Anna Margét Gunnarsdóttir (28) er skemmtilegur snappari:

Anna Margrét Gunnarsdóttir er 28 ára meistaranemi í markaðsfræði og er búsett í Osló ásamt eiginmanni sínum. Anna Margrét heldur úti skemmtilegu Snapchat sem adhd-kisan en hún er líka danskennari og er með Beyoncé-dansnámskeið í Osló.

adhdkisa

SNIÐUG UNG KONA: Anna Margrét Gunnarsdóttir er vinsæl á Snapchat sem adhd-kisan.

Snapp „Að fíflast er stór hluti af mínu daglega lífi svo miðillinn hentar mér afar vel. Ég er svona spontant-fyndin kona, mér dettur eitthvað í hug og þarf að ulla því út úr mér helst strax. Því er mjög þægilegt að geta tekið það upp á Snapchat án mikillar fyrirhafnar og ekki sakar heldur að upptakan eyðist eftir sólarhring. Þá verður miklu auðveldara að láta eins og kjáni án þess að fá móral og fullorðinsáhyggjur yfir eigin opinberu ímynd,“ segir Anna Margrét, eða adhd-kisan líkt og hún heitir á Snapchat.

 

adhd kisa

NÚTÍMAPAR: Anna Margrét og eiginmaður hennar, Einar Geirsson, njóta lífsins í Osló.

Samfélagsmiðlar eru orðnir hluti af daglegu lífi okkar og eru fjölmargir sem nýta sér þá öðrum til skemmtunar. Það má segja að þetta form bjóði upp á það að hver og einn geti verið með sinn eigin ranveruleikaþátt.

„Ég er nokkuð dugleg en það er misjafnt hvað ég eyði miklum tíma í þetta, sjaldnast meira en klukkutíma samanlagt. Enda er nóg annað að gera, eins og að borða, dansa og hafa það gaman í lífinu.

 

Margklofinn persónuleiki
Anna Margrét er ekki einhöm á snappinu, hún býður upp á margar mismunandi týpur sem eru ólíkar en eiga það sameiginlegt að vera skemmtilega sjálfhverfar. Persónurnar Krystall sem er bresk, Heather hin ameríska og Esmeralda sem er suðuramerísk skemmta áhorfendum með sniðugum og fyndum athugasemdum um lífið og tilveruna. Það vekur athygli þeirra sem fylgjast með adhd-kisunni á snappinu að breski hreimurinn hennar er virkilega sterkur og sannfærandi.

„Þegar ég var barn voru foreldrar mínir með breskar sjónvarpsstöðvar og þar að auki hélt ég mikið upp á Spice Girls en þær töluðu hrikalega almúgaensku. Ég fékk æði fyrir talsmátanum og mismunandi hreimum og hef svo bara þróað þetta óvart með árunum. Ég held mikið upp á breska (lág-)menningu og sérstaklega bresk smástirni en innblásturinn af Krystal kemur frá raunveruleikaþættinum The Only Way is Essex sem er jafnskemmtilegur og hann er hræðilegur.

 

adhd kisan
Svo á ég tvær aðrar Snapchat-týpur, hina amerísku Heather og uppáhaldið mitt Esmeröldu sem er suðuramerísk og glímir við smávægilegt skapofsavandamál.“
Anna Margrét er búsett í Osló en hún er þar í meistaranámi í markaðsfræði þar sem megináherslan í náminu er á að greina og skilja hegðun fólks.

„Í raun er ekkert afmarkað markmið með þessu snappi, ég hef einfaldega ótrúlega gaman af því að tala við sjálfa mig og taka það upp á símann minn. Svona fæ ég tækifæri til að skilja miðil sem prófessorarnir mínir vita ekki einu sinni af, talandi um akademískt forskot.“

adhd kisa

SUÐRÆNA DÍSIN ESMERALDA: Anna Margrét birtist líka sem hin sjóðheita, skapstóra Esmeralda sem er suðuramerísk og skefur ekki utan af hlutunum

Twerkar sig í gott skap
Anna Margrét hefur æft dans frá unga aldri, bæði ballett og nútímadans. Samhliða náminu kennir hún Beyoncé-dansa sem eru feikivinsælir.

„Að „twerka“ er frábær leið til komast í gott skap, þú getur ekki hrist á þér rassinn og verði í fýlu samtímis – það er ógerlegt! Ég er svo geðgóð ung kona svo ég snappa aldrei á Snapchat. Ég losa pirring með því að dansa og hreyfa mig. Ég nota norrænan hafragraut þegar að ég kenni. Ég er ekki viss um að sú tungumálablanda myndi virka á Snapchat, það er nóg að pína meðvirka norska vini mína til að hlusta á hrærigrautinn dagsdaglega – óþarfi að leggja það á Snapchat-vini mína líka.“

Margt er líkt með skyldum. Íslendingum gengur að jafnaði vel að samlagast menningu Norðmanna og er jafnan tekið sem litla bróður þrátt fyrir örlítinn menningarmun.

adhd kisan

HEATHER SÚ AMERÍSKA: Þessi skvísa veit hvað snýr upp og niður í tískuheiminum. Hún veit hvað er heitt, nýtt og nauðsynlegt fyrir skvísur að eiga.

„Norðmenn eru góðir á skíðum og borða brúnan ost. Íslendingar eru ekki jafngóðir á skíðum og borða gulan ost. Að öðru leyti er enginn munur,“ segir Anna Margrét danskennari, háskólanemi og adhd-kisa.

Related Posts