Skylda er að kíkja á einhverjar af þessum myndum yfir hátíðarnar:

 

Allir eiga sér einhverjar bíómyndir sem er reglulega glápt á yfir jólin. Hér kemur listi yfir þær jólamyndir sem hafa staðið upp úr í minninu.

 

DIE HARD
Jólin eru ekki almennilega sett í gang hjá sumum fyrr en þessi magnaða hasarmynd er komin í tækið. Stundum eru jafnvel þörf á því að fullkomna þennan Bruce Willis-ofbeldispakka með Die Hard 2 líka. Hún er ekki nærri því jafngóð og sú fyrsta, en þó jólalegri ef snjórinn skiptir einhverju máli, og fantagóð afþreying í sjálfu sér. Best er fyrir alla að muna það að sama hversu óheppinn maður getur orðið yfir hátíðirnar, þá þarf mikið til að verða álíka óheppinn og John McClane. Það er nú annars fátt sem segir „gleðileg jól“ betur en skothríðir, hetjustælar og töffarafrasar.

 

 

LOVE ACTUALLY
Það er staðreynd að maður þarf að vera sálarlaus skröggur eða gerður úr steini til að þessi hitti ekki í mark. Hér á að vera eitthvað að finna fyrir alla í þessari risavöxnu rómantísku vellíðunarmynd sem er í senn fullkomin jólamynd með stórt hjarta. Sama hversu oft undirritaður horfir á hana er ómögulegt að þurrka burt glottið eftir hana. Fyndin, hjartnæm og ótrúlega, ótrúlega sykursæt!

 

BAD SANTA
Jólaréttur hinna svartsýnu (ef ekki þá Grinch fyrir fullorðna), borinn fram með beisku bragði og smekkleysusósunni góðu. Fólk er misviðkvæmt fyrir þessum húmor en þeir sem láta ekki drykkfelldan og orðljótan jólasvein skemma fyrir sér fjörið geta vel treyst á góðar, grimmar stundir. Billy Bob Thornton gengur alla leið með kvikindisskapinn og býr þar af leiðandi til einhvern eftirminnilegasta fýlupúka fyrr eða síðar í jólamyndum. Vinsamlegast haldið börnunum frá þessari!

 

ELF
Sykur og meiri sykur. En sykur er góður. Sérstaklega á jólunum! Þá er fátt sjálfsagðara en að henda sér í föðurlandið, beint í sófann og japla á heilli nammiskál með yngri kynslóðina sér við hlið. Myndir eins og Elf eru gerðar fyrir akkúrat slíkar stundir. Þetta er flippuð, fyndin, hjartahlý og skemmtileg gamanmynd með hugarfarið á hárréttum stað. Will Ferrell getur stöku sinnum verið fullyfirdrifinn í skrípalátunum en hér er persóna hans svo einlæg og jákvæð að maður getur ekkert að því gert annað en að halda upp á hann með bros á vör. Elf er jólaklassík, en fullorðnum er ætíð bent á að halda sig sem lengst frá íslensku talsetningunni.

 

THE NIGHTMARE BEFORE CHRISTMAS
Tim Burton-jól eru undarlegustu jólin en sömuleiðis þau skrautlegustu (sjá einnig Edward Scissorhands og Batman Returns). Aðdáendahópur þessarar myndar hefur stækkað með hverju ári síðan hún kom fyrst út og er það fyrst og fremst frábærri tónlist að þakka sem vefst utan um einfalda en skemmtilega sögu. Hönnunin er líka æðisleg og myndin býr yfir sterkri sál sem yljar manni um hjartaræturnar. Þannig á góð jólamynd að vera, þótt einnig sé hægt að líta á Nightmare sem fínustu hrekkjavökumynd.

 

 

SCROOGE
Besta kvikmyndaða útgáfan af Jólasögu eftir Dickens. Ekki spurning! Að vísu er Bill Murray útgáfan heldur ekki sem verst.

 

 

 

 

 

IT‘S A WONDERFUL LIFE
Sjaldan hefur verið hermt eins mikið eftir einni sögu, en upprunalega Frank Capra-myndin kom þessu öllu af stað. Klassík í orðsins fyllstu merkingu. Ódauðleg mynd sem hefur lifað löngu lífi og á nóg eftir fram undan.

 

 

 

NATIONAL LAMPOON‘S CHRISTMAS VACATION

Alls engin hágæðamynd og í rauninni oft frekar ódýr og barnaleg í gríninu. Það er hins vegar líka eitthvað svo skemmtilegt við misheppnuðu tilraunirnar hjá Griswold-fjölskyldunni til að halda eðlileg jól sem lætur myndina rata aftur í sjónvarpstækið á hverju ári. Einhverra hluta vegna kemur hún manni alltaf í betra (jóla)skap og Chevy Chase er þar að auki alveg í essinu sínu. Algjört „guilty pleasure,“ segjum það bara.

 

 

Aðrar skotheldar:
A Christmas Story, Miracle on 34th Street, The Polar Express, Joyeux Noël, The Holiday, Arthur Christmas, Rare Exports

 

Related Posts