sleppa pítsunni hefði ég sennilega ekki kynnst mínum betri helmingi og haldið nýlega upp á tveggja ára afmæli prakkaralegu dóttur okkar. Mómentið var gripið.

 

Tómas Valgeirsson

Related Posts