Hildur Þórðardóttir var ein sú fyrsta sem tók skrefið og tilkynnti um forsetaframboð sitt strax og ljóst var að embættið myndi losna. Hér svarar hún spurningum vikunnar.

DONALD TRUMP ER …? Heppilegur kostur á móti Hillary Clinton af því hann eykur líkurnar á að hún verði kosin, standi valið á milli þeirra tveggja. Hann endurspeglar ákveðnar skoðanir þröngs hóps í Bandaríkjunum og verður vonandi til þess að fjöldinn ákveður að tileinka sér víðsýni og fordómaleysi í auknum mæli.

HVAÐA TEGUND AF TANNKREMI NOTARÐU? Ýmist gamla góða Colgate eða matarsódatannkrem í

Hildur Þórðardóttir, SH1603024235, Garðar Benedikt Sigurjónsson, spurt og svarað, forsetaframbjóðandi, Aldís Pálsdóttir, séð & heyrt, 2016

HILDUR: Á steini við sjóinn.

gullumbúðum sem ég man ekki hvað heitir.

SÍÐASTA KVÖLDMÁLTÍÐIN? Mín eða Jesú? Í gærkvöldi var ég með kjúklingabringu í tortillu og heimalagaðri tómatsósu. Ljúffengt.

BRENND EÐA GRAFIN? Brennd, ekki spurning og helst að láta dreifa öskunni einhvers staðar uppi á heiði svo að afkomendurnir þurfi ekki að vera með samviskubit yfir að hugsa ekki um leiði í kirkjugarði.

OPAL EÐA TÓPAS? Hvorugt núna, en blár ópal var uppáhaldið mitt þegar ég var lítil.

HVAÐ FÆRÐU ÞÉR Á PYLSUNA? Get ekki lengur borðað pylsur í brauði því þær fara ekki vel í meltingarkerfið, en ég elska Vals tómatsósu á pylsuna og hráan lauk og í raun allt nema steiktan lauk.

FACEBOOK EÐA TWITTER? Var frekar sein að komast á Facebook en er nú með framboðssíðuna þar, Hildur Þórðardóttir forsetaframboð 2016, sem ég hvet fólk til að líka við og fylgjast með framboðinu. Twitter-reikning opnaði ég ekki fyrr en í fyrradag og þá fyrir framboðið, #frambodhildar. Hef ekki sett neitt inn enn þá, en þetta var líka hugsað í tengslum við myndbandið sem kemur út bráðum og þá fyrir fólk til að senda mér spurningar um það sem því brennur á hjarta í sambandi við framboðið.

HVAR LÆTURÐU KLIPPA ÞIG? Hjá Særúnu vinkonu minni, fylgi henni bara hvert sem hún fer.

BORÐARÐU SVIÐ? Það er orðið mjög langt síðan.Man síðast eftir að hafa borðað svið þegar ég bjó í Hafnarfirði sem hefur verið fyrir um það bil 32 árum. Ég fæ mér frekar rófustöppu, síld og rúgbrauð á þorrablótum.

HVAÐ GERIRÐU MILLI 5 OG 7 Á DAGINN? Ef ég næ að fara út að ganga í klukkutíma uppi á heiði fyrr um daginn fer þessi tími yfirleitt í að lesa eða skrifa eitthvað í tölvunni eða skutla syni mínum í skylmingar. Ég vinn ekki hefðbundin 9-5 vinnudag svo það er engin regla hjá mér. Ef ég er á kafi í bók skrifa ég á þessum tíma og má ekkert vera að því að hugsa um kvöldmat.

HVAÐ ERTU MEÐ Í VINSTRI VASANUM? Gleraugun mín þessa stundina. Þarf þau bara til að keyra, horfa á sjónvarp og þekkja fólk í bænum.

BJÓR EÐA HVÍTVÍN? Gamla góða Gvendarbrunnarvatnið frekar. Hitt fer ekki vel í magann á mér. Get þó alveg fengið mér rauðvín með kjötmáltíðum.

HVERNIG VAR FYRSTI KOSSINN? Óvæntur, skyndilegur og meira til að prófa en af hrifningu á viðkomandi.

HVER VÆRI TITILL ÆVISÖGU ÞINNAR? Þetta er erfið spurning. Ég á eftir að gera svo margt af því sem ég ætlaði. Til dæmis að koma á friði í heiminum. En titillinn verður jákvæður, svo mikið er víst.

HVER ER DRAUMABÍLLINN? Honda Civic var lengi draumabíllinn, en veit ekki hvernig hann lítur út núna. Mig langar alla vega í nýrri bíl en ég á núna sem er ekki erfitt því minn er 2004 módel.

KJÖT EÐA FISKUR? Ég elska fisk, til dæmis lítið eldaðan hlýra, bara rétt volgan í miðjunni. Elska líka lambakjöt og hreindýrakjöt, lítið eldað en búið að standa í nokkrar mínútur til að blóðið setjist.

GIST Í FANGAKLEFA? Ekki gist en dvalið í fangelsi yfir nótt. Ég lék hlutverk fangavarðar í heimildamynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Það sést í höndina á mér þar sem ég opna fyrir einni persónunni. Þetta var í Síðumúlafangelsinu eftir að því var lokað og áður en það var rifið.

DRAUMAFORSETI? Vingjarnleg manneskja sem er laus við hroka og yfirlæti, hógvær og kurteis, með góðan þokka og kann sig í öllum aðstæðum. Treysti sjálfri mér til að uppfylla þessar væntingar.

STURTA EÐA BAÐ? Ekkert jafnast á við gott olíubað (smákókosolía sett út í baðvatnið) við kertaljós og jafnvel róandi tónlist en má sjaldnast vera að því svo að sturtan verður oftar fyrir valinu.

REYKIRÐU? Nei.

Í HVERJU FINNST ÞÉR BEST AÐ SOFA? Nú væri freistandi að segja eins og Marilyn Monroe: Engu nema Chanel nr. 5. En held að ég segi frekar náttkjól og ullarsokkum. Ég á ekki mann til að hlýja mér á tánum.

HVER ER BESTA ÁKVÖRÐUN SEM ÞÚ HEFUR TEKIÐ? Að gefa fyrstu bókina mína út sjálf. Stór ákvörðun sem tók langan tíma en gaf mér styrk til að gefa út fleiri bækur og síðan bjóða mig fram til forseta.

HVAÐA SÖGU SEGJA FORELDRAR ÞÍNIR ENDURTEKIÐ AF ÞÉR? Ætli það sé ekki þegar ég var sex ára í sveitinni og skrifaði heim: „Í gær var slátrað hænum, á morgun fáum við kjúklinga.“ Eða þegar þau voru að reyna að hamra í mig landafræðinni og sögðu: „Hvernig getur þér fundist þetta leiðinlegt, komin af langafa þínum sem fékk verðlaun í landafræði?“

HVAÐA BÓK EÐA KVIKMYND FÉKK ÞIG SÍÐAST TIL AÐ TÁRAST? Ég les svo mikið að ég man það ekki. Ég fæ örugglega hátt í 100 bækur á hverju ári á bókasafninu. Táraðist ekki yfir síðustu bókum sem ég las, enda voru það fræðibækur um samfélagsmál, þótt umfjöllunin um fátæktina og Gúttóslaginn hefði reyndar komið sterkt til greina, enda hræðilegt ástand á þessum tíma.

ERTU MEÐ EINHVERJA FÓBÍU? Ég er lofthrædd og mun aldrei stökkva í teygjustökki eða fallhlíf. Reyndar var ég fyrsta fóstrið sem stökk í fallhlíf á Íslandi, því mamma var fyrsta konan og ég var inni í henni, en ekki segja neinum. Svo finnst mér hræðilegt að horfa á uppskurði í sjónvarpinu og líkskurði og þvílíkt. Hrikalegt þegar skotið er inn hjartauppskurði í saklausri umfjöllun um spítalana í fréttunum.

HVAÐ ER NEYÐARLEGASTA ATVIK SEM ÞÚ HEFUR LENT Í? Í Grikklandi fyrir mörgum áratugum var ég að dansa grískan hringdans á veitingastað með fullt af fólki og hlýrinn á kjólnum mínum slitnaði svo kjóllinn fór niður fyrir bert brjóstið. Ég tók ekki eftir þessu strax og kafroðnaði náttúrlega þegar ég sá þetta en vonaði að enginn hefði tekið eftir þessu. Svo þegar ég var að fara út af staðnum stóðu nokkrir hressir menn við dyrnar og fögnuðu mikið þegar ég gekk fram hjá svo líklega höfðu þeir séð herlegheitin. Í nokkra áratugi gekk ég með skömmina út af þessu en ákvað að sleppa henni fyrir nokkrum mánuðum, enda allir búnir að gleyma atvikinu.

KLUKKAN HVAÐ FERÐU Á FÆTUR? Helst svona klukkan níu, en þarf stundum að vakna upp úr klukkan sjö til að keyra strákinn minn í skóla niðri í bæ.

ICELANDAIR EÐA WOW? Icelandair því það er meira pláss á milli sætanna sem er nauðsynlegt fyrir hávaxið fólk eins og mig. En fagna samkeppninni.

LEIGIRÐU EÐA ÁTTU? Er hjá Búseta svo ég á leiguréttinn en borga leigu.

KÓK EÐA PEPSÍ? Hvorugt. Drekk ekki gos.

ÍSRAEL EÐA PALESTÍNA? Palestína. Ég held alltaf með lítilmagnanum. Hugsaðu þér ef við fengjum hundruð þúsunda manna hingað til lands af einhverju þjóðarbroti sem myndi koma sér upp her og loka okkur Íslendinga af á gamla varnarsvæðinu á Reykjanesi. Við myndum svo þurfa að bíða klukkutímum saman í röð til að sýna skilríki í þeirri von að komast í vinnuna. Auðvitað myndum við mótmæla með öllum mögulegum ráðum.

DAGBLAÐ EÐA NET Á MORGNANA? Net eða blað frá deginum áður. Fer helst ekki á náttsloppnum niður að ná í blaðið á morgnana.

HVER ER FYRSTA ENDURMINNING ÞÍN? Þegar ég strauk að heiman í fyrsta sinn fimm eða sex ára. Ég lagði af stað úr Laugarásnum í austurátt og ætlaði út í heim en þegar ég sá Ártúnsbrekkuna áttaði ég mig á að ég þekkti engan úti í heimi, svo ég breytti stefnunni í Bústaðahverfið þar sem amma mín bjó. Ég man líka að á ljósunum á Miklubrautinni beið lögreglubíll og græni kallinn var svo lengi að koma að ég fór yfir á rauðum kalli með hjartað í buxunum en löggan stoppaði mig ekki.

Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts