S.O.S. – Spurt og svarað:

Geirmundur Valtýsson hefur verið einn ástsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar um áratugaskeið auk þess að vera fjármálastjóri Kaupfélags Skagfirðinga, sem kemur víða við í íslensku viðskiptalífi. Nú er Geirmundur á leið til höfuðborgarinnar og ætlar að halda jólatónleika í Austurbæ.

 

HVER ER FYRSTA ENDURMINNING ÞÍN?
Þá er ég fimm eða sex ára að snúast í kringum kindur og kýr sem mamma og pabbi voru með.

BJÓR EÐA HVÍTVÍN?
Hvorugt. Ég hef aldrei drukkið og því er ég á fótum.

HVERNIG VAR FYRSTI KOSSINN?
Hann var æðislegur. Ætli það hafi ekki verið 1962 þegar ég kyssti konuna mína fyrst á balli fram í sveit, líklega í Varmahlíð.

HVERNIG ER ÁSTIN?
Án ástarinnar væri ekkert líf.

HVER ER DRAUMABÍLLINN?
Ég er búinn að eiga marga Land Cruiser og endurnýja þá á tveggja ára fresti því eftir það fer maður að tapa.

Í HVERJU FINNST ÞÉR BEST AÐ SOFA?
Ég sef í náttserk og í nærbrókinni.

BUBBI EÐA SIGUR RÓS?
Af tvennu illu, Bubbi.

HVER ER BESTA ÁKVÖRÐUN SEM ÞÚ HEFUR TEKIÐ?
Þegar ég gaf út tvær tveggja laga plötur á vegum Tónabúðarinnar með lögunum Nú er ég léttur og Bíddu við. Þessi lög komu mér á kortið árið 1972 en þá var ég 32 ára. Hljómsveitin Trúbrot lék undir en hún var sú heitasta um þær mundir og þetta vita ekki margir. Plöturnar voru teknar upp í Tannlæknamiðstöðinni í Síðumúla þar sem Pétur Steingrímsson hljóðupptökumaður var með stúdíó.

HVAÐA SÖGU SEGJA FORELDRAR ÞÍNIR ENDURTEKIÐ AF ÞÉR?
Þau eru nú fallin frá, blessunin en báru mér alltaf vel söguna, enda var ég hlýðinn og góður.

HVER ER ÞINN HELSTI VEIKLEIKI?
Ég átti það til að vera fljótfær en það hefur lagast með árunum.

HVER ER MESTI TÖFFARI ALLRA TÍMA?
Rúnar heitinn Júlíusson en við áttum sama afmælisdag, 13. apríl – hann ári yngri en ég.

HVAÐA BÓK EÐA KVIKMYND FÉKK ÞIG SÍÐAST TIL AÐ TÁRAST?
Maður getur tárast bæði af hlátri og sorg. En ég græt ekki í bíó og hef ekki gaman af bókum sem maður grætur yfir.

EF ÞÚ ÞYRFTIR AÐ BÚA Í SJÓNVARPSÞÆTTI Í MÁNUÐ HVAÐA ÞÁTT MYNDIRÐU VELJA?
Ekki í Útsvari og því síður í Óskalögum þjóðarinnar sem ættu að heita Vinalög því þar eru bara lög kunningja stjórnanda þáttarins og ég kemst ekki að. Ætli ég myndi ekki velja Dallas á upphafsárunum, í smástund.

HVERJU ERTU STOLTASTUR AF AÐ HAFA VANIÐ ÞIG AF?
Ég hef ekki þurft að venja mig af neinu því ég hef aldrei vanið mig á neitt.

ÁTTU ÞÉR EITTHVERT GÆLUNAFN?
Geiri.

HVAÐ ER NEYÐARLEGASTA ATVIK SEM ÞÚ HEFUR LENT Í?
Það var hrikalega neyðarlegt þegar við fórum að spila á Siglufirði fyrir ári síðan, ókum í gegnum Strákagöng og beint í skafl. Það þurfti að kalla út björgunarsveitina á Siglufirði til að bjarga okkur. Þegar við svo ætluðum heim í gegnum Héðinsfjarðargöngin lentum við aftur í skafli og þá þurfti að kalla á björgunarsveitina á Ólafsfirði. Hef ekki komið til Siglufjarðar síðan.

HVAR KEYPTIRÐU RÚMIÐ ÞITT?
Held ég hafi keypt það í verslun á Akureyri.

BIKINÍ EÐA SUNDBOLUR?
Sundbolur. Þoli illa mikla sól og hita.

SÍLIKON EÐA ALVÖRU?
Alvöru.

Related Posts