Anna Elísabet Ólafsdóttir (53) ræktar mannauð og baunir:

Það er alkunna að máttur íslenskra kvenna er mikill. Anna Elísabet Ólafsdóttir, aðstoðarrektor við Háskólann á Bifröst, er ein þeirra en hún er systir Ólafs Ólafssonar sem kenndur er við Samskip. Hún ásamt samkennurum á Bifröst standa fyrir menntunar- og þróunarverkefni í Afríku, en meginverkefnið er að efla menntun og sjálfstæði kvenna í þróunarlöndum. En að auki er Anna með lítinn bóndabæ þar sem hún ræktar meðal annars banana og baunir.
AFRÍKA HEILLAR „Ég kom til Tansaníu í fyrsta sinn árið 2005 og heillaðist algjörlega af landi og þjóð. Ég kom aftur hingað árið 2008, hér á ég jörð og gistiheimili en það er ekki meginástæðan fyrir veru minni í Afríku. Verkefnið Máttur kvenna hefur verið starfrækt á Bifröst í um áratug og nú hefur hugmyndafræðin á bak við það verið útfærð og flutt út. Í mars á þessu ári voru samtökin Woman Power stofnuð en meginmarkmið þeirra er að efla menntun kvenna og efla sjálfstæði þeirra og auka þannig möguleikana á auknum lífsgæðum,“ segir Anna Elísabet.

afræika2

BIFRÖST Í AFRÍKU: Verkefnið heppnaðist virkilega vel.

Hvunndagshetjur
„Áður en við fórum af stað með verkefnið gerðum við ráð fyrir um tuttugu konum en raunin varð sú að fleiri en fimmtíu konur skráðu sig. Þær lögðu mikið á sig til að koma, vöknuðu eldsnemma á morgnana þrifu heimilin, mjólkuðu kýrnar og gáfu fjölskyldunni að borða. Þær voru staðráðnar í því að mæta og mennta sig og tilbúnar til að leggja hart að sér. Sumar þessara kvenna eiga virkilega erfitt líf. Mér er ein stúlka sérstaklega minnisstæð, hún var einstæð með þrjú börn. Það er ekki vel séð að stúlkur eignist börn utan hjónbands og því þurfti hún að flýja þorpið sitt þegar hún varð barnshafandi öðru sinni. Hún fór langt inn í óbyggðir; þar fór fæðingin af stað og hún fæddi tvíbura ein í óbyggðum en til allrar hamingju átti hún dálitla peninga og gat því greitt fyrir sjúkrahúsvist eftir fæðinguna. Við styrktum þessa stúlku með saumavél og nú er hún í stakk búin til að sjá fyrir sér og börnunum sínum sem saumakona. Það þarf ekki alltaf mikið til. Bara það að konur fái tækifæri til að læra að sauma getur aukið lífsgæði þeirra og fjölskyldu umtalsvert.“

Frístundabóndi í Afríku
„Ég er ekki stórbóndi, við erum með smávegis ræktun á ýmsum tegundum. Við ræktum til dæmis banana, maís, límónur og baunir og núna erum við að hefja tilraunaræktun á kaffi. Ég hlakka til að sjá hvernig það kemur út. Þetta er sjálfsþurftarbúskapur. Þau sem eru að vinna á býlinu nýta uppskeruna að mestu. Ég rek einnig gistiheimili á bænum, við getum tekið á móti tólf gestum. Hér er hægt að upplifa sanna afríska stemningu. Ég starfaði hér í Tansaníu í nokkur ár en eftir að ég tók við starfi aðstoðarrektors þá hef ég ekki komist hingað eins oft og áður.“

afríka1

GEFANDI LÍF: Anna Elísabet er stolt af verkefninu í Tansaníu.

Gefandi verkefni
„Við undirbjuggum okkur vel áður en við héldum námskeiðið úti og fengum unga stúlku til okkar sem heitir Restitude. Hún dvaldi hér á landi í sjö vikur þar sem hún hlaut grunnþjálfun. Hún undirbjó leiðbeinendur og starfsfólkið úti áður en við komum. Það var mikil gleðistund þegar konurnar okkar útskrifuðust. Það voru rúmlega fjörtíu konur sem luku námskeiðinu. Lífsgleðin og orkan sem geislar frá þeim er svo gefandi og máttur þessara kvenna er mikill,“ segir Anna sem er greinilega sátt við árangurinn.

Related Posts