Nú er verslunarmannahelgin að ganga í garð og flestir eru sammála um að hún sé ein sú allra skemmtilegasta. Fjölmargir Íslendingar munu leggja leið sína til Vestmannaeyja og upplifa Þjóðhátíð.

Sjálfur hef ég farið þrisvar sinnum á þessa hátíð og alltaf líkað jafn vel. Heimafólkið tekur vel á móti manni og sér til þess að allt gangi sem best, enda er Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum svo miklu meira en bara fylleríshátíð fyrir þeim.

Þessu hef ég komist að síðustu daga þar sem kærasta mín er úr Vestmannaeyjum og það hefur fátt annað komist að síðustu daga og vikur en umræða um Þjóðhátíð og þá hefur nánast hvert einasta Þjóðhátíðarlag verið spilað að minnsta kosti sjö sinnum.

Fyrsta spurningin sem ég fékk frá minni heittelskuðu þegar við ræddum um Þjóðhátíð var hverju ég hefði hugsað mér að klæðast. Ég svaraði auðvitað eins og alvöru aðkomupakk: „Bara regnbuxum og regnstakk held ég.“ Það var vitlaust svar …

Vestmannaeyjar

Ég lærði það að Vestamannaeyingar eru vægast sagt lítið hrifnir af því þegar eitthvert Reykjavíkurlið mætir klætt eins og sjómaður. Ég skal klæðast hátíðlega. Stakar buxur og skyrta.

Nú megið þið þó ekki halda að Vestmannaeyingar sitji í grenjandi rigningu í jakkafötum eða síðkjól. Ef það rignir máttu fara í regnföt og lopapeysa klikkar aldrei. Þessar „helvítis appelsínugulu regnbuxur“ eru þó ekki vinsælar.

Ég mun upplifa Þjóðhátíð algjörlega upp á nýtt. Grillveisla með innfæddum á föstudeginum. Eftir það skal halda beint niður í Herjólfsdal þar sem setning Þjóðhátíðar fer fram, eitthvað sem ég hef aldrei gert, og eftir það munum við flakka á milli hvítra tjalda, syngja Þjóðhátíðarlög og borða góðan mat.

Nú hef ég aldrei logið að ykkur og ætla ekki að byrja á því hér. Mín upplifun á Þjóðhátíð er að vera rúllandi fullur uppi í brekku, syngja hástöfum með Þjóðhátíðarlögunum sem ég þykist kunna (textinn er á risaskjá) og enda síðan í tjaldinu mínu, oftast.

Ég get ekki annað sagt en að ég hlakki mikið til að vera Vestmannaeyingur yfir eina helgi. Gera alla hlutina sem heimamenn gera yfir Þjóðhátíð. Ég þarf þó að passa mig því ég hef komist að því að Vestmannaeyingum finnst ekkert sérstaklega skemmtilegt þegar gert er grín að þeim en sjálfur get ég verið nokkuð kaldhæðinn og stríðinn. Ég þarf að segja réttu hlutina, syngja réttu lögin og klæða mig rétt svo ég verði ekki stimplaður sem eitthvert aðkomupakk, sem ég reyndar er.

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts