Fallegasti tími ársins er genginn í garð, aðventan og niðurtalning til jóla. Ég er mikið jólabarn og hef ávallt haldið upp á þennan tíma ársins. Sjálf er ég mjög fastheldin á jólahefðir sem ég hef að miklu leyti haldið til haga frá ömmu minni og afa sem og mömmu, en á það til að bæta við hefðirnar með mínum börnum. En ég byrja aldrei að undirbúa jólin og spila jólalög fyrr en fyrstu helgina í aðventu.

Á aðventunni eru jólin undirbúin, húsið skreytt með fallegum jólaljósum, aðventukransinn föndraður, nokkrar smákökutegundir bakaðar, jólagjafirnar keyptar, pakkaðar inn og skreyttar en nostrað er við hvern pakka sem fær sinn karakter. Jólakortin rituð við kertaljós og kósíheit, piparkökuhús fjölskyldunnar skreytt og sérstök stund er þegar jólatré fjölskyldunnar er valið.

Frá því að ég man eftir mér hef ég ávallt farið með afa og ömmu að kaupa jólatré, frá bernsku, og áfram eftir að ég stofnaði mína eigin fjölskyldu og það var svo sannarlega vandað til verka. Þetta er afar heilög stund fyrir mér, ég ólst við upp við þessa hefð og jólatréð í stofunni kemur með jólin. Við skreytum jólatréð saman á Þorláksmessu sem er einnig hugljúf stund hjá okkur og lokahnykkurinn í jólaundirbúningnum.

Það eru engin jól nema að við höfum lifandi og ilmandi Nordmannsþin í stofunni og kröfurnar eru miklar. Maðurinn minn kvíðir alltaf aðeins fyrir jólatrésleiðangrinum, hann er svo hræddur um að við fáum ekki þéttvaxna og háa tréð eins og ég geri kröfur um. Við gætum endað eins og Griswolds-fjölskyldan ef við förum ekki tímanlega að kaupa rétta tréð.

Svo er nauðsynlegt að eiga skemmtilega kvöldstund saman við skjáinn og horfa á Christmas Vacation og heimsækja Griswolds-fjölskylduna. Hún kemur okkur svo sannarlega í jólaskap. Einnig er hluti af aðventunni að lesa Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson sem er einstök saga og á vel við á þessum árstíma.

Já, það er margt sem þarf að huga að í jólaundirbúningnum en það er mikilvægt að við kunnum að njóta og umfram allt að passa upp á gæðastundirnar með okkar nánustu þær skipta mestu þegar upp er staðið.

Ný upplifun átti sér stað í tengslum við undirbúning jólanna þegar börnin mín voru fædd. Ekkert er dýrmætara en að njóta undirbúningsins í aðventunni og gleðja börnin, sjá tilhlökkunina í augum þeirra og spennuna. Ekkert jafnast á við að vera mamma.

Mínar uppáhaldsminningar tengdar jólahátíðinni eru frá bernskuárunum í Ólafsvík, þar sem ég var hjá ömmu minni og afa. Jólin voru yndisleg í Ólafsvíkinni, dásamlegt að njóta öll saman stórfjölskyldan, jólasnjór yfir öllu, kyrrð og ró, einstök stund sem ég sakna. Svo jólalegt og auðvelt að trúa á jólasveinana þar sem Ólafsvíkurennið blasti við út um gluggann minn þá daga. Mig hefur oft langað að leyfa börnunum mínum að njóta jólanna eins þau voru þá daga, ekkert stress bara ljúfar samverustundir við kertaljós og arineld.+

Sjöfn Þórðardóttir

1643 Móment Aðventan

 

 

Related Posts