o-SELFIES-ON-THE-FARM-facebook

ALLIR MEÐ: Hver sem er getur tekið selfie

Pöpullinn pósar:

Ópið eftir Edward Munch er eitt frægasta málverk listasögunnar. Þar má sjá mann sem rekur upp öskur og er verkið raunar svo áhrifamikið að óhljóðin heyrast nánast. Ef betur er að gáð má einnig sjá að verkið hefur sterka samtímatengingu í poppkúltúrinn: Ópið eftir Munch er nefnilega sjálfsmynd eða réttara sagt „selfie“.

 

175 ára gömul selfie

Mannskepnan hefur málað, teiknað, skorið út og mótað eftirgerðir af sjálfri sér í þúsundir ára og meira að segja er elsta þekkta selfie-ljósmyndin frá árinu 1839. Selfies urðu þó ekki almennar fyrr en snjallsíminn kom fram á sjónarsviðið, mikilvægasti lífsförunautur flestra í dag.

 

Hvað meinarðu með selfie?

Munurinn á sjálfsmynd og selfie er í raun ekki svo mikill. Það sem aðskilur þessar tvær sjálfstjáningarleiðir er annars vegar handgerð eftirmynd af andliti listamanns og hins vegar snjallsími, internettenging og aðgangur að samfélagsmiðlum, eins og t.d Instagram.

 

Árátta fyrir sjálfsmyndatökum

Til eru dæmi um að fólk hafi fengið áráttu fyrir sjálfsmyndatökum og þráhyggju fyrir eigin útliti sem líkist geðsjúkdóminum body dismorphic disorder eða líkamsskynjunarröskun. Æðið fyrir sjálfsmyndum virðist því vera að fara út fyrir öll mörk.

En líkt og með öll fyrirbrigði sem ná vinsældum hjá fjöldanum, sbr. fótanuddtækið, Essasú, Macarena-dansinn, eru sjálfsmyndatökur umdeildar og margir vilja meina að þær séu aðeins bóla sem springur innan skamms.

 

Þú ert þitt eigið vörumerki

Sjálfsmyndafyrirbrigðið hefur einnig hrundið af stað ákveðinni umræðu um sjálfsmarkaðssetningu eða ,,self-branding“ og hvernig fólk leitast við að miðla ákveðinni ímynd af sjálfu sér og sínum lífsstíl til ,,fylgenda“ sinna, þ.e. vina, vandamanna og áhugafólks, sem elta þig á samfélagsmiðlum.

Þannig getur fólk birt rjómann af tilveru sinni og gefið innsýn í sitt daglega líf með kassamerkjum (#hash-tag) og heppilegri birtu. Með öðrum orðum: selfie sýnir aðeins brot af því besta en sleppir restinni. Enginn skítugur þvottur sem flæðir upp úr þvottakörfunni, grátandi börn með hor í hárinu eða ógreiddir reikningar á kámugu eldhúsborði.

Ungir einstaklingar gætu átt erfitt með að greina á milli lífsins í sjálfsmyndunum og raunveruleikans, þ.e. sama hversu frægur eða flottur einhver er, þá á hinn sami líka sína slæmu daga með tvær bólur á nefinu, sprungið á bílnum og kaffiblett í hvítum buxum. Vegna þess að við sýnum bara sparihliðina á okkur í selfies þá er ekki óeðlilegt að ímyndamarkaðssetningin blekki fylgjendurna.

 

Sjálflærð í sjálfsmyndatökum

Selfies hafa þó ákveðna kosti. Mörgum er illa við að láta taka af sér myndir en allir sem hafa sótt um vegabréf eða starf vita að það er mikilvægt að eiga af sér góða mynd. Að geta æft sig og fengið betri tilfinningu fyrir hvernig skal bera að sig fyrir framan vélina – hakan örlítið niður, opna augun, (pínu-)lítill stútur á varirnar og voilá, þú ert á góðri leið með að verða ljósmyndafyrirsæta (eða svona hér um bil).

Selfies af nútímalegra tagi hafa farið í gegnum ákveðnar breytingar og hafa pósur í allskonar útgáfum átt vinsældum að fagna á síðastliðnum  árum. Þættir eins og America’s Next Top Model kenndu okkur að brosa með augunum (smize: smile with your eyes – Tyra Banks) en það er þó ekki allra. Flest okkar verða á svipinn eins og einhver sem er eftirlýstur af Interpol (fyrir að vera hættulega myndarleg þá?). Seinna meir kom hið svokallaða ,,Duckface“ en þá var settur stútur á varirnar, af öllu alefli. Í Asíu hefur nú borið á nýrri pósu sem þykir móðins en það er Sparrow sem nefnd er eftir spörfuglinum. Þeirri pósu svipar til þess að vera örlítið vankaður, með opin augun og munninn sömuleiðis opinn – mitt á milli þess að vera dolfallinn, hugfanginn og með heilahristing.

 

Don’t hate me because I’m beautiful

Það verður ekki frá því hlaupið að selfies eru eins egósentrískar og þær geta verið, við erum að mynda okkur sjálf og yfirleitt ekkert annað, kannski glittir í eitthvað fyrir aftan sem er vísbending um iðjuna þá stundina en lunginn af myndinni er andlitið á sjálfsmyndafyrirsætunni. Oftar en ekki má þó greina ákveðna afsökun í textanum fyrir neðan, vörn gegn þeim sem dæma sjálfsmyndarann eða réttlætingu á myndatökunni. Sumir nota húmor eða hnyttna texta til að létta á sjálfsmyndinni og viðurkenna jafnvel sína eigin sjálfsást, blygðunarlaust. Kassamerkin eru einnig vinsæll ,,dempari“ á sjálfsmyndum og eru ætluð til að dreifa athyglinni með því að einkenna aðstæður, iðju, tilfinningar og umhverfi; #partí #love #vinir #namm og önnur sambærileg stikkorð ýta undir þá ásýnd að hér sé ekki aðeins um að ræða sjálfsmynd, heldur brot úr augnbliki sem byggist á samveru og félagslegum tengslum. Það sem stendur hins vegar upp úr er mynd af andliti, yfirleitt með stút á vörunum, og stikkorð, gripin úr lausu lofti og að mestu leyti samhengislaus.

 

Einlægur egóisti

Selfie-myndir verða líklega alltaf til staðar, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Mannskepnan er forvitin og þá sérstaklega um sjálfa sig og sitt samferðafólk. Fæstir þora að viðurkenna það en selfies eru „guilty pleasure“, eins og hræðilegt popplag sem maður fær ekki nóg af (Baribe Girl með Aqua – repeat). Að vera einlægur í sjálfsástinni er besta ráðið til að koma í veg fyrir að fylgjendur þínir fái ekki leiða á andliti þínu. Vertu bara hreinskilinn og settu við myndina: ,,Í dag er ég með ljótuna, get ég fengið hrós?“ Eða: ,,Stofan virkar mjög hrein á bak við mig, hún er í raun svínastía.“ Sannleikurinn er sagna bestur. Það er gaman að taka sjálfsmyndir, enn betra að fá hrós og best er að geta komið opinberlega fram og sagt með fullu sjálfsöryggi: ,,Ég elska að taka selfie, ég er enn þá að hlusta á Aqua og mér finnst gaman þegar fólk ,,lækar“ myndirnar mínar.“

Related Posts