Píanóleikarinn Agnes Löve (72) fagnar sextíu árum við hljóðfærið:

Það er ekki á hverjum degi sem einstaklingur á áttræðisaldri stendur í svona miklum stórræðum en píanósnillingurinn Agnes Löve vinnur nú hörðum höndum að geisladiskaalbúmi sem fer í gegnum ýmsa hápunkta á þeim 60 árum sem hafa liðið síðan hún byrjaði.

Á góðum nótum „Ef það er þannig að maður geti ekki hugsað sér að gera neitt annað í lífinu, þá á maður að gera það,“ mælir Agnes á meðan hún lítur yfir farinn veg. „En ef maður getur aftur á móti hugsað sér eitthvað annað, þá er það það sem er betra að gera því þetta er auðvitað bara blóð, sviti og tár; að vinna fullan vinnudag, vera með fjölskyldu og börn og eiga svo eftir að æfa sig.“

NÖFNUR: Agnes með barnabarninu, henni Agnesi Þorsteinsdóttur mezzósópran.

NÖFNUR: Agnes með barnabarninu, henni Agnesi Þorsteinsdóttur mezzósópran.

Agnes segir að sama hversu mörg ár líði finnist henni píanóleikurinn alltaf jafndýrmætur og skemmtilegur en sé auðvitað gríðarleg vinna. „Það hefur verið sagt að píanistar þurfi mest að fá að æfa sig, án þess að það sé sagt til gera lítið úr öðrum. En þetta er ekki bara ástríða heldur gríðarleg tæknivinna þegar þú spilar eitt með hægri hendi og svo annað með vinstri. Þetta eru með hröðustu hreyfingum sem hinn mannlegi líkami leyfir,“ mælir frúin góða um listina.

Fjölbreytt úrval minninga

Agnes segist ekki hafa fengið að hvíla sig af neinu viti í rúmlega viku á meðan hún hefur verið á fullu að undirbúa útgáfu á geisladiskaalbúminu sínu sem ber heitið Agnes Löve – píanóleikur í 60 ár. Um er að ræða þriggja diska sett sem hún lýsir sjálf sem eins konar fögnuði og ævisögu í tónlistarformi. „Einn diskurinn er með einleik mínum, þar á meðal elstu upptökunni, frá 1954, þegar ég var tólf ára. Annar diskurinn er með mér sem einleikara ásamt finnskum fiðluleikara og sá þriðji er með sonardóttur minni sem syngur með mér. Sá diskur var tekinn upp í vetur á tónleikum sem við héldum.“
Píanóleikarinn stendur nú í því að reyna að fjármagna diskinn hjá Karolina Fund (www.karolinafund.com).

Sameinast í gegnum tónlist … í sitthvoru lagi

Burtséð frá því að hafa verið píanóleikari í sex áratugi, tónlistarstjóri Þjóðleikhússins, skólastjóri Tónlistarskóla Rangæinga og Tónlistarskóla Garðabæjar er Agnes sömuleiðis ein af fyrstu konunum á Íslandi til að ljúka háskólanámi í píanóleik. „Ég áttaði mig ekki á því fyrr en töluvert seinna. Ég hafði búið erlendis svo lengi og þar voru alltaf allir spilandi, sama af hvaða kyni. Mér fannst ég bara vera partur af því,“ mælir hún. „Svo áttaði ég mig ekki á því fyrr en ég kom heim að ég var allt í einu talin byrjandi af Íslendingum, þ.e.a.s. partur af þeirri kynslóð sem var byrjuð að æfa klassíska tónlist.“

TÓNLISTIN STÖÐUG: Seint verður kvartað undan hávaða innan þessara veggja.

Í dag heldur Agnes áfram að æfa flesta daga og Reynir Jónasson, harmonikuleikari og eiginmaður, heldur í sömu rútínu. Skötuhjúin segjast aftur á móti lítið vera í því að spila tónlistina saman, þótt þau séu stödd í sama húsinu.

„Okkur finnst betra að vera á sitthvorri hæðinni,“ segir Agnes, bætir því svo við hversu skemmtilegt það geti annars verið að eiga maka sem deili sambærilegum áhuga á tónlist og hún sjálf. „Tónlistarmenn hafa meiri skilning á tímanum sem fer í svona lagað, ekki er þá endilega sagt: „Æ, ætlarðu ekki að fara að hætta þessum látum?“ Það má segja að hálfur dagurinn hjá okkur báðum fari í það að spila og æfa hér heima. Þetta er svo góð heilaþjálfun.“
Agnes segir að það komi óhjákvæmilega að því að hún muni hætta þessu en hún vonist til þess að það verði ekki alveg á næstunni.

Related Posts