„Mamma ertu í alvörunni á Tinder?“ spurning sem flaug á milli skrifborða á skrifstofu Séð og Heyrt. „Nei, Garðar, ég er ekki á Tinder, í alvörunni.“

Og það er satt og rétt, eða þannig. Ég á eflaust hraðamet í því vera á stefnumótafyrirbærinu Tinder, samtals sjö mínútur. Ég er með kettina sem vitni.

Ég er frekar sein til að tileinka mér tækninýjungar. Það er ekki langt síðan að ég fékk snjallsíma og ég er nýbyrjuð með Snapchat, sem ég er rétt að læra á, því var hugmyndin um vera á einhverju stefnmóta-appi frekar fjarri mér.

En svo gerðist það á fallegum sunnudagseftirmiðdegi að ég ákvað að kanna þetta fyrirbæri, Tinder. Ég smellti einum þreföldum espressó í bollann og kom mér haganlega fyrir í sófanum innan um malandi ketti og púðafjall.

Install app – já, ég gerði það, og svo sjá, viti menn, Tinder vildi fá allar upplýsingar mínar á Facebook, jú, best að leyfa það. Og svo hvað? Nú vissi ég ekki mitt rjúkandi ráð hvað átti að gera næst?

Ég hringdi í vin sem hefur töluverða reynslu af þessu fyribæri. Ok, ég á sem sagt að velja nei eða já og bíða, en hvað ef ég ýti óvart í vitlausa átt, hvað þá? „Ásta, taktu nú séns, kannski gerist eitthvað óvænt.“ Efasemdarpésinn ég var alveg á nálum yfir því að segja já við einhverjum gaur sem myndi aldrei lenda á matseðlinum og valda svo viðkomandi ævarandi ástarsorg.

Við kettirnir fórum í gegnum hvert tilboðið á fætur öðru, mér leið hálfpartinn líkt og ég væri að gægjast inn um glugga hjá fólki, verulega óþægileg tilfinning. Jafnvel svipað og að versla á Aliexpress að panta vöru í extra small og svo kemur í ljós að hún er medium. Væri nú ekki betra að máta áður en að maður pantar.

Við kisurnar tókum ákvörðum um að hætta á Tinder. Okkur líkaði ekki það sem þar var og þegar náskyldir birtust á skájnum þá var nú bara sjálfhætt.

Garðar minn þarf ekki að jesúsa sig yfir hvort mamma hans sé á Tinder því það er klárlega ekki minn kaffibolli. Ég er ekki mikið fyrir að versla á Netinu, hef meiri trú á gamaldags aðferðum – enda ekki mikið tæknitröll. Spyrjið bara kettina.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts