Ævar Þór (29) og Guðni Líndal (26) rifja upp æskuminningar:

 

Hjá bræðrunum Ævari Þór og Guðna Líndal Benedikssonum ríkir mikil sköpunargleði. Ævar er leikari í fullu starfi og Guðni upprennandi kvikmyndagerðarmaður með meiru, en báðir eiga það sameiginlegt að hafa nýlega gefið út hvor sína barnabókina og eiga þær rætur að rekja til æskuáranna og tölvuleikjanna sem voru spilaðir og þeirra sem voru það ekki. Bræðurnir varpa ljósi á sögurnar.

 

Gamlir draumar í nýjum búningi „Við vorum oftast á svipuðum slóðum en ég var alltaf talsvert hrifnari af ævintýra-, slagsmála- og teiknimyndum en Ævar,“ segir Guðni Líndal leikstjóri og höfundur um sameiginlegu einkenni þeirra bræðra á uppeldisárum. „Ég sá líka alfarið um tölvuleikjaspilunina á heimilinu,“ bætir hann hressilega við, „en sá listmiðill hefur haft djúpstæð áhrif á mig og öll mín sköpunarverk. En það er oftast þannig að ef annar okkar kann vel við kvikmynd þá gerir hinn það líka. Nema The Fountain, sem mér finnst alveg stórkostleg en Ævar hefur ekki nennu fyrir að horfa á.“

 

Hetja eða heigull?

Thin_eigin_thjodsaga-175x275Bókin Þín eigin þjóðsaga er nýjasta afurð Ævars og rauk hún beint í efsta sæti sölulista Forlagsins nú á dögunum. Í henni er það lesandinn sjálfur sem ræður ferðinni og því má segja að hún sé öðruvísi en allar aðrar barnabækur. Sögusviðið er heimur íslensku þjóðsagnanna og hætturnar leynast við hvert fótmál.

„Bókin byrjar eins og allar aðrar bækur … á byrjuninni. En fljótlega stoppar hún, eins og strætó á biðstöð, og þú, sem sagt lesandinn, þarft að ákveða hvað gerist næst. Þannig breytist sagan og spinnst í alls kyns áttir, eins og tölvuleikur í rauninni, allt eftir því hvað þú velur,“ mælir Ævar.

„Gott dæmi er til dæmis þegar þú hittir Búkollu og Karlsson. Skessurnar eru á hælunum á þeim og þú þarft að ákveða: Ætlarðu að hjálpa Búkollu, eða ætlarðu að hjálpa skessunum? Endirinn fer alveg eftir því hvaða leið þú ferð, bókin getur endað bæði vel og illa – allt eftir því hvert valið um það er. Hópur af krökkum getur byrjað að lesa bókina og þeir endað hver á sínum staðnum. Endarnir eru fimmtíu og ef maður er heppinn og útsjónarsamur lifir maður bókina af. Ertu hetja eða heigull? Góður eða vondur? Þú ræður!“

 

Enn skemmdur eftir Stephen King

LeitinAdBlodeyLeitin að Blóðey er fyrsta skáldsaga Guðna og hlaut hún Íslensku barnabókaverðlaunin á dögunum. Gengur hún út á spennandi sögu sem afi nokkur segir barnabarni sínu á rúmstokknum og fjallar um viðburðaríkan björgunarleiðangur afans eftir að illur galdrakarl rændi ömmunni. Að sögn Guðna bregður fyrir alls kyns verum á eins og ninjum, drekum, ljónhestum, ófreskum og tröllum svo eitthvað sé nefnt.

Guðni segist hafa lesið heilmikið af ævintýrabókum á yngri árum, allt frá Hringadróttinssögu til Tinnabókanna, einnig Dagbækur Berts og Lukku Láka. „Ég bjó í sveit og var duglegur við að fá lánaðar bækur í hrönnum á bókasafninu. Við bræðurnir vorum snemma komnir í bækur á ensku og teiknimyndasögur í beinu framhaldi af því, en þær opnuðu alveg nýjan heim fyrir mér þar sem myndræn frásögn var ríkjandi,“ mælir hann.

„Ég held samt að ég sé enn þá skemmdur eftir að hafa lesið The Shining eftir Stephen King þegar ég var aðeins ellefu ára. En áhrifamestu höfundarnir hljóta að vera J.R.R. Tolkien, J.K. Rowling og Garth Ennis. Ennis fær að fljóta með því teiknimyndasögur eru líka bækur, sama hvað fólk segir.“

 

Hræðsla og vígalegt ímyndunarafl

bros bros

KRÚTTSPRENGJUR: Leikarinn og leikstjórinn í æsku. Guðni er þessi yngri. Skothelt dúó.

Eins og litli bróðir gaf til kynna sóttist Ævar talsvert meira í óhugnaðinn. „Ég hef alltaf haft gaman af því sem hræðir mig, því það getur verið svo gaman að vera hræddur ef það er innan ákveðins ramma. Íslensku þjóðsögurnar er eitthvað sem maður las auðvitað og kunni þegar maður var yngri enda ekki af ástæðulausu að þessar sögur hafa lifað með okkur í gegnum árin. Þær eru alveg magnaðar og því er ótrúlega gaman að taka þessar þekktu persónur og setja sinn eigin snúning á þær,“ segir Ævar.

En hvaða ófreskjur voru þá í mesta uppáhaldi?
„Marbendlar eru í miklu uppáhaldi hjá mér en ég náði því miður ekki að koma þeim inn í þessa bók,“ segir Ævar. „Guðni bróðir er hins vegar, af einskærri tilviljun, einmitt með marbendil í sinni bók, þannig að jólunum er bjargað þegar kemur að þeirri ágætu dýrategund. Djákninn á Myrká er sömuleiðis í miklu uppáhaldi hjá mér og hann fær að njóta sín bæði í og utan á bókinni.“
Í Leitinni að Blóðey mætti segja að margt við aðalpersónu bókarinnar, þ.e.a.s. afann, sé byggt á upplifun Guðna á pabba sínum á yngri árum. „Hann var alltaf duglegur við að segja okkur systkinunum miklar og svakalegar sögur sem þjálfuðu upp í okkur vígalegt ímyndunarafl. Mig hafði lengi langað til að gera íslenska bók sem væri stærri en lífið sjálft, uppfull af skrímslum og furðuskepnum. Svona bók sem ég hefði viljað lesa í æsku.“
Guðni segir að nóg sé til í heilabúinu ef kæmi til greina að halda áfram með seríuna. „Það sem er svo skemmtilegt við ævintýrin hans afa er að hann á ekki í erfiðleikum með að vippa fram annarri sögu ef þörf krefur. Ég á nóg af hugmyndum sem væri virkilega gaman að sleppa lausum, þó að það væri ekki nema bara til að sjá hversu snilldarlega teiknarinn minn gæti unnið úr þeim. Hann skreytir einmitt hvern einasta kafla í þessari bók. Ég er búinn að vera að gera beinagrind að framhaldi sem mun líta dagsins ljós ef þessi gengur vel. Draumurinn er að þetta verði þekkt sem „afabækurnar“ hjá krökkunum í landinu.
Trylltara en kvikmyndahandrit

Ævar, oft titlaður sem hinn þjóðþekkti Ævar vísindamaður, hefur áður gefið út bókina Umhverfis landið í 30 tilraunum, en að því utanskyldu hefur hann komið víða í leiklistinni á bæði sviði og í sjónvarpi.

Guðni er sjálfur menntaður í kvikmyndagerð og hefur skrifað stuttmyndir, smásögur og þar að auki leikrit. Segir hann að það hafi verið skemmtilega öðruvísi að fara í skáldsöguformið eftir að hafa unnið svo lengi að kvikmyndahandritum. „Í bók eru engar sérstakar reglur, því hún getur verið eins löng og þú vilt. Upphaf, miðja og endir eru einnig talsvert meira túlkunaratriði en ég er vanur. Ég þurfti þess vegna að setja mínar eigin reglur varðandi kaflafjölda og lengd og hvernig hver og einn kafli væri byggður upp,“ segir hann.

„Sköpunarferlið sjálft var að mörgu leyti trylltara en í hefðbundnu kvikmyndahandriti, því þarna gat maður gefið sér algjörlega lausan tauminn og sett hvað sem manni datt í hug þarna inn án þess að hafa áhyggjur af því að einhver aumingja maður þyrfti að framkvæma þetta á filmu. Það er gjörsamlega trylltur drekabardagi seint í bókinni sem væri virkilega erfitt að gera góð skil á íslenskum „bíóbudget.“

Related Posts