Esther Inga Níelsdóttir (45), móðir Maríu Tinnu Hauksdóttur (14):

Esther Inga Níelsdóttir er móðir eins efnilegasta dansara landsins, Maríu Tinnu Hauksdóttur. Esther Inga er danskennari og margfaldur Íslandsmeistari og því ljóst að dóttir hennar er í góðum höndum. Esther segir dóttur sína og dansherra hennar ætla sér að verða best í heimi en leggur áherslu á að ekki sé hægt að pressa á börn í þessum bransa.

DANSMÆÐGUR: Esther Inga og María Tinna lifa fyrir dansinn og hér fagna þær árangri Maríu en hún sigraði Bikarmót DSÍ í Unglingaflokki II.

DANSMÆÐGUR: Esther Inga og María Tinna lifa fyrir dansinn og hér fagna þær árangri Maríu en hún sigraði Bikarmót DSÍ í Unglingaflokki II.

Dans „Hún var þriggja ára gömul þegar hún byrjaði að dansa. Ég er danskennari, eins og afi og amma, þannig að það gaf í raun augaleið að María myndi fara í dans. Hún er að dansa það sama og ég dansaði á sínum tíma, suðurameríska dansa og ballroom, þetta hefur lítið breyst,“ segir Esther.

„Við erum stödd í Blackpool þessa stundina á stóru dansmóti og krakkarnir eru búnir að eiga alveg frábæra viku. Það eru um þrjátíu íslensk pör hérna sem er töluverður fjöldi og það er auðvitað alveg frábært.“

 

Mikið álag

Það er oft mikið álag á samkvæmisdönsurum, enda æfingarnar harðar og keppnirnar enn erfiðari. Það tekur þó ekki jafnmikið á þegar gleðin er við völd.

„María Tinna og Gylfi Már, dansherrann hennar, eru að gera alveg einstaklega góða hluti. Þau eru að keppa í 12-16 ára flokknum en eru bara 13 og 14 ára. Það er dagur sex í dag þannig að þetta er mikið álag, það er búið að kaupa kælisprey og margir fætur nuddaðir,“ segir Esther og hlær.

„Þegar það gengur líka svona vel þá verður álagið meira en þau eru í góðri æfingu.“

GLÆSILEG: María Tinna er einn allra efnilegasti dansari landsins og er með alla takta á hreinu.

GLÆSILEG: María Tinna er einn allra efnilegasti dansari landsins og er með alla takta á hreinu.

Esther Inga er danskennari og hefur þrifist í dansheiminum alla sína tíð. Þegar hún er spurð að því hvað þurfi til að verða góður dansari er svarið einfalt.

„Það geta allir lært að dansa en auðvitað liggur þetta misvel fyrir fólki. Það þarf bara fyrst og fremst áhuga, elju og dugnað og þá geta allir orðið frábærir dansarar.“

 

Harður heimur

Dansheimurinn getur verið harður heimur, enda samkeppnin mikil og alls ekki á allra færi að standa fyrir framan dómara og láta dæma sig á hverjum degi. Esther er þó vel sjóuð í þessum heimi, enda fyrrum atvinnumaður í dansi, og er ávallt til staðar fyrir dóttur sína.

„Þetta getur verið mjög harður heimur en það er líka mikil gleði og gaman fyrir krakkana að kynnast alls konar fólki og upplifa hluti sem aðrir hafa kannski ekki tækifæri á að upplifa. Auðvitað er þetta keppni en fyrst og fremst snýst þetta um vináttu og að hafa gaman. Það er aðalatriðið.

Ég er dugleg að leiðbeina henni. Ég er ekki eini kennarinn hennar en hún á góða að. Adam og Karen, fyrrum heimsmeistarar, eru þeirra aðalkennarar en svo fara þau líka til útlanda í sérkennslu. Ég mæti samt á allar æfingar og fylgist með.“

 

Ætla alla leið

Til að verða bestur í sinni íþrótt þarf að færa fórnir og það eru María Tinna og Gylfi tilbúin að gera. Þegar kemur að samkvæmisdönsum þarf hins vegar að huga að mörgu öðru en dansinum. Fötin eru stór hluti af sýningunni og spurð að því hvort því fylgi ekki mikill kostnaður að vera dansari segir Esther það ekki þurfa að vera svo.

„Þetta getur verið dýrt en það er samt hægt að stjórna buddunni sjálfur. Þetta þarf alls ekki að vera dýrt. Ég til dæmis sauma alla kjóla þannig að ég þarf ekki að leggja út hundruð þúsunda í kjólakostnað. Ef maður er sniðugur þá þarf þetta ekki að vera dýrt.

Það er alveg á hreinu hjá Maríu og Gylfa að þau ætla sér að vera best. Þrátt fyrir ungan aldur þá eru þau strax byrjuð að bera sig saman við heimsmeistarana í sínum flokki og hversu langt þau eru frá þeim. Það er hins vegar engin pressa frá mér eða foreldrum Gylfa en þau fá alltaf hundrað prósent stuðning. Ef þú ætlar að vera í dansi á þessum klassa þá verðurðu að vilja þetta sjálfur en stuðninginn hefur hún hundrað prósent frá okkur.

Þau eru í raun aðallega í þessu því þeim finnst þetta æði og vilja ná langt og þá eru foreldrarnir tilbúnir að hjálpa.“

FLOTT PAR: María Tinna og Gylfi Már ætla sér alla leið í samkvæmisdönsum og eru tilbúin að færa fórnir fyrir íþróttina sem þau elska.

FLOTT PAR: María Tinna og Gylfi Már ætla sér alla leið í samkvæmisdönsum og eru tilbúin að færa fórnir fyrir íþróttina sem þau elska.

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts