Ingey Arna Sigurðardóttir (27) hleypur fyrir Ljósið:

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram laugardaginn 20. ágúst næstkomandi og hleypur fjöldi einstaklinga ár hvert og safnar áheitum til stuðnings ýmsum málefnum. Ein þeirra er Ingey Arna Sigurðardóttir, 27 ára gömul, en báðir foreldrar hennar hafa greinst með krabbamein á síðustu þremur árum og hafa þau bæði misst líkamspart vegna meinsins. Móðir hennar fór í brjóstnám og faðir hennar missti aðra höndina. Ingey Arna hljóp 10 km fyrir Göngum saman þegar móðir hennar greindist 2013 og hleypur nú í annað sinn fyrir báða foreldra sína og fyrir Ljósið.

Umhyggjusöm Ingey Arna vinnur á elliheimilinu Víðihlíð í Grindavík við aðhlynningu og er á leið í sjúkraliðanám í haust. Sjúkraliðanámið er þó ekki tengt veikindum foreldra hennar, en Ingey Arna hefur áður unnið á elliheimilum og dagheimilum fyrir Alsheimersjúklinga. „Þegar ég bjó í Reykjavík vann ég á Guluhlíð sem er frístundaheimili fyrir fötluð börn. Ég finn mig einfaldlega mikið í umönnunarstörfum, þótt ég hafi sagt við mömmu í tíu ár að ætlaði aldrei í sjúkraliðann,“ segir Ingey Arna og hlær en báðar systur hennar og móðir eru lærðir sjúkraliðar.

Pabbi og mamma með krabbamein
Árið 2013 greindist móðir hennar, Guðlaug Björg Methúsalemsdóttir, með brjóstakrabbamein. „Mamma fór í brjóstnám, lyfja- og geislameðferð og er krabbameinslaus í dag,“ segir Ingey Arna. „Mamma var mjög dugleg að nýta sér þjónustu Ljóssins og ákvað ég því að hlaupa fyrir það félag að þessu sinni.

Þegar foreldrar hennar héldu að krabbameinið væri frá og ætluðu að fara að ferðast og gera það sem þau vildu þá kom annað reiðarslag. Faðir Ingeyjar Örnu greindist með krabbamein á gamlársdag 2015. „Það gerði engin boð á undan sér, pabbi var ekkert veikur, þannig að við reiknuðum aldrei með að hann væri með krabbamein,“ segir Ingey Arna.

Krabbameinið sem faðir hennar greindist með er sjaldgæft beinkrabbamein og er hann sá eini í heiminum nú sem stendur sem greinst hefur með það. „Læknarnir vilja meina að þetta gerist einu sinni á 200 ára fresti. Krabbameinið svaraði ekki lyfjameðferð þannig að handleggurinn var tekinn af við öxl,“ segir Ingey Arna. Krabbameinið var staðbundið og ekkert búið að dreifa sér og fékk faðir Ingeyjar Örnu þá niðurstöðu fyrir stuttu síðan.
Systurnar ekki með krabbameinsgenið
Ingey Arna á tvíburasystur, Rakel Ósk og Hrefnu Björk, sem eru 35 ára og fara þær allar þrjár í hefðbundin krabbameinseftirlit. „Mamma fór í blóðprufu á sínum tíma til að athuga hvort  hún væri með brakka genið, en svo reyndist ekki vera, þannig að við systur erum ekki með það,“ segir Ingey Arna. Móðursystir hennar lést úr brjóstakrabbameini 2011 og föðuramma hennar lést einnig úr krabbameini.

Þarf ekki brjóst, hann er bara með eina hönd
Foreldrar Ingeyjar Örnu taka þetta á jafnaðargeðinu, faðir hennar fer í skoðun á þriggja mánaða fresti og móðir hennar einu sinni á ári. Mæðgurnar eru að fara allar saman út í nóvember og ætla að njóta tímans saman.

„Það eru allir jákvæðir í fjölskyldunni, mamma og pabbi taka þetta á jákvæðninni og hafa húmor fyrir sjálfum sér,“ segir Ingey Arna. „Konurnar í vinnunni spurðu mömmu til dæmis um daginn hvort að hún ætlaði ekki að fá sér gervibrjóst og hún svaraði: Til hvers? Siggi er bara með eina hönd!“

„Það létti líka undir meðferð og bata pabba að vinnuveitendur hans studdu hann í veikindum hans og sögðu að hann væri alltaf með vinnu, sama hvort hann missti höndina eða ekki. Mamma er byrjuð að vinna aftur á Víðihlíð sem sjúkraliði,“ segir Ingey Arna.

Ingey Arna er enn tilfinninganæm vegna veikinda foreldra sinna og segir að henni hafi fundist heimurinn vera að hrynja og allir vera á móti sér þegar móðir hennar sagði henni frá sínum veikindum. Þegar faðir hennar greindist síðan var það fyrst og fremst reiði sem Ingey Arna fann fyrir. „Maður er aldrei undirbúinn fyrir þetta. Svo þegar pabbi greinist þá var ég eiginlega bara reið, ég grét ekkert fyrr en mörgum mánuðum seinna,“ segir Ingey Arna. „Mér fannst við vera búin með nóg og ekki eiga það skilið að fá þetta aftur. Mamma þurfti að ganga í gegnum þetta allt aftur og pabbi líka. Krabbamein tekur á alla fjölskylduna og sérstaklega makann. Mér fannst þetta mjög erfitt.“

„Þetta er eitthvað sem mig langar ekki að upplifa aftur. Og ég óska engum að upplifa þetta, bara ekki neinum. Krabbameinið er svo fjarlægt manni þar til einhver nákominn manni greinist með það,“ segir Ingey Arna sem hleypur fyrir Ljósið og lífið í ágúst.

Styrkja má Ingey Örnu hér.

13835924_961227680672670_545026792_o

HLEYPUR 10 KM Í REYKJAVÍKURMARAÞONINU FYRIR FORELDRANA OG LJÓSIÐ: Ingey Arna lætur ekki deigan síga.

13839911_961227700672668_1965622033_o

GREIND MEÐ BRJÓSTAKRABBAMEIN OG SJALDGÆFASTA KRABBAMEIN Í HEIMI: Ingey Arna og foreldrar hennar, Guðlaug Björg Methúsalemsdóttir og Sigurður H. Kristjánsson.

 

Lestu Séð og Heyrt alla daga.

Related Posts