BlackBull

ALLIR TAKA ÞÁTT: Öll fjölskyldan tekur þátt í rekstri veitingastaðarins.

Guðmundur Guðmundsson (53) og fjölskylda opna veitingastað í suðrænni sól:

Fyrir níu árum ákváðu sjómaðurinn Guðmundur Guðmundsson og fjölskylda hans að flytjast búferlum. Fallegur bær rétt fyrir utan Torremendo varð fyrir valinu. Nú hefur fjölskyldan opnað steikhús og hefur staðurinn vægast sagt slegið í gegn.

Draumurinn rættist

„Það var gamall draumur að flytja til Spánar. Fyrir níu árum síðan létum við síðan verða af því og fluttum og höfum ekki séð eftir því,“ segir sjómaðurinn og nú veitingahúsaeigandinn Guðmundur Guðmundsson en hann og fjölskylda hans opnuðu veitingastað á Spáni þann 1. nóvember síðastliðinn.

Black Bull Steakhouse

„Ég get ekki sagt að við söknum Íslands, því miður. Ég vinn á frystitogaranum Brimnesi þannig að ég er heima í einn mánuð og á sjó hinn mánuðinn. Börnin eru öll í íþróttum og hafa nóg að gera og sakna Íslands voða lítið.“

Það var síðan í byrjun nóvember sem fjölskyldan ákvað að færa út kvíarnar og opna steikhús undir nafninu The Black Bull Steakhouse Bar & Restaurant. „Það er búið að vera nóg að gera síðan við opnuðum staðinn. Fyrsta daginn héldum við fiskidaginn hátíðlegan en þá mættu 160 Íslendingar, daginn eftir var það sama uppi á teningunum en þá mættu tæplega 200 Bretar. Við erum hrikalega ánægð með útkomuna á staðnum. Matsölustaðurinn er 600 fermetrar að stærð enda er hérna bar og mótel líka.“

Allir tala spænsku

Matsölustaðurinn er staðsettur í sveitinni rétt fyrir utan Torremendo og að sögn Guðmundar er umhverfið fallegt og friðsælt. „Við erum mjög heppin með staðsetningu og umhverfið er eins og best verður á kosið.“ Fjölskyldan hefur nú verið í níu ár á Spáni og eru flest komin með spænskuna á hreint. „Það eru allir byrjaðir að tala spænsku nema ég en það er allt í lagi, það kemur. Núna á líka bara einn draumur eftir að rætast og það er að verða eldgamall maður á Spáni.“

 

SH-10864070_101524228790470

METNAÐUR: Guðmundur og fjölskylda hafa búið í níu ár á Spáni og hafa nú opnað glæsilegan veitingastað á Costa Blanca-svæðinu sem er rétt fyrir utan San Miguel de Salinas.

 

BlackBull

FLOTT HJÓN: Guðmundur ásamt konu sinni, Heiðrúnu Láru Kristjánsdóttur.

 

BlackBull

FALLEGT: Umhverfið í kringum The Black Bull Steakhouse er eins og best verður á kosið.

 

BlackBull

DUGLEGIR: Strákarnir hans Guðmundar reka staðinn ásamt foreldrum sínum. Guðmundur Guðmundsson og Kristján Dagur standa vaktina alla daga ásamt Heiðrúnu Láru Kristjánsdóttur.

Related Posts