Baldvin Zóphoníasson hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir kvikmyndina Vonarstræti. Nú er hann að gera heimildarmynd um aflraunamanninn Reyni Örn Leósson eða Reyni sterka eins og hann var oftast kallaður. Á vef Kvikmyndamiðstöðvar segir um þetta verkefni Baldvins Z: „Þetta er saga utangarðsmanns, sveipuð dulúð og yfirnáttúrulegum öflum. Myndin fjallar um ævi hans, allt frá erfiðum uppvaxtarárum, ótrúlegum afrekum og heimsmetum til síðustu ára hans, sem einkenndust af mikilli drykkju og óreglu sem endaði með dauða hans, langt fyrir aldur fram.“ Reynir sterki ferðaðist víða um ævina og sýndi aflraunir sínar. Hann lést 1982 aðeins 43 ára að aldri.

Meðal aflrauna hans var að brjótast út úr fangaklefa, en hann var þó settur vel hlekkjaður inn í klefann. Það að brjótast úr hlekkjunum og svo út úr fangaklefanum tók hann um 6-7 klukkustundir samanlagt. Fyrir það afrek komst Reynir í heimsmetabók Guinnes. Zetafilm, fyrirtæki Baldvins, framleiðir myndina með stuðningi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Áætlað er að myndin verði frumsýnd jólin 2015 í kvikmyndahúsum landsins. Á meðfylgjandi myndskeiði er lýst hvernig hann sleit af sér hlekkina og braust út úr fangaklefanum.

Related Posts