Ég hef lítið stundað ballstaðina síðustu ár, ég hef hvorki haft mikla löngun til þess né tíma. Ég er einnig handviss um að mér yrði vísað út sökum aldurs ef ég tæki mig nú til og færi að skakklappast á milli dansstaða í miðbæ Reykjavíkur. Það læðist að mér sá lúmski grunur að á skemmtihúsum bæjarins séu bara fyrrverandi nemendur mínir og fólk sem fæddist í gær.

Ballstaðir eru ekki fyrir fólk á mínum aldri. Þar er bara þröngt og allir fullir og kunna ekkert að dansa. Hvar eru allir sem voru á Astro? Þeir voru svo skemmtilegir og þar var svo gaman að dansa.

Hvert fer fólk sem er rétt skriðið yfir fertugt ef það fær skyndilega löngun til að dansa? Það eru takmörk fyrir því hve lengi maður nennir að dansa á stofugólfinu heima, eða í þvottahúsinu í stífum tangó við borðtuskur. Spyr sá sem ekki veit.

Kannski er bara ekki gert ráð fyrir því að fólk stundi dans af kappi eftir fertugt. Hér er átakanlegur skortur á dansiböllum þar sem meginmarkmiðið er að dansa en ekki drekka og detta utan í mann og annan. Erlendis er ríkari hefð fyrir því að fólk sæki danshús þar sem dansinn er í fyrirrúmi, þar er fólk á öllum aldri sem stígur hliðar saman hliðar af stakri prýði. Hér á landi var hægt að komast á gömlu dansanna en ég sé mig ekki í þeim markhópi strax, þrátt fyrir offjölgun á gráum hárum.

Þeir kostir sem ég sé í stöðunni eru að fara í bæinn og djamma með ungviðinu, sem ætti að vera heima hjá sér að læra, eða bíða með ballferðir að minnsta kosti næstu tuttugu árin og skella mér þá á ball á Hótel Sögu. En þar eru haldin böll fyrir ömmu mína og hennar félaga, Raggi Bjarna og aðrar dægurlagahetjur halda uppi stuðinu, bekkurinn er þétt setinn og hver einasta dama upptekin. Þar er ekki skortur á gleði, ömmur og afar svífa um gólfið líkt og þau gerðu í Súlnasalnum fyrir áratugum síðan og hér hefur enginn gleymt neinu.

Ég held að ég bíði með dansiballaferðir þangað til Páll Óskar verður kominn í skóna hans Ragga Bjarna, þá lifnar Astro aftur við og ég tek gleði mína á ný. Ég dansa bara við skúringamoppuna fram að því.
Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts