Spaugstofan (30) í sömu sporum á ný:
Félagarnir í Spaugstofunni fagna þrjátíu ára afmæli í ár. Hópurinn hefur gengið í gegnum ýmislegt á ferlinum, þeir hafa verð kallaðir snillingar, dónar, klámhundar, guðlastarar og grínarar. Persónur Spaugstofunnar eru fyrir löngu orðnar heimilisvinir; góðmennin Boga og Örvar og lögreglumanninn Grana þekkir hvert mannsbarn að ógleymdum Ragnari Reykás sem endurspeglar samvisku þjóðarinnar hverju sinni. Spaugstofan var í fjölmörg ár fastagestur á skjánum en hurfu þaðan fyrir nokkrum árum. Þeir snúa nú aftur en í þetta sinn munu þeir standa saman á sviði Þjóðleikhússins líkt og þeir gerðu fyrir þrjátíu árum síðan, en þá ekki í hlutverki Spaugstofumanna heldur sem ungir leikarar í uppsetningu Þjóðleikhúsins á Skugga-Sveini. Séð og Heyrt leit inn á æfingu, þar var að vonum mikil ærsl.

SH1510081909, spaugstofan, sameinast á sviði, þjóðleikhúsið, leikhús, örn árnason, randver þorláksson, siggi sigurjóns, pálmi, karl, séð & heyrt, 40. tbl, 2015

FJÖR AÐ EILÍFU – AMEN: Það er alltaf von á einhverju óvæntu þar sem þessir félagar koma saman, hér eru þeir að æfa can-can, aldrei að vita nema að næst setji þeir upp danssýningu.

Síungir „Fyrir þrjátíu árum síðan stóðum við félagarnir hér saman á sviði, upp úr því varð Spaugstofan til og er enn í fullu fjöri, enda eru þrjátíu ár enginn aldur,“ segir Karl Ágúst Úlfsson sem hefur orð fyrir hópnum. Félagi hans, Örn Árnason, skýtur inn í: „Við vissum alltaf að við gætum verið fyndnir í svona mörg ár og nú mun þjóðin komast að því að við erum eins og gott rauðvín, verðum betri með aldrinum.“

Þeir félagar minna stundum á óþolinmóða kettlinga, allir vilja komast að og fá athygli. Sigurður Sigurjónsson virðist vera djúpt hugsi en segir loks: „Ég er að hugsa um að bjóða okkur fram til forseta, okkur alla í einu. Við gætum skipt embættinu á milli okkar, einn gæti verið erlendis, annar að klippa á borða, og einn gæti verið í veislum. Ég legg þetta fyrir strákana og við sjáum til hvað við gerum í þessu.“

Karl Ágúst reynir að smala köttunum saman á svið því æfingin er að byrja, það styttist í frumsýningu og því mikilvægt að dvelja ekki of lengi við dagdrauma:
„Jæja, strákar, allir á svið,“ kallar hann og félagarnir safnast saman og leggja lokahönd á afmælissýninguna sem verður frumsýnd í október.

SH1510081909, spaugstofan, sameinast á sviði, þjóðleikhúsið, leikhús, örn árnason, randver þorláksson, siggi sigurjóns, pálmi, karl, séð & heyrt, 40. tbl, 2015

YFIR TIL ÞÍN: Sýningin nefnist Yfir til þín, og æfingar standa yfir af fullum krafti.

 

Related Posts