AÐDÁANDI VIGDÍSAR

Eva Dögg (44) tekur á móti Ilse Jacobsen (53):

 

Hinn heimsþekkti danski hönnuður, Ilse Jacobsen, kom hingað til lands til að kynna snyrtilínuna ILSE by Ilse Jacobsen sem verður til sölu í verslunum hennar hér á landi. Hún nýtti tækifærið og kíkti á sýninguna „Ertu tilbúin frú forseti?“ þar sem sýndur er fatnaður og ýmsir fylgihlutir Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.

Skemmti sér konunglega „Hún er hrikalega jarðbundin og hugguleg kona sem mætti stórglæsileg í sínum þekktu gúmmístígvélum. Hún er stórkostleg sveitakona sem heldur í sinn kjarna,“ segir Eva Dögg, eigandi tisku.is og ein af þeim sem tóku á móti Ilse þegar hún kom hingað til lands.

Ilse varð fyrst fræg fyrir hönnun sína á regnfatnaði og reimuðum gúmmístígvélum. Í dag er línan hennar breið og falleg. „Mér finnst skemmtileg þróun í gangi hjá Ilse. Hún nær að vera allra. Hönnun hennar er orðin ansi fjölbreytt og hún er farin að gera flotta kjóla með fallegu mynstri og litum. Sniðin hennar er falleg sem henta breiðum hópi kvenna. Fatnaðurinn er „plain“ en hún bætir við smáatriðum sem gera flíkurnar ómótstæðilegar. Hún dregur fram það besta hjá konum með flíkunum sínum,“ segir Eva.

Ilse kíkti, eins og fyrr sagði, á sýninguna „Ertu tilbúin frú forseti?“ þar sem hún er mikill aðdáandi Vigdísar. „Hún skemmti sér konunglega. Þetta er skemmtileg sýning þar sem eru sagðar sögurnar á bak við flíkurnar. Vigdís var með kvenlegan stíl og ekkert að reyna að vera karlmannleg þó að hún gegndi svokölluðu „karlastarfi“. Ilse er mikill aðdáandi Vigdísar og safnið olli engum vonbrigðum. Það er líka svipuð hugmynd á bak við stílinn hjá þeim báðum – að klæðast einhverju sem er allra og er tímalaust.“

Related Posts