Umdeildu skeiði í skemmtanahaldi lokið:

Nektarstaðnum Goldfinger verður skellt í lás í síðasta sinn aðfaranótt sunnudags og óhætt að segja að þar með verði kaflaskil í sögu súlustaða á Íslandi. Ásgeir Þór Davíðsson, ævinlega kallaður Geiri Goldfinger, opnaði Goldfinger í Smiðjuhverfinu í Kópavogi í desember 1999 og staðurinn því að verða fimmtán ára.

Endalok Goldfinger hefur að sögn öll tilskilin rekstrarleyfi til fjögurra ára en ástæðan fyrir lokuninni nú er að bankinn sem á húsnæðið á Smiðjuveginum vill ekki framlengja leiguna. Eigendur staðarins munu þó hafa haft fullan hug á að halda rekstrinum áfram og segja aðsóknina hafa verið góða þótt stofnandinn hafi fallið frá fyrir rúmum tveimur árum.
Goldfinger er sagður kveðja í anda Geira og því verði um „grand closing“ að ræða, enda hafi hann verið stór og mikil partíkall. Talað er um að „happy hour“ stemning verði á Golfinger síðustu tvö kvöldin, á föstudag og laugardag, og freyðivínið verði selt á hálfvirði.

Goldfinger og Geiri voru oftar en ekki bitbein í fjölmiðlum, enda bæði staðurinn og eigandinn umdeildir, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Goldfinger hefur þó lítið verið í umræðunni frá því Geiri féll frá. Geiri var áberandi í sviðsljósi fjölmiðla og leiddist ekkert að vera í umræðunni. Skýringin á friðinum sem verið hefur um Goldfinger síðustu misseri er sögð vera sú að staðurinn auglýsi ekki og þangað sæki engir nema þeir sem vilji koma þangað. Kampavínsklúbbar í miðbænum hafa færst í brennidepil á meðan allt hefur gengið sinn vanagang í Smiðjuhverfinu.
Nektardansmeyjarnar sem á staðnum starfa hafa margar hverjar dansað þar um langt árabil og eiga sumar fjölskyldur á Íslandi. Þær hefja nú nýtt líf sem kemur engum við, eins og það var orðað.

Related Posts