Leikkonan JanJane2e Fonda var stöðvuð á flugvellinum í Cleveland í Ohio 2. nóvember 1970 en „grunsamlegar“ pillur höfðu fundist í tösku hennar.
Hún fullyrti að pillurnar væru ekki annað en venjuleg vítamín en var samt lokuð inni yfir nóttina. Snemma næsta dag var hún flutt í Cuyahoga héraðsfangelsið og ljósmynduð í bak og fyrir að hætti lögreglumanna þar vestra.

Hún var sökuð um meint eiturlyfjasmygl og að hafa ráðist á lögreglumann. Um nóttina hafði hún nefnilega reynt að komast fram hjá lögreglumanni og á salerni.
Jane Fonda var sjálfsagt ekki gripin í tollinum af tilviljun. Mótmæli hennar gegn stríði Bandaríkjamanna í Víetnam höfðu ekki farið fram hjá heimspressunni og hún hafði lengi verið í kastljósi FBI. Jane Fonda, aðgerðarsinninn Fred Gardner og leikarinn Donald Sutherland höfðu í apríl skipulagt farandrevíu gegn styrjöldinni og beindu athyglinni einkum að bandarískum hermönnum á leið til Víetnam.

Stjórn Richards Nixon taldi hana fjandsamlega Bandaríkjunum og var þeim mönnum mikið í mun að sverta mannorð hennar. Fréttirnar um að hún hefði verið handtekin fyrir eiturlyfjasmygl fóru eins og eldur í sinu um landið.
En menn neyddust til að draga ásakanir sínar til baka. Pillurnar voru rannsakaðar mánuðum saman og í ljós kom að Jane Fonda hafði sagt satt og rétt frá; þetta voru ósköp venjuleg vítamín. Ásökunin um að hún hefði ráðist á lögreglumann var einnig dregin til baka.

 

Jane Fonda af háaðli í Hollywood
Jane Fonda er dóttir kvikmyndastjörnunnar Henrys Fonda og heillaðist ung af leiklistinni. Hún vakti fyrst mikla athygli fyrir leik sinni í vestra-gamanmyndinni Cat Ballou árið 1965 en margir minnast hennar fremur sem Barbarellu í samnefndri mynd frá 1968.
En Jane Fonda lék ekki aðeins í kvikmyndum hún var áhugasöm um stjórnmál, tók þátt í mannréttindabaráttunni vestra og baráttu indíána fyrir réttindum og réttlæti.
Hún fór til Hanoi árið 1972 og var þá tekin mynd af henni, brosandi og syngjandi, við norður-víetnamska loftvarnarbyssu. Bandaríkjamenn margir urðu æfir af reiði og ásökuðu hana sumir um föðurlandssvik. Þeir kölluðu hana „Hanoi Jane“ og gera sumir enn í dag.

Nýtt tölublað af Sögunni allri kemur í verslanir á morgun:

Sagan tbl 12

Related Posts