Jón Gunnar Benjamínsson(41) er bundinn við hjólastól en gefst aldrei upp:

Jón Gunnar er lamaður fyrir neðan mitti eftir að hann varð fyrir mænuskaða þegar hann lenti í bílslysi árið 2007. Hann á og rekur ferðaskrifstofuna Iceland Unlimited og hefur farið yfir Ísland á fjórhjóli auk þess að ferðast um allan heiminn.

 

jón gunnar benjamínsson

Á TOPPNUM: Jóni Gunnari og Alicju finnst gaman að feraðst og hér eru þau á toppnum á Empire State byggingunni í New York.

Lifir lífinu „Við vorum að koma úr gæsaveiði í Vopnafirði á leiðinni yfir Hellisheiði eystri til Egilsstaða til að skella okkur í sund. Þá kemur sterkur sviptivindur undir bílinn og lyftir honum upp þannig að við misstum veggrip og húrruðum fram af veginum sem er mjög brattur þarna og hlykkjóttur. Þetta var gamall bíll með bekk aftur í en engin öryggisbelti,“ segir Jón Gunnar þegar hann rifjar upp tildrög slyssins. „Ætli þetta sé ekki í fyrsta og eina skiptið sem ég hef verið í langferð í bíl og ekki verið með belti. Ég veit ekki nákvæmlega hvað gerðist þegar bíllinn valt en ég hef líklega fengið einhvern djöfulinn í bakið.“
Jón Gunnar var ákveðinn í að láta slysið ekki eyðileggja líf sitt.
„Það tók náttúrlega sinn tíma að komast á þann stað að maður gæti farið að taka þátt í lífinu á ný,“ segir hann. „Síðan kom það tækifæri þegar ég fékk styrk frá 66°N árið 2009 en þeir veita styrk árlega sem þeir kalla „Styrkur til góðra verka“. Mér datt í hug að fara yfir hálendið á fjórhjóli og kanna aðgengi að ferðamannastöðum á Íslandi og sækja um styrk til að vinna það verkefni.
Ég fékk styrkinn og það var ákveðin hvatning fyrir mig. Ári síðar stofnaði ég þetta litla fyrirtæki sem ég á í dag, Iceland Unlimited. Þannig byrjaði boltinn að rúlla en ég var búinn með ferðamálaskóla og var að vinna hjá ferðamálafyrirtæki sem ég átti lítinn hluta í. Ég seldi hlut minn og notaði peningana til að starta því sem ég er kominn með í dag.“

jón gunnar benjamínsson

FERTUGSAFMÆLI Í DUBAI: Jón Gunnar bauð Alicju, kærustunni sinni, til Dubai í tilefni af fertugsafmælinu sínu og hér eru þau fyrir utan Burj Al Arab-hótelið heimsfræga.

Ferðaskrifstofa fyrir fatlaða
Hvernig ferðaskrifstofa er Iceland Unlimited?
„Við þjónum öllum ferðamönnum, ekki bara þeim sem geta farið um á tveimur jafnfljótum heldur líka þeim sem eru í hjólastól eða eiga við einhverskonar hreyfihömlun að stríða. Við bjóðum upp á ferðir um Ísland og Grænland fyrir okkar gesti og reksturinn gengur bara mjög vel. Við erum 10 starfsmenn hjá fyrirtækinu í dag auk lausráðinna leiðsögumanna. Minnihluti okkar gesta á við fötlun að stríða en þeim fjölgar eftir því sem árin líða. Það verður stöðugt auðveldara fyrir þá gesti sem þurfa á ákveðinni sérmeðhöndlun að halda að finna okkur á Netinu.“
Fyrirtæki Jóns Gunnars hefur vaxið hratt.
„Við erum nýflutt með skrifstofur okkar í Borgartún 27 í mitt fjármálahverfið og komin í alvöruhúsnæði. Hingað til höfðum við verið í sprotafyrirtækjasetrum. Fyrst vorum við þar sem Norðurljósasetrið er í dag en það hét Hugmyndahúsið. Svo fórum við í Kvosina sem var sprotafyrirtækjasetur í Lækjargötunni þar sem Íslandsbanki var en það var rekið í samstarfi við Íslandsbanka og Nýsköpunarmiðstöð. Svo þegar átti að breyta því í hótel færðum við okkur hingað.
Það skipti öllu máli fyrir okkur að fá þennan stuðning til að komast af stað. Við værum örugglega ekki þar sem við erum í dag ef við hefðum ekki fengið húsnæði á þessum kjörum. Við hefðum ekki getað verið á þessu miðbæjarsvæði ef við hefðum þurft að greiða hefðbundna leigu og það hefði drepið okkur á fyrsta árinu.“

Sæskjaldbökur og þyrluferðir
Jón Gunnar er í sambúð og lofaður Alicju Wiktoriu frá Pólandi.
„Alicja starfaði hjá Iceland Unlimited en fékk vinnu á Orkustofnun í apríl sem jarðvarmatæknifræðingur. Við kynntumst á þorrablóti í Eyjafjarðarsveit árið 2011 en ég er að norðan og hún var í Háskólanum á Akureyri.“

jón gunnar benjamínsson

FLOTT PAR: Jón Gunnar og Alicja eru flott par og hér eru þau í snjósleðaferð á páskum 2013.

Þú ert duglegur að ferðast. Hverjar eru eftirminnilegustu ferðirnar sem þú hefur farið í til útlanda?
„Það er tvímælalaust þegar við Alicja fórum til Hawaii árið 2012 og vorum þar í tvær vikur. Við fórum til Maui og Kauai og þetta eru einstakir staðir. Við syntum með sæskjaldbökum, fórum í þyrluferðir og þetta var frábært ævintýri. Það var stórfenglegt að synda í heitum sjónum og gera allt það sem þessar eyjar bjóða upp á. Síðan fórum við til Dubai á fertugsafmælinu mínu í fyrra og það var líka mjög skemmtilegt. Þetta var allt öðruvísi en öll önnur ferðalög sem ég hef farið í og gjörólíkur menningarheimur.“

jón gunnar benjamínsson

PÚLARI Á ANFIELD: Jón Gunnar er mikill púlari og sá Liverpool sigra Norwich 2-0 á Anfield í apríl.

Sannur púlari
Jón Gunnar fylgist vel með enska boltanum og er mikill stuðningsmaður Liverpool.
„Það er erfitt að vera púlari í dag en maður gefst ekki upp á því frekar en öðru og styður sitt lið í gegnum súrt og sætt, sem því miður hefur verið meira súrt upp á síðkastið. Það er alltaf næsta tímabil eins og við púlarar segjum. Ég hef farið tvisvar á Anfield en það getur verið smábras að ná í hjólastólamiða ef maður er ekki búsettur í Englandi og í félagi fatlaðra stuðningsmanna.“
Jón Gunnar er veiðimaður af guðs náð en hvernig gengur honum að veiða með þessa fötlun?
„Ég nota fjórhjól til að komast á veiðislóð og hef verið mjög aktífur í því eftir að ég fór aftur út í lífið eftir slysið. Ég mætti t.d. strax árið 2008 í sama holl og ég hafði alltaf veitt með í Laxá í Mývatnssveit. Þeir áttu svo sem ekki von á mér en með því að vera á góðu fjórhjóli og með góðfúslegt leyfi landeigenda þá hefur þetta gengið. Maður fer náttúrlega bara varlega og skilur ekki eftir sig slóðir eða spól. Ef maður gengur vel um þá er þetta hægt. Ég kemst ekki endilega á sömu gömlu staðina en ég fer bara betur yfir þá staði sem ég kemst á og það hefur gengið ótrúlega vel. Yfirleitt er ég með einhvern góðan félaga með mér til að aðstoða mig því það getur verið varasamt að vesenast í þessu einn ef maður festist eða kemur sér í sjálfheldu.“

Pólland um jólin
Hvað er fram undan í leik og starfi?
„Fram undan er að styrkja innviði fyrirtækisins en við erum í svokölluðu Vaka-ferli sem er gæðaeftirlitskerfi ferðaþjónustunnar og ætlum að gera góða hluti þar. Síðan ætla ég að skreppa til Póllands með Alicju um jólin og dvelja þar með fjölskyldu hennar. Við skiptum þessu á milli og erum annað hvert ár í Pólandi og annað hvert ár hér.“
Þú ferðast um heiminn líkt og þú værir ófatlaður
„Já, þannig lagað, en maður spáir betur í það hvernig aðstæður eru á hverjum stað. Þegar ég fer á sólarströnd þarf ég t.d. að hafa í huga hvort þar séu strandhjólastólar. Ég met hvernig aðgengið er og hvort ég fái þannig hótel að ég komist í sturtu í herberginu mínu. Þetta er allt í boði en maður þarf bara að leita að því.“

Bróðirinn líka lamaður
Jón Gunnar á yngri bróður, Berg Þorra, sem lenti í slysi fyrir 11 árum og er líka bundinn við hjólastól.
„Bergur Þorri er varaformaður Sjálfsbjargar og við erum báðir mjög aktífir og látum þetta ekki eyðileggja lífið þó að vissulega sé þetta þungur baggi að burðast með. Hann studdi mig vel eftir að ég lenti í slysinu, og gerir enn, og við hvor annan. Við erum báðir að berjast fyrir bættu aðgengi hér í borginni. Hann í vinnunni og við báðir þess utan. Þetta er eitthvað sem við reynum að þrýsta á ef við mögulega getum. Þetta er endalaus vinna og gríðarlega mikið verk sem enn er óunnið. Því miður mætum við stundum litlum skilningi frá borgaryfirvöldum, sem fer í taugarnar á mér og gerir manni erfitt fyrir.“

Related Posts