„Ertu eitthvað að deita?“ Spurning sem ég fékk í heita pottinum um daginn, ég varð nokkuð hvumsa og vafðist tunga um tennur og góm og vissi hreinlega ekki hvernig ég ætti að svara. „Tja, nei eða jú eða nei, ég hreinlega bara veit það ekki,“ tókst mér að böðla út úr mér. Spyrjandinn var ekki sáttur við þetta óskýra svar og ítrekaði spurninguna. „Sko, Ásta, annaðhvort ertu að deita eða ekki, kona eins og þú verður nú fljót að ganga út, ekki draga það of lengi annars verður þú alltaf ein.“

Eftir fimm hundruð metra gat ég ekki meira, yfirlýsing pottverjans var að buga mig andlega. Ég rauk upp úr lauginni og arkaði í gufuna til að hreinsa hugann en allt kom fyrir ekki. Á leiðinni heim var óveður í höfðinu á mér, hvað er kona eins og ég? Og hvað er að draga of lengi að deita? Hjálp! Er ég komin fram yfir síðasta söludag? Mygluð, úrelt.

Hryllileg framtíð mín birtist í huga mér. Ég ein og skrýtin með mín gráu hár og kettina þrjá. Synirnir löngu flognir úr hreiðrinu, karlmannsleysið markað varanlegan andlegan skaða á heilsu minni. Mjálma í stað þess að tala. Skelfingarframtíð sem bíður mín og ég er algjörlega varnarlaus, hún bara kemur, ekkert stöðvar tímans þunga nið.

Ég fór ekki að hugsa skýrt aftur fyrr en eftir þrjá kaffibolla. Bölvað bull er þetta! Hvaða stress er alltaf í fólki? Af hverju mega konur ekki vera einhleypar, eins og það er kallað, eða einstæðar? Ég er ekkert ein, á haug af krökkum og köttum. Einhleyp, ég velti þessu orði oft fyrir mér, skrýtið, er til eitthvað sem heitir tvíhleypur?

Ég velti þessari spurningu upp við kunningja minn sem er ráðagóður með eindæmum. „Ásta mín, komi þeir sem þora að koma og fari hinir öllum að meinalausu.“ Ég túlkaði svarið sem svo að ég ætti ekki að hafa áhyggjur af því að verða úrelt og mygluð. Lífið myndi bara hafa sinn gang.

Ég held að pottverjanum hafi gengið gott eitt til, enda fulltrúi kynslóðar þar sem sjálfsagt þótti að fara í gegnum lífið sem annar hlutinn af samlokunni og að vera sólóbrauðsneið var ekki kostur í lífinu.

Eftir stendur ósvarað hvað átt var við með fullyrðingunni „kona eins og þú“. En manni er nú ekki ætlað að skilja allt.
Næst þegar ég hitti pottverja sem spyrja mig um ástalíf mitt þá mun ég skipta um umræðuefni og ræða verðtrygginguna, það mun nú hleypa fjöri í samræðurnar.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts