Ef eitthvað er öruggt í lífinu þá er það silfurlitaður Mercedes Benz sem malar í umferðinni eins og Sigur Rós og lítur út eins og nýr á 50 og 50 – fimmtíu kílómetra hraða í fimmtíu metra fjarlægð.

En það þarf að skoða Benza eins og aðra bíla þótt betri séu.

Eftir tvær tilraunir, grænan miða og viðgerð upp á 50 þúsund kall flaug Benzinn í gegn. Var þá smurður, skipt um sprungna framrúðu og rennt í gegnum Löður á afsláttarkorti.

Fullkominn.

Þá fór að leka úr honum bensínið, reyndar bara í dropatali en dropinn er dýr og þar kom að þrýstingur í kerfinu féll, Benzinn startaði út í rafmagnsleysi og eina ráðið í stöðunni að panta bíl frá Vöku og aka með hann á palli aftur í viðgerð til að laga lekann.

„Nægir ekki að setja tyggjó í gatið?“ var spurt.

„Bensín eyðir öllu, líka tyggjói,“ var svarið.

Þá var skipt um bensínrör fyrir annan fimmtíu þúsund kall og nú svífur Benzinn á volgu malbiki vorsins, malandi eins og Sigur Rós, fullkominn á fimmtíu kílómetra hraða í fimmtíu metra fjarlægð, líkastur

öldnum gæðingi á fljúgandi tölti í moldargötu sem veit að ef hann svo mikið sem hrasar þá er það sláturhúsið næst. Í þessu tilviki Vökuportið sjálft.

Eiríkur Jónsson

Related Posts