Þegar einleikur er færður upp á hvíta tjaldið í nýjum búningi er ósköp eðlilegt að niðurstaðan sé meira eða minna sett saman úr uppfyllingum. En þó titlaði afinn megi og eigi að vera gamall, áttavilltur og lúinn er það ekkert sem skipar því að húmorinn þurfi að vera það líka.

Alveg er nógu erfitt líka að jafna út sannfærandi „drama“ með svona kómík (til að lauma inn boðskap og gefa þessu öllu einhverja samantekt) en í tilfellinu hér er fyrirsjáanlegi og ótrúverðugi farsagangurinn ekki að gera neitt auðveldara hvað svoleiðis varðar.

Það er eitthvað hálfskrítið við það að sjá svona alíslenska mynd sem þráir svo grimmt að festa sig við amerískar formúlur, slíkar sem virðast beinteknar úr litríkum en rembingslegum grínþætti. Bjarni Haukur er víst eitthvað voða hrifinn af þessu formatti. Hann bjó smáseríuna Martein í kringum slíkan grunn, en trúlega vegna þess að enginn sá þá þætti (eða viðurkennir að hann hafi séð þá – ojbara) endurtekur hann sig í þessu. Að mörgu leyti erAfinn eins og skandinavísk „Fockers“ mynd sem dauðþráir að vera nær Alexander Payne-verkunum; sneisafull af gervirjóma, ófyndnu, úreltu aðstæðugríni en á móti reyndar ljúfum, sannleiksríkum spekingskornum í boði Sigga Sigurjóns. Bara nokkrum.

Siggi er annars vegar alltaf verulega helgaður vinnunni sinni; á skjá, sviði, í gríni eða alvöru, sama hvert hann fer og hvað hann hefur í höndunum. Afslappaður, ávallt viðkunnanlegur en kann að tapa sér í sínu. Sorglegt er þess vegna að sjá Afann ekki verða að neinu öðru en bragðlausri uppskriftarmynd, þegar hana langar að hafa eitthvað merkilegt að segja og hefur jafnvel flesta burði til þess í grunninum.

Handritið er annars vegar Sigga, hans persónu og flestum öðrum að algeru falli. Leikarar eins og Steini Bach, Steindi Jr., Tinna Sverris og Pálmi Gests eru rétt valin í staðalhlutverk, aðrir koma bara og fara án ummerkja. Stemninguna vantar annars ekki hjá liðinu, bara djókana sem bjóða ekki oftast upp á það að einhver bæti klassískum krybbuhljóðum seinna inn í senurnar.

star2

 

Texti: Tómas Valgeirsson

Related Posts