Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin í þriðja skiptið í Bíó Paradís dagana 19.-29. mars. Hátíðin verður með opinbert friðarþema í ár og er mikið lagt upp úr því að myndirnar endurspegli mikilvæg málefni sem tengjast friði og fá börn og unglingar að kynnast hugmyndafræði eins og kynvitund, fjölmenningu, líkamsvirðingu, skapandi og gagnrýna hugsun.

Sýndar verða verðlaunamyndir víðs vegar að úr heiminum sem og klassískar íslenskar barnamyndir. Bæði íslenskar og erlendar klassískar myndir verða í sýningum en meðal þeirra eru Hagamús: Með lífið í lúkunum, eftir Þorfinn Guðnason, The Wizard of Oz frá 1939,  The Neverending Story frá níunda áratugnum og franska myndin Þríburarnir frá Belleville.

Í boði verður einnig námsskeið í leiklist fyrir kvikmyndir með Ask Hasselbalch (leikstjóra Antboy), Braga Þór Hinrikssyni (leikstjóra “Algjör Sveppi” myndanna) og Ólafi S.K. Þorvaldz leikara. Einnig fer fram teiknimyndagerðarkynning: “Hvernig verða teiknimyndir til?” með Hilmari Sigurðssyni og Gunnar Karlssyni hjá GunHil, framleiðendum Hetjur Valhallar: Þór.

Krakkarnir hafa tækifæri á að kjósa mynd á hátíðinni til áhorfendaverðlauna og mun vinningshafinn fara í hringferð um landið eftir hátíðina.

 

Related Posts