Samfélagsmiðlar eru án nokkurs vafa þægilegasta leiðin fyrir fyrirtæki til að koma sínum vörum á framfæri. Nánast hver einn og einasti einstaklingur sem hefur aðgang að Internetinu er með einhvers konar samfélagssíðu, hvort sem það er Facebook, Twitter, Instagram eða eitthvað í þá áttina. Stórstjörnur heimsins eru margar hverjar mjög virkar á samfélagsmiðlum og fyrirtæki eru tilbúin að borga þeim háar upphæðir fyrir að fá umfjöllun um sínar vörur. Hér má sjá nokkrar af þeim stjörnum sem fá hvað mest greitt fyrir sín auglýsingastörf á samfélagsmiðlum.

 

Twitter

MILLJÓN FYRIR SMOKKA

Leikarinn Charlie Sheen (51) er með öryggið á oddinum:

Árið 2011 tísti Charlie Sheen um það að hann vantaði lærling og fékk 50.000 dollara frá heimasíðunni internships.com. Nú er Charlie Sheen, sem er með HIV, að auglýsa fyrir sænska smokkafyrirtækið HEX og hann fær 9.500 dollara, sem gera um eina milljón króna, fyrir tíst sín í þeirra nafni.

 

Twitter

UM 400.000 FYRIR TÍST

Leikkonan Lindsay Lohan (30) tístir fyrir mörg fyrirtæki:

Þegar leikkonan Lindsay Lohan var á toppi ferilsins var hún í auglýsingum fyrir lúxusmerki eins og Dooney & Bourke en nú er öldin önnur þar sem leiklistarferill hennar er nánast farinn ofan í holræsið. Hún er þó enn með marga fylgjendur á Twitter og fær um 400.000 krónur, 3.500 dollara, fyrir tíst þar sem hún auglýsir vörur frá hinum ýmsu fyrirtækjum.

 

Twitter

SJEIK FYRIR 2 MILLJÓNIR

Scott Disick (33) stígur ekki í vitið:

Raunveruleikastjarnan Scott Disick, sem er þekktastur fyrir að vera barnsfaðir Kourtney Kardashian, fær 20.000 dollara, sem eru rúmlega 2 milljónir króna, fyrir hverja mynd sem hann birtir á Instagram af Boo Tea Shake. Það má vel vera að Scott noti þessa vöru ótt og títt og gott mál að hann fái greitt fyrir auglýsinguna en það verður að segjast eins og er að textinn við fyrstu mynd hans af sjeiknum var einkar óheppilegur. Þar skrifaði Scott einfaldlega allan tölvupóstinn sem hann fékk frá fyrirtækinu sem útlagðist einhvern vegin svona: „Hérna, Scott, klukkan 4 áttu að setja þessa mynd á Instagram með textanum: Tilbúinn í líkamsræktina í sumar með Boo Tea Shake.“

 

 

 

Twitter

DÝRT TE

Snooki (28) drekkur te:

Raunveruleikastjarnan Snooki vakti athygli þegar hún var ein af stjörnunum úr raunveruleikaþáttunum Jersey Shore. Þar var hún í raun aðhlátursefni, sjaldnast edrú og nánast alltaf grenjandi. Nú eru hins vegar breyttir tímar hjá henni Snooki því hún fær 7.800 dollara, um 900.000 krónur, fyrir hvert tíst þar sem hún auglýsir Lyfe Tea og Flat Tummy Tea.

 

NEW YORK, NY - MAY 14:  TV Personality Kylie Jenner attends the 2015 NBCUniversal Cable Entertainment Upfront at The Jacob K. Javits Convention Center on May 14, 2015 in New York City.  (Photo by Jim Spellman/WireImage)

RAKAR INN

Kylie Jenner (19) fær langmest fyrir sínar myndir:

Raunveruleikastjarnan Kylie Jenner hefur svo sannarlega lært af þeirri bestu þegar kemur að samfélagsmiðlum en systir hennar, Kim Kardashian, er dugleg að raka inn peningum í gegnum samfélagsmiðla. Kim kemst þó ekki með tærnar þar sem Kylie hefur hælana því vilji eitthvert fyrirtæki fá auglýsingu á Instagram-aðgangi Kylie þarf það að punga út minnst 300.000 dollurum sem gera um 34 milljónir króna.

 

LOS ANGELES, CA - FEBRUARY 15:  Singer Selena Gomez attends The 58th GRAMMY Awards at Staples Center on February 15, 2016 in Los Angeles, California.  (Photo by Jason Merritt/Getty Images for NARAS)

63 MILLJÓNIR FYRIR HVERJA FÆRSLU

Söngkonan Selena Gomez (24) nær til flestra:

Vinsældir söngkonunnar Selenu Gomez hafa aukist gríðarlega síðan hún birtist fyrst á Disney-stöðinni. Samkvæmt algóriþma sem fyrirtæki nota til að reikna út markaðsvirði getur Selena rukkað um 550.000 dollara, 63 milljónir króna, fyrir hverja færslu sem hún setur inn á samfélagsmiðla en hún nær til um 200 milljóna manna í gegnum samfélagsmiðla sína og það er áætlað að fylgjendum hennar fjölgi um 200.000 á hverjum degi.

Séð og Heyrt líst vel á þetta!

Related Posts