Sigríður Ýr Unnarsdóttir (27) ætlar á mótorhjóli yfir Bandaríkin og aftur til baka:

Sigríður, eða Sigga Ýr, er ákveðin í að láta drauma sína rætast og er á leiðinni í mikla ævintýraferð yfir Ameríku með nýja kærastanum sínum, Mike Reid (28).

Ævintýrapar  „Við erum að fara í 11.000 km ferð yfir Bandaríkin og aftur til baka en við hefjum ferðina í Fíladelfíu þar sem Mike, kærastinn minn, á heima. Við keyptum okkur mótorhjól þar og ætlum að hjóla á því til Kaliforníu og aftur til baka. Við munum ferðast með algjöran lágmarksfarangur og gistum í tjaldi með engan eldunarbúnað og lítinn pening fyrir mat svo þetta verður töluverð áskorun sem við erum spennt fyrir að takast á við. Við erum búin að útbúa kort og kaupa alls konar græjur en markmiðið er að safna áheitum fyrir samtökin Seeds for Peace sem Mike hefur verið að vinna fyrir. Verkefni okkar nefnist Miles for Peace en samtökin standa að sumarbúðum fyrir ungt fólk alls staðar að úr heiminum. Þátttakendur í búðunum eru frá andstæðum fylkingum sem eiga í átökum, eins og t.d í Írak og Palestínu, og hugmyndin er að koma á samtali sem færir fólk nær hvert öðru og að það nái að skilja hvert annað.“

lítið hopp

LIFA LÍFINU: Sigga og Mike kunna að lifa lífinu lifandi og láta drauma sína rætast.

Prófraun á sambandið

En hvernig kynntust þau Sigga Ýr og Mike?

„Ég hef verið með sófagistingu fyrir ferðamenn og líka ferðast sjálf og gist á sófum og lent í ýmsum ævintýrum,“ segir Sigga. „Mike kom til mín í janúar og það myndaðist strax með okkur mikill vinskapur. Ég er einstæð tveggja barna móðir með mikla ævintýraþrá og að kynnast manni eins og Mike sem hefur síðustu ár elt drauma sína og náð miklum árangri á því sviði veitti mér innblástur til þess að fylgja mínum draumum sem ég hafði að mestu látið sitja á hakanum. Við héldum góðu sambandi og með tímanum varð okkar góða vinasamband að neista. Mike sneri aftur til Íslands og hefur komið nokkrum sinnum síðan þá til mín og erum við núna nýlega byrjuð í sambandi. Þessi ferð mun verða okkar fyrsta ævintýri saman og algjör prófraun á okkur tvö sem ferðafélaga og ekki síst sem par. Aðstæður okkar eru svolítið ólíkar því hann er bara að ferðast á eigin vegum um heiminn en ég er með tvö börn, í tveimur vinnum og er að skrifa lokaritgerð í Háskólanum. Ferðin okkar hefur margþættan tilgang en þetta er meðal annars útskriftarferð mín úr námi mínu í tómstunda- og félagsmálafræðum í Háskóla Íslands.“

Grænmetisætur í teygjustökki

triumph minna

FLOTT HJÓL: Turtildúfurnar ætla á þessu hjóli í ferðalagið með tjald og svefnpoka en hafa ekki pláss fyrir mikið meira.

Sigga og Mike ætla að hafa nóg fyrir stafni í ferðinni. „Við munum blogga, taka myndir og vídeó á meðan á ferðinni stendur, bæði af ferðalaginu sjálfu og svo ætlum við einnig að stytta okkur stundir á leiðinni í hinum ýmsu þjóðgörðum, í fallhlífarstökki, teygjustökki og trjástökki og ýmsu öðru sem á vegi okkar verður. Til viðbótar við fjáröflunina hyggjumst við einnig skýra frá þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í sambandi við mat en Bandaríkin eru þekkt fyrir að vera höfuðstaður kjötáts í heiminum. Ég neyti ekki dýraafurða og Mike er líka grænmetisæta og ég ætla að halda úti matarbloggi þar sem ég greini frá því hvaða valmöguleika við höfum á leiðinni.“

Sigga og Mike eru þegar farin að hugsa um fleiri ævintýri eftir mótorhjólaferðina yfir Ameríku.

„Þar sem við erum búsett sitt í hvorri heimsálfunni þá eru ævintýri og ferðalög það sem tengir okkur saman,“ segir Sigga. „Við plönuðum mótórhjólaferðina  núna til þess að halda þessum neista lifandi og svo erum við með fleiri ævintýri á teikniborðinu. Okkur langar meðal annars að gera tilraun til þess að setja heimsmet saman í september í pocket bikes sem eru pínulítil mótorhjól. Það er komið í farveg og verður næsta verkefni. Við eigum það sameginlegt að vera bæði með óbilandi ævintýraþrá en erum þó hvort með sína nálgunina í umfjöllun um ferðalögin okkar þar sem hann fókuserar meira á ævintýraferðamennsku-þáttinn en ég á næringu og skemmtun.“

Krossa putta

Turtildúfurnar eru fjölhæfar og njóta hverrar stundar saman.

„Við syngjum mikið saman og spilum bæði á ukulele, gerum saman jógaæfingar og margt fleira svo það verður fjölbreytt efni sem við munum senda frá okkur. Okkar draumur er að gera ævintýri sem þetta að lífsstíl og koma okkur frekar á framfæri. Við erum lík í grunninn og búum yfir sömu ævintýraþránni. Þessi ferð átti bara að vera vikuferð til hans en svo fórum við að hugsa hvernig við gætum gert þetta aðeins klikkaðara. Við ætluðum bara að fljúga til Kaliforníu og vera í sólbaði í viku en svo vatt þetta svona upp á sig og er orðið töluvert stærra. Þetta verða 26 dagar og við verðum 23 daga á hjólinu. Við þurfum að hjóla um 650 km á hverjum degi og krossum putta yfir sól og blíðu alla dagana. Það er ekki í boði að lengja ferðina því ég þarf að mæta til vinnu um miðjan júní.“ Hægt er að fylgjast með ferð þeirra Siggu og Mike hér .

 

einkenni

FÉLL FYRIR GESTGJAFANUM. Mike kom og fékk að gista á sófanum hjá Siggu en féll síðan killiflatur fyrir gestgjafa sínum.

Related Posts