Kristófer Acox (23) skorar markadrauma einn á fætur öðrum:

Hann er alltaf kallaður Kristó, Kristófer Acox ólst upp hjá móður sinni og ömmu og kynntist ekki föður sínum fyrr en hann var kominn á unglingsár. Hann byrjaði ungur að æfa fótbolta en í lok grunnskólans heillaðist hann af körfunni og tók hana fram yfir. Nú er hann búsettur í Bandaríkjunum þar sem hann spilar í háskólakörfuboltanum og ætlar sér í atvinnumennsku. Fyrsta skrefið á þeirri leið er draumur um sigursæti á Evrópumóti landsliða í körfubolta, en þangað fer hann á næsta ári með íslenska landsliðinu.

Kristó

HUNGRAÐUR Í STIG: Kristó einbeitir sér að því að skora stig í leik. Hann og félagar uppskáru eins og sáð var, sæti á EURO 2017.

Kristó

VILL FINNA KÆRUSTU HEIMA: Aðspurður hvað kærastan sé að gera svarar Kristó: „Ég er einhleypur eins og er, þannig að ég hef ekki hugmynd um hvað hún er að gera. En 100% samt einhvers staðar á Íslandi!“ segir hann og hlær.

Engin strákapör „Ég er uppalinn í Vesturbænum af tveimur mikilvægustu konum í lífi mínu, móður minni; Ednu Maríu Jacobsen og Magnhild, ömmu minni heitinni,“ segir Kristó. Kristó var í Vesturbæjarskóla, enda var hann bara hinum megin við götuna frá heimilinu, fór síðan í Hagaskóla og svo í Kvennaskólann í Reykjavík og núna er hann á síðasta ári í Furman- háskólanum í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. „Ég átti aldrei neitt uppáhaldsfag en fannst samt skárra að vera í fögum sem höfðu eitthvað að gera með tölur í staðinn fyrir bókmenntir,“ segir Kristó. „Ég á margar góðar minningar úr öllum skólunum, besta minningin er örugglega útskriftarferðin hjá Kvennó, tvær vikur af eintómri skemmtun! Ég get ekki sagt að ég hafi verið uppátækjasamur, var yfirleitt mjög rólegur og gerði ekki mikið nema eitthvað með félögunum bara, sem var yfirleitt planað.“

Kristó

ALINN UPP AF MÖMMU OG ÖMMU: Kristó ólst upp hjá einstæðri móður sinni, Ednu Maríu Jacobsen, og bjuggu þau lengst af með móður hennar, Magnhild, en hún lést árið 2011. „Tvær konur sem eru og munu alltaf vera mér allt, sama hvað. Allt sem ég geri, geri ég til að gleðja þær. Amma kvaddi fyrir fimm árum en mér finnst eins og ég hafi haldið í höndina á henni í gær. Hún vakir yfir mér og mínum og fylgir mér hvert sem ég fer.“

Kristó

EINN FJÓRÐI FÆREYINGUR: Móðuramma Kristós, Magnhild, var Færeyingur og hér eru þau saman á Ólafsvöku í Færeyjum.

Kristó

AÐDÁANDI NÚMER EITT: Það dylst engum sem til þekkir að Edna María, mamma Kristós, er hans helsti aðdáandi og bókstaflega að rifna úr stolti yfir árangri sonarins.

Ferillinn hófst í KR
Aðspurður af hverju hann valdi KR og fótboltann, svarar Kristó að það sé mjög góð spurning. „Allir vinir mínir voru alltaf í KR og strákarnir sem ég ólst upp með voru flestallir í fótbolta þannig maður elti þannig séð bara hópinn. Ég hafði alltaf mikinn áhuga á íþróttum samt og prófaði meðal annars að fara á handboltaæfingar sem mér fannst hins vegar ekkert spes. Ég var oft beðinn um að koma á körfuboltaæfingar en alvaran byrjaði ekki fyrr en í níunda bekk þegar ég fór fyrst að æfa eitthvað af viti,” segir Kristó. „Ég var valinn í úrval fyrir bæði körfu og fótbolta þegar ég var fimmtán ára en komst ekki í lokahópinn í fótbolta þannig að eftir það byrjaði ég að taka körfuna fram yfir fótboltann og hætti á endanum að spila fótbolta 2008.“

Kristó

KR-LIÐIÐ: Kristó æfði fótbolta með sömu strákunum mörg ár upp yngri flokkana í KR. Margir þeirra eru góðir vinir hans enn í dag. Ragnar Leví, Kristó, Walter, Ásgeir Tómas, Ólafur, Ragnar, Marteinn og Egill.

Kristó

POKÉMON-KRÚTT: Kristó var farinn að elta Pokémona löngu fyrir 2016 eða þegar æðið reið fyrst yfir landið í kringum 2000.

Kristó

SNEMMA BEYGIST KRÓKURINN: Kristó var byrjaður að leika sér ungur með körfubolta, þó að hann hafi ekki byrjað að æfa körfu af alvöru fyrr en hann var í níunda bekk.

Hitti föður sinn fyrst 14 ára
Eins og áður sagði ólst Kristó upp hjá einstæðri móður sinni og þekkti ekki föður sinn, en hafði það einhver áhrif á hann að alast upp án föður? „Það er auðvitað skrítið að hafa ekki pabba sinn í kring um sig þegar maður er að alast upp eins og flestir krakkar gerðu, en ég hefði ekki getað fengið betra uppeldi en það sem ég fékk fra mömmu minni og ömmu,“ segir Kristó. „Þær sáu alltaf til þess að ég hafði það gott sama hvernig aðstæður voru og er ég þeim ævinlega þakklátur fyrir. Ég var í einhverju sambandi við pabba þegar ég var yngri en þá aðallega bara i gegnum tölvupóst og síma, en mamma var mjög dugleg að halda mér og pabba í einhverju sambandi þótt það hafi ekki verið mikið. Ég hitti hann síðan í fyrsta sinn 2008, ekki nema 14 ára gamall og var það mjög einkennileg tilfinning að hitta hann í eigin persónu loksins, en samt líka mjög gott.“

Tveimur árum síðar flutti Kristó til Bandaríkjanna til föðurs síns. „Ég bjó hjá honum í eitt ár á meðan ég var í „high school“ úti. Samband okkar á þeim tíma varð mjög brösugt og okkur kom ekki vel saman, sem var síðan ein af ástæðum þess að ég flutti aftur heim til Íslands 2011 og var hér næstu tvo árin,“ segir Kristó. „En samband okkar núna hefur aldrei verið betra og þótt ég hafi bara kynnst pabba 2008 finnst mér eins og ég hafi þekkt hann allt mitt líf. En ég myndi ekki segja að hann sé ástæðan fyrir því að ég er úti í skóla. Pabbi var hins vegar ein af ástæðunum fyrir því að ég valdi Furman-skólann, þar sem hann býr um tveggja tíma akstursfjarlægð frá skólanum. En ég fór fyrst og fremst út fyrir sjálfan mig.“

Kristó

ÚTSKRIFAÐUR SVARTHÖFÐI: Kristó útskrifaðist vorið 2013 frá Kvennaskólanum í Reykjavík og auðvitað kom ekkert annað til greina en að henda sér í búning Svarthöfða við dimitteringuna.

Kristó

GAMLA SETTIÐ: Kristó er hér með foreldrum sínum, Lemont Acox og Ednu Maríu Jacobsen, eftir sigurleik. Eins og sjá má er móðir hans súperkát með úrslitin.

Atvinnumennskan heillar
Skólinn sem Kristó er í heitir Furman University og er staðsettur í Greenville, Suður-Karólínu. „Ég byrjaði 2013, strax eftir Kvennó og er á síðasta árinu mínu og útskrifast sem sagt núna í byrjun maí 2017. Ég er að læra heilbrigðisvísindi (Health Science) en plana nú ekki beint að nýta það eftir útskrift heldur stefni ég að atvinnumennsku. Þori ekki alveg að fara með það hvar, en er nokkuð viss um hvað ég vilji gera á næsta ári,“ segir Kristó.

Meiðsli höfðu af honum eitt ár
Kristó meiddist á fyrsta árinu og missti af nær öllu tímabilinu það árið. Hann ákvað að harka meiðslin og bataferlið af sér úti í stað þess að koma heim til Íslands. „Ég meiddist frekar illa á fyrsta árinu mínu þegar ég braut bein í hægri fætinum. Það þurfti aðgerð og sex mánaða hvíld eftir aðgerð þannig að ég missti af mestöllu tímabilinu það árið. Ég var of óþolinmóður og fór of snemma aftur af stað og meiddist aftur og þurfti að sitja út tvo aukamánuði. Síðan fékk ég sprungu í vinstri fótinn í úrslitaleiknum á öðru árinu mínu þegar um fimm mínútur voru liðnar og þurfti að sitja út sex vikur. Ég slapp hins vegar við öll meiðsli á þriðja árinu mínu og er vonandi búinn með meiðslakvótann i bili!“

Kristó

TROÐSLA: Já, hann fer létt með að stökkva upp í körfuna, enda tveir metrar á hæð. Hér er Kristó að skora stig á móti andstæðingum sínum.

Kristó

SIGUR Á SVISS: Kristó leikur hér á leikmann Sviss í undankeppni Evrópumóts landsliða. Ísland vann 88-72.

Good luck frá Guðna Th.
Það vakti nokkra athygli þegar Kristó spilaði í leiknum á móti Sviss í undankeppni Evrópumóts landsliða hér heima að forseti Íslands ávarpaði hann á ensku með Good luck, en aðra leikmenn á íslensku með: gangi ykkur vel. Kristó tók þessum mistökum forsetans ekki óstinnt upp og skaut bara til baka „Thanks bruh.“ Guðni Th. bað Kristó síðar afsökunar. En hefur Kristó einhvern tíma upplifað rasisma, í körfunni eða í daglega lífinu? „Ég hef sem betur fer aldrei upplifað neinn rasisma áður, eða ekki svo ég muni eftir. Maður hefur samt heyrt margar ljótar sögur og pabbi á þær nokkrar síðan þegar hann var að spila á Íslandi í gamla daga,“ segir Kristó. „Körfubolti er jú einmitt mjög vinsæll í menningunni hjá blökkumönnum og eru þeir margir góðir sem spila víða um heiminn, og þá aðallega NBA en það er örugglega eitthvað um rasisma í körfunni eins og alls staðar annars staðar í heiminum. Það er kannski mun minna um það heima á Íslandi sem betur fer. En eins og ég segi, persónulega hef ég aldrei orðið fyrir neinu slíku.“

Kristó

UNGUR AÐDÁANDI: Heiðdís Sigurðardóttir, 5 ára, mætti á leikinn Ísland-Kýpur í Laugardalshöll í september. Heiðdís beið í 30 mínútur og neitaði að fara heim fyrr en hún væri komin með mynd af uppáhaldsleikmanninum sínum. Kristó varð að sjálfsögðu við beiðni hennar um myndatöku.

Kristó

HEIÐUR AÐ SPILA FYRIR ÍSLANDS HÖND: Kristó telur það fyrst og fremst mjög mikinn heiður að hafa verið valinn í íslenska landsliðið. „Ég var búinn að leggja hart að mér í allt sumar til að eiga möguleika á því að komast í liðið og spila. Það var auðvitað fúlt að missa af tækifærinu síðasta sumar þegar strákarnir fóru á EM þannig að það var extra sætt að fá að taka þátt í þessu verkefni í sumar og hvað þá að komast á EM annað skiptið í röð, ég get ekki beðið eftir næsta sumri. Er strax byrjaður að telja niður dagana til þess að komast upp í vél og fljúga heim.“

Landsliðið og Evópumót landsliða
Kristó mun keppa ásamt félögum sínum í íslenska landsliðinu á Evrópumóti í körfuknattleik karla haustið 2017. Eurobasket mun fara fram í Finnlandi, Ísrael, Rúmeníu og Tyrklandi 31. ágúst til 17. september 2017, Ísland keppir þar með 23 öðrum bestu liðum Evrópu.

Kristó segir tilfinninguna að vera kominn í Eurobasket mjög sérstaka. „Ég hef aldrei unnið neitt svona stórt áður þannig að sigurvíman var gríðarleg eftir að við unnum Belga og tryggðum okkur miða áfram. Ég var að taka þátt í fyrsta alvörulandsliðsverkefninu mínu núna í sumar og að komast á svona stórmót í fyrstu undankeppninni minni skemmir alls ekki fyrir,“ segir Kristó sem stefnir að atvinnumennsku og ætlar sér stóra hluti í framtíðinni í körfunni.

Kristó

FÉLAGAR FALLAST Í FAÐMA: Kristó og vinur hans, Martin Hermannsson, hafa æft og keppt saman, bæði í fótbolta og körfu, upp yngri flokkana í KR og síðan í íslenska landsliðinu í körfu. Núna eru þeir á leið saman á EURO 2017.

Kristó

FLÚRIN: Kristó er orðinn helflúraður og ekki hættur enn þá. Hann heiðraði minningu móðurömmu sinnar með þessu flotta flúri á vinstri upphandlegg. Auk þess er hann með tvö flúr tileinkuð móður sinni, á brjóstkassanum og innanverðum hægri upphandlegg.

Kristó

screen-shot-2016-09-27-at-12-27-26

Séð og Heyrt spilar körfu.

Related Posts