Herdís Hallmarsdóttir (44) er hundakona:

Lögfræðingurinn Herdís Hallmarsdóttir á þrjá gullfallega aussie-hunda. Hún er formaður HRFÍ, Hundaræktunarfélags Íslands, hefur átt hunda frá því að hún var barn að aldri og vill hag hunda sem bestan, enda segir hún vináttu þeirra einstaka og það auðga lífið verulega að eiga hunda.

 

Hundalíf  Herdís Hallmarsdóttir fékk sinn fyrsta hund þegar hún var níu ára gömul. „Það var poodle-hundurinn hann Bangsi. Alveg síðan þá hef ég alltaf átt hund þegar ég hef haft tök á því,“ segir Herdís. „Í dag búa á heimilinu þrír aussie-hundar, Sindri, 6 ára, Gabby, 4 ára, og Röskva, 9 mánaða.“

En þrátt fyrir að hundarnir séu heimilismeðlimir og hluti fjölskyldunnar getur það verið háð hindrunum að eiga einn slíkan. Hvernig er að eiga hunda á Íslandi upp á ferðalög og annað að gera? „Hér á landi eru ýmsar hindranir að ferðast með hunda. Við getum auðvitað ekki tekið hund með okkur milli landa og verðum því að gera ráðstafanir þegar fjölskyldan fer erlendis. Hundurinn kæmist ekki með okkur heim aftur nema fá til þess leyfi og sæta svo fjögurra vikna einangrun. Þá erum við Íslendingar skammt komnir í að taka á móti hundum á gististöðum og veitingastöðum ef við berum okkur saman við aðrar Evrópuþjóðir. Það eru því líka takmarkanir á því að ferðast öll fjölskyldan innanlands. Ég fæ ekki skilið af hverju við erum svona öðruvísi en aðrar þjóðir hvað þetta varðar og verð eiginlega bara hrygg þegar ég hugsa um það. Eins og við búum nú í fallegu og góðu landi og það væri gaman að geta ferðast óheftur um það með hundinn sinn,“ segir Herdís.

SH1609281045-4

Þegar Gabby stal jólunum
„Á tímabili þurfti ég að ferðast mikið vegna vinnu. Sindri minn var ekkert sérstaklega ánægður með það og hann var fljótur að átta sig á því að ferðataskan var til merkis um að ég færi að heiman. Þessi annars blíði hundur fór að taka upp á því að urra á ferðatöskuna þegar hún var dregin fram, rífast við hana og á endanum pissaði hann yfir hana alla og ég þurfti, mér til lítillar ánægju, að henda henni. Nýju töskuna þurfti ég svo að geyma hátt uppi og passa vel og vandlega hvar ég pakkaði í hana og geymdi hana. Ég gat lengi vel ekki lagt hana frá mér á gólfið heima því þá mátti ég eiga von á að hann sýndi mér óánægju með þessi ferðalög sem greinilega voru að hans mati algjör óþarfi,“ segir Herdís og brosir. „Gabby mín er mikið matargat og kann því mjög vel þegar hún fær hrátt kjöt.  Við vorum rétt búin að marinera dýrindishreindýralund sem við ætluðum að hafa í jólamatinn og hún var hátt uppi á eldhúsborði innst inni í horni. Við vorum svo að taka okkur til áður en við fullgerðum matinn þegar heyrast þessi óp úr eldhúsinu. Þegar við komum fram stóð Hallmar Orri, sonur okkar, í stiganum með steikina í annarri hendi. Gabby hafði þá ekki staðist lyktina af þessari dýrindissteik, klifrað upp á eldhúsborð (guð einn veit hvernig hún fór að því) og nælt sér í lundina góðu. Þetta atvik verður í minnum haft í okkar fjölskyldu og er ýmist talað um atvikið þegar Gabby reyndi að stela jólunum eða þegar Hallmar Orri náði að bjarga jólunum. Röskva litla er búin að vera hvolpur og það kemur að því að mér þykja prakkarastrikin hennar ekki skemmtileg. Ætli ég sé bara ekki enn of sár út í hana fyrir að næla sér í inniskóna mína sem voru svo þægilegir – eða á ég að segja sár út í mig fyrir að passa ekki betur upp á skóna!

SH1609281045-1

Formaður HRFÍ
Herdís er formaður HRFÍ, eða Hundaræktarfélags Íslands, en hvernig kom það til að hún gegnir þeirri stöðu? „Já, þegar stórt er spurt. HRFÍ er félag okkar hundeigenda og mér þykir afar vænt um félagið og félagsskapinn. Ég hef þar kynnst fólki með sömu áhugamál og á marga góða vini í félaginu,“ segir Herdís. „Baráttumálin eru mörg. Á þessari stundu kemur upp í hugann aðstöðuleysið.  Ég vildi óska þess að við hefðum aðgang að betri aðstöðu til að þjálfa og vinna með hundana okkar. Okkur er meinaður aðgangur að íþróttamannvirkjum og viðlíka húsnæði án þess að ég sjái að það sé málefnalegt. Enn og aftur búum við við hindranir sem þekkjast ekki erlendis og virðast vera séríslenskt fyrirbæri,“ segir Herdís sem stefnir að því að bæta hag hunda svo menn og hundar geti búið og lifað saman í sátt og samlyndi.

SH1609281045-3

EKKI DYNTÓTTIR HVAÐ MAT VARÐAR: Hundarnir hennar Herdísar eru á hundamat og hafa ekki sérvenjur hvað mat varðar. „Þeir eru á hundamat og svo gef ég þeim ógrynni af hundabeinum og hrátt kjöt annað slagið. Það brjótast út mikil fagnaðarlæti þegar þeir fá slíkan glaðning,“ segir Herdís.

 

SH1609281045-2

ALLIR SEM TÖK HAFA Á ÆTTU AÐ EIGA HUND: „Mitt val er að eiga hunda, hundar auðga líf mitt á svo margan hátt og ég held það væri einmannalegt að vera hundlaus. Vinátta þeirra er án skilyrða og þeir kunna að lifa í núinu, burðast ekki með byrðar fortíðar né hafa þeir áhyggjur af morgundeginum. Þá finn ég hvað samveran gerir mér gott. Þeir veita mér gleði og svo draga þeir mig út að ganga sem er yndislegt,“ segir Herdís.

Séð og Heyrt elskar hunda.

 

Related Posts