Brynhildur Björnsdóttir, söngkona og Aðalheiður Þorsteinsdóttir, píanóleikari halda tónleika á Kaffi Rósenberg mánudagskvöldið 11. maí næstkomandi og hefjast þeir klukkan níu. Á tónleikunum flytja þær lög eftir Kurt Weill við texta eftir Bertold Brecht og ýmsa aðra.

Mánudagsvorkvöldið 11. maí breytist Kaffi Rósenberg í billega tötraknæpu þar sem glasaguddur, gleðimenn og vændiskonur rifja upp minningar sínar sem fyrir löngu voru greyptar í lög og ljóð eftir Kurt Weill og Bertolt Brecht. Til söngs munu taka meðal annarra Barbara og Nanna, hermannsekkja og hórumamma auk einhvers slatta af konum sem heita Jenny og þá förum við á vængjum tónlistargyðjunnar til bæði Bilbao, New York og Youkali.

Einnig má heyra ljóð og texta fleiri höfunda við lög eftir Kurt Weill, flest í dásamlega fallegum þýðingum Þorsteins Gylfasonar.
Brynhildur Björnsdóttir, söngkona með meiru, ljær velflestum persónunum rödd og Aðalheiður Þorsteinsdóttir spilar af þekktri snilld á afar viðeigandi píanó hússins.

Sérlegir leynigestir eru Bogomil Font, sem hefur lagt sitt gjörva músikalítet við tónlist Kurt Weill um árabil og Margrét Erla Maack, seiðdansmærin með sígaunamjaðmirnar.

Tónleikarnir hefjast klukkan níu og aðgangseyrir er 1500 krónur. Því miður verður ekki hægt að greiða með korti.

Related Posts