Ég kláraði BS-gráðu í sálfræði fyrr á þessu ári. Með skírteini mitt að vopni þá ætlaði ég mér að sigra heiminn. Til að sigra heiminn þá þyrfti ég samt fyrst að klára masters-námið og síðan jafnvel doktorsgráðuna, þannig að það er frekar langt þangað til ég get skorað umheiminn á hólm með þrjú skírteini að vopni.

Ég ákvað þó að áður en ég myndi leggja leið mína í masters-námið að taka mér eins árs frí frá náminu, enda búin að vera í skóla samfellt síðan ég var sex ára og var löngu búin að fá upp í kok af pyntingarstólum og appelsínugulu skilrúmunum sem einkenna háskóla allra landsmanna.

Með eitt skírteini að vopni arkaði ég í byggingu í fyrirtækjahverfi í Garðabænum. Ég settist niður á fund með framkvæmdarstjóra þar og hann tilkynnti mér að ég hefði fengið starf á símanum. Þar sinnti ég símavörslu sem og öðrum verkefnum. Það var fínt en ég fann þó alltaf fyrir óútskýranlegu kitli í puttunum. Þannig að ég leitaðist eftir verkefnum á tímaritunum. Einhverjum verkefnum þar sem ég gæti fengið að skapa og fullnægja kitlinu.

Það endaði þannig að ég var færð af símanum yfir á Séð og Heyrt. Mér líður vel þar og kitlið er ekki lengur kitl heldur seyðingur. Ég hætti ekki þar – ég þurfti að svara seyðingnum. Ég hafði verið að stunda yoga af ágætis alvöru síðastliðna mánuði og elskaði vellíðanina sem iðkunin færði mér. Ég talaði við bestu vinkonu mína, manneskjuna sem þekkir mig betur en ég þekki sjálfa mig. Hún kom með svarið: „Anna, af hverju lærirðu bara ekki að verða yoga-kennari?“ Ég horfði á hana eins og hún hefði spurt mig hvort ég héti ekki Gummi.

Þar sem hún býr yfirleitt yfir svörunum sem ég leitast eftir, hlýddi ég bara. Skráði mig í yoga-kennaranám, þó að það væri langt frá því að ég hefði náð fullum tökum á iðkun minni.

Kennaranámið hefur minnkað seyðinginn í puttunum en ekki slökkt á honum.

Það er liðið hálft ár af námspásu minni og ég veit ekkert hvað kemur næst, en ég finn að appelsínugulu skilrúmin á lesstofunni, í þeirri merku stofnun sem Háskóli Íslands er, bældi niður bæði kitlið og seyðinginn sem ég stjórna lífi mínu eftir þessa dagana.

 

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts