Kærastinn átti afmæli um daginn. Ég hef alltaf verið mikið afmælisbarn og hef nánast undantekningarlaust haldið upp á afmælið mitt. Það er ekkert skemmtilegra en að fá vini sína úr öllum áttum og fjölskylduna saman í eitt rými þar sem þau neyðast til að tala saman og finna eitthvað sameiginlegt.

Kærastinn er ekki jafnafmælissjúkur og ég en eftir að hafa haldið stórkostlega ræðu um kosti afmæla þá talaði ég hann á mitt band – 29 ára afmælið yrði haldið.

Það þarf að huga að mörgu þegar halda skal afmæli. Það er þetta týpíska eins og að redda áfengi, mat og að taka til. Síðan eru það litlu hlutirnir sem ég held að við kvenfólkið vitum bara af og karlmenn hafa aldrei leitt hugann að.

Litlu hlutirnir eru til dæmis að skreyta svalirnar með fallegum sumarblómum svo fólkið í afmælinu haldi að maður sé með græna fingur.

Nokkra morgna fyrir afmælið vaknaði ég alltaf með nýjar og nýjar hugmyndir sem þyrfti að framkvæma fyrir afmælið. Kærastinn samþykkti þær allar með vingjarnlegu brosi.

Tveimur dögum fyrir afmælið vaknaði ég og rölti fram á klósett. Þegar ég var að þvo á mér andlitið þá varð mér litið niður. Mér til mikillar skelfingar áttaði ég mig á því að baðmottan var komin vel til ára sinna.

Ég rauk aftur inn í svefnherbergið þar sem kærastinn var að klæða sig og sagði við hann í ákveðnum tón. „Baðmottan er hrikaleg, við verðum að kaupa nýja.“ Þetta var kornið sem fyllti mælinn því kærastinn þverneitaði að við þyrftum nýja mottu, þessi motta væri fín og enginn myndi taka eftir nýju mottunni.

Ég hækkaði róminn og fann hvernig andlitið varð á augabragði rautt vegna reiði. Ég hvæsti að honum að hann mætti sjálfur sjá um restina af undirbúningnum því ef það væri ekki ný baðmotta væri afmælið ónýtt.

Þegar ég var komin í vinnuna og reiðin runnin af mér þá áttaði ég mig á því að þessi viðbrögð voru kannski heldur of ýkt. Ég hringdi í kærastann og sagði í blíðum rómi að ég þyrfti ekki nýja baðmottu. Til að gera langa sögu stutta varð svo úr að ný baðmotta prýddi flísalagt baðherbergisgólfið.

Það var líklegast enginn sem tók eftir henni í partíinu en í hvert skipti sem ég fer inn á bað og ný og mjúk baðmotta tekur á móti mér færist örlítið bros yfir varirnar.

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts