Ég get stundum verið óþolandi afskiptasamur, það er ákveðið vandamál sem ég er að reyna eftir bestu getu að laga. En sama hversu mikið ég mun draga úr afskiptasemi minni mun ég alltaf skipta mér af ástamálum minna allrabestu vina. Þá er ég einungis að tala um ástamál vina minna sem eru ekki í sambandi. Það er ekkert gaman að skipta sér af langtímapörum, það myndi bara enda illa fyrir mig.

Það vildi svo leiðinlega (fer eftir hvern þú spyrð reyndar) til að vinur minn og vinkona kærustu minnar hættu í sínum samböndum á svipuðum tíma. Ég get ekki hætt að hugsa hversu fullkomin þau væru fyrir hvort annað. Vandamálið er að þau hafa aldrei hist og ég hef ekki fundið góða leið til að koma þeim saman á þann máta sem kærasta mín samþykkir. Ég vil bjóða vini mínum í mat og að kærasta mín bjóði vinkonu sinni í mat og að þau viti ekki af hvort öðru fyrir fram. Síðan er ég viss um að ástin grípi völdin, algjör ást við fyrstu sýn. Kærasta mín vill meina að þetta yrði vandræðalegasta stund á ævi allra á svæðinu og að við ættum ekki að skipta okkur af.

Vissulega gætum við boðið vinum okkar öllum til veislu og vonast til þess að augu þeirra mætist en ég vil stýra þessu. Ég vil vera á svæðinu með fulla stjórn á málunum. Ég er handviss um að þau muni vera saman að eilífu þar til að þau deyja í svefni í faðmlögum á níræðisaldri með þrjú börn og átta barnabörn grátandi yfir sér.

Eða þá að þau sofi einu sinni saman eftir grimmt fyllirí.

Móment

Related Posts