Ég hef verið starfsmaður á tímaritinu Séð og Heyrt síðustu tvö árin. Á þeim tíma hef ég lært margt og mikið bæði um sjálfa mig og aðra. Eins og gefur að skilja þá eru litríkir persónuleikar sem vinna hjá þessu fornfræga tímariti.

Á þessum tíma hefur margt breyst og fólkið með. Ég hef unnið með strák sem var gangandi Google um kvikmyndir. Áður en ég ákvað sunnudagsmyndina spurði ég hann alltaf fyrst svo ég myndi ekki eyða tveimur tímum af ævinni í eitthvað tilgangslaust gláp.

Einn var forfallinn íþróttaáhugamaður með heitar tilfinningar sem oft báru hann ofurliði. Þegar liðið hans var í eldlínunni var andrúmsloftið hlaðið spennu og vonuðumst við samstarfsmennirnir svo sannarlega eftir sigri til að allt færi ekki í bál og brand.

Einn var þó í miklu uppáhaldi sem vermdi sætið í horninu. Sá drengur var í sífelldri glímu við Bakkus. Einn færasti penni landsins en Bakkus er erfiður andstæðingur og getur tekið það besta úr fólki og skilur ekkert eftir nema jarðneskar leifar með nasaþef af þeim hæfileikum sem fólk hefur. Einn daginn var hornið orðið tómt og það eina sem varð eftir voru geðlyfin, tómar kókdósir og dýrmæt viska.

Það er ekki oft sem maður verður „starstruck“ en ég held að ég hafi orðið það einn daginn þegar nýr starfsmaður kom inn um hurðina. Þar var komin aðalstjarnan úr barnaefninu sem ég horfði á sem barn meðan ég smjattaði á Cheeriosinu á morgnana. Þá var hún alltaf með kött sér við hlið en hún virðist alltaf skilja hann eftir heima þegar hún kemur í vinnuna.

Síðan var það ungur drengur, handboltastrákur – útskrifaður úr MR. Hæfileikar stráksins komu svo sannarlega á óvart. Hann var fljótur að vinna og gaf forverum sínum ekkert eftir. Þrjóskur er hann þó og það var erfitt að hagga skoðunum hans og einn dag þegar kona, sem var miðill, kíkti í heimsókn gerði hann hana kjaftstopp með skotföstum svörum.

Ritstjóri vor, Eiríkur Jónsson. Mér brá heldur betur í brún þegar ég sá þann mann arka inn í svarta jakkanum sínum og smjattandi á níkótínstautnum. Ég hugsaði til þess tíma þegar ég og mamma sátum sem fastast með te og fylgdumst með sjónvarpinu þegar hann náði með frábærri viðtalstækni að fá það besta út úr öllum viðmælendum – eitt skiptið voru það gervitennur. Á sinn einstaka hátt hefur Eiríkur kennt mér margt ómetanlegt sem hvorki samfélagið kennir né kennarar láta í námsskrá.

Bæbæ, Séð og Heyrt, og takk fyrir allt.

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts