Sonur minn hefur hafið afplánun, hversu lengi er óvitað, „refisvistin“ felst í löngum og fjölmörgum heimsóknum í IKEA.

Þar hafa hann og hans heittelskaða dvalið löngum stundum við að skoða sófa, hillur og blómapotta og vel lyktandi kerti. Lífið er orðið stórt og þau skötuhjú máta sig í fullorðinsaðstæðum – enda  orðin vel stálpuð.

Tilveran í kjallaranum hefur fengið annan brag, þar eru færri bjórdósir, æ sjaldnar pizzur og hrútafýlan sem ætlaði allt að drepa löngu farin út fyrir ilmkerti og body sprey. Heilmiklar pælingar hafa verið um gæði og stærð sófa og hvar bestu kaupin á fullorðinstilverunni sé að finna. Litli drengurinn minn er farinn að búa. Það fyllir mig öryggi og vissu að fylgjast með unga parinu feta sín fyrstu skref í átt að framtíðinni. Þá veit ég að unginn minn er orðin fleygur og vel það – tilgangi lífsins náð.

Hver kafli í lífinu á sérstakt heiti; minn kafli kallast Losaðu þig við draslið, þú átt nóg af dóti, kona en unga parið párar fyrstu orðin í kaflanum Nú má lífið byrja og okkur vantar kertastjaka.

Í huga margra er fátt skelfilegra en dvöl í IKEA – því helvíti – segja sumir. „Þangað fer ég ekki lifandi inn,“ segir eiginmaður vinkonu minnar. „Jæja, ég fer þá bara ein,“ er hennar svar við því. Og eins og vel uppalinn eiginmaður veit þá er ódýrara að láta sig hafa það en að sleppa frúnni lausri með kortið – svona rétt fyrir jólin.

IKEA er heill heimur út af fyrir sig eða kannski bara stjörnuþoka – þar er auðvelt að villast og rekast utan í misstór svarthol sem gleypa alla orku og fjármuni. En IKEA er ekki alslæmt – reyndar er fyrirbærið algjört viðskiptalegt undur. Allt er útpælt, hvar sem drepið er niður fæti. Reyndar skil ég ekki af hverju þeir hefja ekki framleiðslu á fatnaði – hversu mikil snilld væri það? Að kaupa sófa og peysu á sama tíma og dunda sér svo við að setja þetta saman á meðan betri helmingur hitar „frikkadeller“ og sýður pasta. IKEA kennir manni að hólfa tilveruna niður í réttar stærðir.

Mér finnst að sænski risinn ætti að taka þetta skrefinu lengra. Byggja IKEA-þorp – svona Settu saman húsin sjálfur-þorp. Hver og einn fengi kassa sem passar fjölskyldustærð og -gerð þar sem allt væri innifalið, maki, börn, bíll, fatnaður innréttingar og ilmkerti. Hver myndi ekki vilja búa í sænskri innpakkaðri draumaveröld? Ég er að hugsa um að banka upp á og bjóða þeim þessa hugmynd – mér finnst hún tær snilld!

En svona rétt áður en að ég geri það, er ég að hugsa um að kíkja við – mér skilst að jólageitinn sé komin upp og ilmkertin eru á góðum prís og það gerir lífi skemmtilegra, líkt og Séð og Heyrt á degi hverjum.

Related Posts