Sumum pörum virðist skapað að skilja og þótt ástarloginn brenni heitar en hjá flestum öðrum er eins og það sé ekki nóg. Í Hollywood hefur mörg örlagasagan átt sér stað og hér eru nokkrar magnaðar.

Konungur Hollywood og drottning hans

P8DCLGA EC019

„Carole var engin eftirbátur hans á nokkurn hátt því hún sat hest eins og færasti kúreki, var ekki síðri skytta en eiginmaðurinn og hún var ekki feimin við að taka á nautgripunum sem þau ólu upp.“

Clark Gable var kallaður konungurinn af samstarfsfólki í kvikmyndaborginni og hann hafði sést í fylgd ekki ófrægari kvenna en Jean Harlow, Lorettu Young og Joan Crawford. Þegar hann kynntist Carole Lombard var eins og mæst hefðu tvær eldsálir. Hún var þó heldur óvenjuleg drottning því hún var aðallega þekkt fyrir gróft orðbragð, villtar veislur, hrekkjabrögð og stutt ástarævintýri með mótleikurum á borð við George Raft og Gary Cooper.

Þau hittust fyrst við gerð myndarinnar No Man of Her Own en ástin blómstraði ekki fyrr en fjórum árum seinna. Til að byrja með líkaði þeim einfaldlega alls ekki hvoru við annað. Clark var kvæntur seinni konu sinni Riu um þetta leyti og hafði ekki hugsað sér að skilja. Lombard var gift William Powell og henni fannst Clark stífur og leiðinlegur. En þegar þau hittust á dansleik í Hollywood fjórum árum eftir að gerð myndarinnar lauk gerðist eitthvað. Þessar ólíku manneskjur drógust ómótstæðilega hvor að annarri og dönsuðu saman allt kvöldið. Þau sáust fara saman af dansleiknum og eftir það voru þau óaðskiljanleg. Lombard var þá fráskilin en það tók Clark tíma að skilja við Riu.

Kvikmyndaverin reyndu eftir bestu getu að halda ástarævintýri þeirra leyndu meðan Clark var enn kvæntur en það gekk ekki. Það þurfti ekki meira til en það að þau sæjust saman á götu og þá var öllum ljóst að þarna fór ástfangið fólk. Þau giftu sig árið 1939 og eyddu eftir það öllum frítíma sínum á búgarði Clarks í San Fernando-dalnum. Carole var engin eftirbátur hans á nokkurn hátt því hún sat hest eins og færasti kúreki, var ekki síðri skytta en eiginmaðurinn og hún var ekki feimin við að taka á nautgripunum sem þau ólu upp.

„Þau gerðu allt saman,“ sagði besti vinur Clarks um hjónaband þeirra. „Carole var eini leikfélaginn sem hann eignaðist um ævina.“ Þrátt fyrir ást Clarks á Carole átti hann í skyndisamböndum við aðrar konur. Hún vissi af hliðarsporum hans og svo virðist sem hún hafi kært sig kollótta. Þegar Carole fórst í flugslysi árið 1942 var Clark bókstaflega óhuggandi. Mánuðum saman lokaði hann sig af og drakk en þrátt fyrir að hann segðist helst vilja deyja lifði hann sorgina af og lék í nokkrum snilldarmyndum eftir þetta. Hann giftist tvisvar eftir dauða Carole, í bæði skiptin konum sem minntu mjög á hana í útliti og þegar hann dó árið 1962 virti ekkja hans, Kay, ósk hans á banabeði um að hann yrði lagður til hinstu hvíldar við hlið Carole.

Í skugga veikinda

Pör í Hollywood

„Vivien Leigh dó úr berklum árið 1967 en andlegu veikindin urðu þess valdandi að hún var óvinnufær langtímum saman. Hún átti þó stórleik í mörgum góðum myndum þar á meðal Streetcar Named Desire á móti Marlon Brando.“

Laurence Olivier sagði um Vivien Leigh að hún væri fallegasta kona sem hann hefði nokkru sinni séð. Mörgum árum áður en þau hittust fyrst hafði hún látið í ljósi óskir um það að giftast leikaranum fræga við vini sína. Þau hittust árið 1935, þá var hún nýorðin tuttugu og tveggja ára en hann tuttugu og átta. Þau léku saman í myndinni Fire Over England og þau urðu yfir sig ástfangin hvort af öðru. Bæði voru bundin sínum mökum en hjónabönd beggja voru óhamingjusöm og við það að ljúka. Engu að síður reyndu þau að láta samband sitt fara leynt, enda framhjáhald ekki litið mildum augum í þá daga. Þeim reyndist hins vegar ekki auðvelt að leyna sterkum tilfinningum sínum og samband þeirra var opinbert leyndarmál. Þau fóru fljótlega að búa saman og Vivien sagði um Olivier að hann væri hetjan sín. Hann kallaði hana á móti skáldgyðju sína, innblástur sinn og fyrstu ástríðu.

Vivien Leigh fékk hlutverk Scarlett O’Hara í Gone With the Wind fljótlega eftir að samband hennar við Olivier hófst og um svipað leyti lék hann í Wuthering Heights. Leikur beggja í þessum myndum þótti með afbrigðum góður og þau urðu heimsþekkt nánast á einni nóttu. Fjölmiðlar eltu þau á röndum en þeim tókst að forðast þá þegar þau giftu sig árið 1940 hjá friðardómara í Santa Barbara. Þau fluttu inn í Notley Abbey, óðalsetur og fyrrum munkaklaustur frá þrettándu öld, sem Olivier hafði keypt skömmu áður og hófust handa við að gera það upp. Húsið var ætíð fullt af frægum gestum, þeirra í meðal Noel Coward, Orson Wells og Kathrine Hepburn.

Hjónabandssælan var þó skammvinn því fljótlega fór að bera á vanheilsu hjá Vivien. Hún missti fóstur árið 1944 og þjáðist af þunglyndi lengi á eftir. Ári síðar greindist hún með berkla og þurfti að leggjast inn á heilsuhæli. Veikindin urðu til þess að mjög var af henni dregið og hún hafði látið á sjá í útliti. Olivier var aftur á móti sífellt vinsælli og árið 1947 var hann aðlaður. Þetta varð til þess að auka á þunglyndi og vanlíðan konu hans og skapsveiflur hennar urðu sífellt ofsafengnari. Síðar kom í ljós að hún þjáðist af geðhvörfum. Hann elskaði konu sína en átti erfitt með að takast á við geðbrigði hennar og vann því meira en nokkru sinni fyrr.

Hjónabandið entist í áratug eftir þetta en var varla nema að nafninu til mestallan þann tíma. Þau skildu formlega árið 1958 en ástin var enn heit þrátt fyrir það. Hann sagði sjálfur í viðtali að hún hefði verið eina sanna ástin í lífi sínu og hún játaði að þrátt fyrir önnur ástarævintýri yrði aldrei neinn annar maður jafnmikilvægur henni og hann. Vivien Leigh dó úr berklum árið 1967 en andlegu veikindin urðu þess valdandi að hún var óvinnufær langtímum saman. Hún átti þó stórleik í mörgum góðum myndum þar á meðal Streetcar Named Desire á móti Marlon Brando.

Gátu hvorki verið saman né í sundur

Pör í Hollywood

„Þau elskuðu þó hvort annað áfram og hann játaði fyrir John Hurt vini sínum rétt áður en hann dó að hún heillaði hann enn og myndi alltaf gera.“

Varla er hægt að ímynda sér að nokkurt ástarævintýri hafi nokkru sinni vakið aðra eins athygli og samband þeirra Elisabeth Taylor og Richards Burton. Þau urðu ástfangin við tökur á myndinni Cleopatra og sagt var að neistar hefðu flogið á milli þeirra frá því þau litu hvort annað fyrst augum. Stuttu áður hafði Elisabeth komið upp á milli Eddie Fisher og Debbie Reynolds svo varla hafði eitt hneykslið sem hún olli hjaðnað þegar hún olli öðru verra.

Hún var þekkt fyrir duttlungafullt skap og var fjórgift þegar hún hitti Burton. Hann var þögull og hugsandi og hafði mestalla starfsævina leikið á leiksviði. Eiginkona hans, Sybil, hafði fram að þessu þolað stutt ástarævintýri hans möglunarlaust en jafnvel henni varð fljótlega ljóst að öðru máli gegndi með Elisabeth en aðrar konur í lífi hans. Þau voru áminnt um að gæta hófs af forstjórum kvikmyndaversins og blaðafulltrúum sínum en þau voru ófær um að leyna tilfinningum sínum. Allir á tökustað vissu hvað var um að vera og fljótlega fékk pressan veður af því líka. Eftir að tökum lauk gátu þau hvorki gleymt né verið án hvort annars og þau flugu fram og aftur um heiminn til að hittast eina helgi eða jafnvel einn dag því bæði voru bundin við vinnu að næstu myndum sínum.

Hann sagðist hafa heillast af fegurð hennar og uppátektarsemi en hún elskaði hæfileika hans, gáfur og fágun. Hún var sömuleiðis hrifin af endalausum lífsþorsta hans og því hversu mikill nautnamaður hann var. Hún var sjálf engu síðri að þessu leyti og hann elskaði það. Síðar sagði hún að það sem hefði gert útslagið um hve heitt hún elskaði hann var hversu mikið hann þarfnaðist hennar. „Hjarta mitt bókstaflega opnaðist og var hans eftir það,“ sagði hún síðar.

Árið 1964 fengu þau bæði skilnað frá fyrri mökum og giftust á laun á hóteli í Montreal. Hjónabandið var stormasamt og þau urðu fljótlega jafnfræg fyrir hávaðasöm rifrildi sín og rómantíkina sem blómstraði þeirra á milli. Hún var greinilega yfir sig ástfangin og henni tókst jafnvel að gera rifrildin falleg. „Ég dái það að rífast við hann,“ sagði hún eitt sinn. „Það er eins og lítil atómsprengja hafi verið sprengd og neistar fljúgi, veggirnir hristist og gólfin titri.“

Hann var alla tíð þögulli um samband þeirra en hún og næsta áratuginn brann ástríða þeirra smám saman upp. Margir höfðu spáð því að samband eins og þeirra gæti ekki enst og þeir urðu sannspáir. Hann drakk sífellt meira og var þó ekki á það bætandi. Hún var mjög meðvirk í drykkjunni og var um tíma farin að drekka meira en góðu hófi gegndi. Honum fannst hann hafa sóað hæfileikum sínum í einskisverðar kvikmyndir til að geta lifað hinu ljúfa lífi og það gerði hann þunglyndan. Hann fór aftur að leita á náðir annarra kvenna og að lokum gafst hún upp og skildi við hann árið 1974. Þau giftust aftur ári síðar en það hjónaband entist aðeins sex mánuði. Þau elskuðu þó hvort annað áfram og hann játaði fyrir John Hurt vini sínum rétt áður en hann dó að hún heillaði hann enn og myndi alltaf gera. Burton lést af völdum heilablóðfalls árið 1984 og hún lýsti því yfir að dauði hans hafi skilið eftir tóm í lífi sínu sem aldrei verði uppfyllt.

„Við eigum eftir að skemmta okkur vel saman“

Pör í Hollywood

„Þau fundu strax til mikillar samkenndar og reyndust vera ótrúlega lík. Fyrsta vikan í kvikmyndatökum var varla liðin þegar þau voru orðin elskendur.“

Humphrey Bogart og Lauren Bacall hittust þegar hún var nítján ára en hann fjörutíu og fjögurra. Hún var þekkt fyrirsæta og hafði birst á forsíðum vinsælla tímarita um allan heim en hann var frægur leikari. Aðallega var hann frægur fyrir að leika glæpaforingja eða spæjara. Henni var boðið að leika aðalkvenhlutverkið í myndinni To Have and Have Not sem byggð er á sögu eftir Hemingway. Hann mætti henni fyrsta daginn og sagði: „Við eigum eftir að skemmta okkur vel saman.“ Það reyndust orð að sönnu.

Þau fundu strax til mikillar samkenndar og reyndust vera ótrúlega lík. Fyrsta vikan í kvikmyndatökum var varla liðin þegar þau voru orðin elskendur. Bogart var við það að skilja við eiginkonu sína, Mayo Methot, eftir erfitt og óhamingjusamt hjónaband og samband hans við Lauren flýtti aðeins fyrir skilnaðinum. Ellefu dögum eftir að hann fékk lögskilnað árið 1945 kvæntist hann Lauren sem hann kallaði alltaf „Baby“. Þótt samband þeirra vekti geysilega athygli í Hollywood voru þau bæði að eðlisfari rólyndar og heimakærar manneskjur. Þau voru því lítt áberandi eftir brúðkaupið í samkvæmislífinu en reyndu að komast burt til að vera tvö ein hvenær sem færi gafst. Oftast ferðuðust þau um á snekkju hans en þegar hann var við tökur á The African Queen í Afríku ferðuðust þau þar um.

Þau rifust oft heiftarlega en voru fljót að fyrirgefa. Kathrine Hepburn sagði að þau væru jafnskæð og hvæsandi kettir þegar þau tækju til við að munnhöggvast en slagsmálin bæru vott um að þau vissu að þau væru jafningjar sem myndu á endanum ná málamiðlun. Bogart-hjónin áttu son saman sem þau elskuðu bæði afar mikið. Hjónaband þeirra var almennt talið eitt það traustasta í Hollywood og aðeins dauðinn gat aðskilið þau. Humphrey Bogart fékk krabbamein árið 1956 og barðist harðri baráttu við sjúkdóminn í eitt ár en varð loks að láta í minni pokann 14. janúar 1957. „Við vorum svo náin að þegar hann dó fannst mér ég hafa misst helminginn af sjálfri mér,“ sagði Bacall löngu síðar. Hún átti eftir að eiga í ástarsamböndum við aðra menn og giftist Jason Robards mörgum árum eftir dauða Bogarts. Enginn náði þó að fylla skarð hans og sjálf sagði Lauren árið 1997: „Ég var svo óheppin að finna ástina og missa hana ung. Síðan þá hefur leiðin í einkalífinu legið niður á við. En kannski má líka segja að ég hafi fengið að upplifa og njóta einhvers sem sumir aðrir fá aldrei.“

 

Texti: Steingerður Steinarsdóttir

Related Posts