Nú eru tæp þrjú ár síðan ég flutti úr Árbænum, frá fjölskyldu minni. Ég flutti úr póstnúmeri 110 í 108 og ég hef litla eftirsjá í þeim efnum, ég vildi vera meira miðsvæðis og leigan er einstaklega sanngjörn. Það tók mig smá tíma að aðlagast umhverfinu og það var ekki fyrr en seinasta sumar, þegar ég var leiðbeinandi í Vinnuskólanum í hverfinu, að ég fór að upplifa hverfið sem mitt hverfi. Þetta voru mínar fyrstu rætur ef svo mætti segja.

En ég sakna Árbæjarins svo mikið, meira en ég ætti að gera á þessum tímapunkti í lífinu. Í hvert skipti sem ég ferðast um Árbæ, hvort sem ég er í strætó, bíl eða labbandi, þá fyllist ég saknaðartilfinningu. Hvert sem ég lít eru minningar frá fyrstu 25 árum ævi minnar.

 

Nóatúnsgrasið, þar sem ég spilaði fótbolta hvern einasta dag eftir skóla.

Skalli, þar sem ég leigði allar þær kvikmyndir sem gerðu mig að kvikmyndagerðarmanni í dag.

Stífluhringurinn, þar sem ég drakk minn fyrsta bjór.

Kirkjubrekkan, sem ég renndi mér niður á þotu að vetri til.

Ársel, þar sem ég dansaði fram eftir öllu á grunnskólaböllum.

Árbæjarlaug, sem ég fór næstum aldrei í en elska samt af einhverri óskiljanlegri ástæðu.

Allt er þetta enn þá þarna.

 

Mitt helsta vandamál við að búa ekki lengur í Árbænum er því miður eitthvað sem ég virðist ekki geta breytt, sama hvað ég reyni. Málið er að sex af mínum bestu fimmtán, já, fimmtán, vinum búa í Árbænum svo það er hentugast þegar hittingar, litlir og stórir, eiga sér stað að hittast í Árbænum. Ég skil það algjörlega en þegar ég býð heim til mín þá virðast þeir halda að ég búi á Snæfellsnesi miðað við hvernig þeir tala um þessar 15 mínútur sem þeir þurfa að keyra heim til mín.

 

Ég elska vini mína. Ég tala við þá alla á hverjum einasta degi í marga klukkutíma með leiðum sem fólk undir tvítugt hefur ekki heyrt um. Ég er háður þeim, þeir eru stórkostlegir. Þeir eru svo stórkostlegir að ef þeir fara ekki að flytja í önnur hverfi, helst vestan megin við mig svo ég verði fyrir miðju, mun ég á næstu árum neyðast til að flytja í Árbæinn, aftur.

 

Ekki að ég sé að kvarta.

Brynjar Birgisson

ÁRSEL

Related Posts