Stórleikarinn og höfðinginn Christian Bale mun fara með hlutverk frumkvöðulsins Steve Jobs í væntanlegri kvikmynd um kappann, en henni verður leikstýrt af Danny Boyle (Slumdog Millionaire, 127 Hours) og sér enginn annar en hinn virti Aron Sorkin um handritið. Hann er þekktastur fyrir The West Wing, The Newsroom og The Social Network.

Upphaflega stóð til að gera nýju Jobs-myndina með Leonardo DiCaprio í burðarhlutverkinu en eftir að hann ákvað að taka sér tímabundið frí frá leiklist þurfti strax reyndan fagmann til að hlaupa í skarðið, og Bale er aldeilis þekktur fyrir að gefa sig allan fram í hlutverkum sínum. Bæði hefur hann t.d. þyngt sig og grennst umtalsvert fyrir rullur og segja heimildir að leikarinn bíði spenntur eftir tækifærinu að gæða Jobs nýtt líf á hvíta tjaldinu.

Annars má alls ekki gleyma því að Ashton Kutcher tók það að sér að apa eftir Jobs í samnefndri mynd frá 2013, en sú mynd þótti fara afar lauslega með staðreyndir og féll hún alls ekki í kramið hjá gagnrýnendum eða áhorfendum.

Bale mun leika Steve Jobs á þremur mismunandi æviskeiðum og þykir nokkuð líklegt að hann sé alveg maðurinn í þetta djobb.

Related Posts