Fyrir tæpum áratug síðan var ég „single“ og sæt í miðborg Reykjavíkur og leitaði hins eina sanna, eins og konur eiga til að gera, á ýmsum stöðum: á kránum í 101, í vinahópnum, hjá vinnufélögunum og annars staðar. Aldrei hvarflaði að mér að leita hans út fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið, hvað þá út fyrir landsteinana. Eftir skráningu á einkamál og að hafa fetað mig þar varlega í gegnum nokkra stórfurðulega karaktera og tölvusamskipti var kappinn fundinn. Sjómaður og þriggja barna faðir í Grindavík, dreptu mig ekki. Næsta hálfa árið mátti ég éta klausuna um að ég ætlaði aldrei að flytja í „sveit“ ofan í mig trekk í trekk vinkonum mínum til mikillar skemmtunar. Maðurinn og börnin hans höfðu heillað mig gjörsamlega upp úr skónum og ég pakkaði mér, unglingnum syni mínum og miklu meira dóti en kona ætti að geta safnað á 35 árum saman og flutti í útgerðarbæinn Grindavík þar sem ég þekkti þá sirka 10 hræður. Fljótlega stækkaði þó tengslanetið í Grindavík.


Sambandið við manninn entist ekki lengi en engu að síður ákváðum við sonurinn að búa áfram í Grindavík. Ég ákvað að gott væri fyrir mig, feimna Krabbann, að stökkva út í djúpu laugina og kynnast sem flestum. Ég gekk í slysavarnadeildina Þórkötlu og kvenfélagið, þar sem ég var tekin í stjórn Þórkötlu á mínum fyrsta fundi og sit þar enn sex árum síðar, brottflutta kellan. Ég var samhliða formaður kvenfélagins og þótti nú einhverjum spes að ég innflutta stelpan yrði formaður. Ég vann í fimm ár með frábærum samstarfsfélögum í verslun bæjarins, þar sem mikið var hlegið en líka rifist. Alltaf sagðist ég vinna í félagsmiðstöð bæjarins, enda má segja að flestir bæjarbúar komi þar daglega og því var konan með puttann á púlsinum í flestu sem var að gerast í bænum.


Það fíla ekki allir smábæi og búsetuna þar en eftir að hafa prófað að búa í einum slíkum get ég með sanni sagt að í Grindavík var gott að búa. Samstaða og samkennd er rík í fólki þegar eitthvað bjátar á sem snertir marga bæjarbúa. Þar býr harðduglegt, skemmtilegt og frábært fólk upp til hópa, fólk sem gaman er að eiga sem vini, kunningja og tengslanet á Facebook. Fólk sem heillar mig með vinskap og knúsi og góðum kveðjum þegar ég dett þar yfir bæjarþröskuldinn, eins og ég gerði núna um helgina á bæjarhátíðinni Sjóaranum síkáta.


Heilt bæjarfélag náði að eignast hlut í huga og hjarta mér og Grindjánar munu aldrei losna við mig þó að ég sé flutt í burtu. Í dag er ég svo miklu ríkari en áður, með vini og kunningja í tveimur bæjarfélögum sem heilla mig aftur og aftur með lífsgleði sinni, samstöðu, samkennd og uppátækjasemi. Sátt við lífið og tilveruna og manneskjuna sem ég þarf að búa með alla ævi, sjálfa mig.

2016, Aldís Pálsdóttir, Ásta Garðarsdóttir, séð & heyrt, Starfsmannamynd, SH1606012200, Ragna

RAGNA GESTSDÓTTIR

Related Posts