Vill losna við fortíðina og slæmar minnar af afa sínum:

Marina Picasso, barnabarn hins þekkta myndlistarmanns, ætlar að selja öll Picasso verkin sem hún fékk í arf frá föður sínum. Einnig mun hún selja þekkta villu í Cannes sem var í eigu afans. Hún segir að með þessu vilji hún losa sig við fortíðina og mjög slæmar minningar af samskiptum sínum við hinn þekkta afa sinn.

Faðir Marinu, var elsti sonur Picasso en hann ásamt þremur systkinum sínum skiptu dánarbúi listamannsins jafnt á milli sín þegar Picasso lést árið 1973. Móðir hennar var rússnesk ballerína. Picasso málverkin sem Marina erfði eftir föður sinn og eru nú til sölu eru metin á sem svarar til tæplega 40 milljarða kr. Þar af er eitt verkanna eða Portrait de femme Olga, mynd af Olgu fyrstu eiginkonu listamannsins, metið á hátt í 8 milljarða kr.

Picasso var langt í frá besti afi í heimi og raunar hörmulegur þegar kom að samskiptum við fjölskyldu sína. Þetta kemur skýrt fram í bók sem Marina skrifaði um afa sinn árið 2001 en hún bar heitið Picasso My Grandfather. Þar segir hún að hegðun Picasso í garð fjölskyldu sinnar hafi verið ástæðan fyrir sjálfsmorði bróður síns á sínum tíma. Sjálf hefur hún lengi þurft á sálfræðimeðferð að halda eftir samskiptin við afa sinn. Hluti af meðferðinni er að losa sig við málverkin.

Fram kemur í frétt af þessu máli í danska blaðinu BT að allur ágóði af sölu Picasso verkanna muni renna til barnaheimila í Víetnam.

Related Posts